fbpx

Hring eftir Hring

Ég Mæli MeðFallegtFylgihlutirÍslensk Hönnun

Ég steig inní draumaveröld um daginn þegar ég heimsótti vinnustofuna þar sem fallegu skartgripirnir frá Hring eftir Hring verða til. Tilgangur heimsóknarinnar var að fá að fylgjast með myndatöku fyrir merkið og að sjálfsögðu að skoða allt fallega skartið.

Aldís Pálsdóttir ljósmyndari var að taka svo fallegar myndir inná vinnustofunni sem ég varð að fá að deila með ykkur. Að auki fékk ég að senda nokkrar spurningar um merkið til hennar Steinunnar Völu og svörin finnið þið meðal myndanna.

Ég hvet ykkur eindregið til að lesa svörin frá henni Steinunni Völu. Mér finnst svo gaman að fá að vita söguna og innblásturinn á bakvið vörur – sérstaklega þær sem ég á eða langar í. Eftir að hafa lesið textann frá henni þykir mér ennþá vænna um hálsmenin mín tvö – þau eiga sér mun lengri sögu en mig gat órað fyrir.

63039_568360239888961_778706476_n

Geturðu sagt mér aðeins frá því hvernig upphaf Hring eftir Hring kom til?

Hring eftir hring hefur verið í mótun og vexti síðasta fjóra og hálfa árið eða frá því ég gerði skartgrip sem varð vinsælli en mig hefði getað órað fyrir. Það var hringur úr leir, sem fékk það einfalda nafn Laufa hringurinn, og var hluti af verkefni sem ég vann í diplóma námi hjá Listaháskóla Íslands. Hringinn seldi ég margsinnis af fingri mínum, til þeirra sem umgengust mig og langaði í eintak og til ókunnugra vegfaranda sem stoppuðu mig á götu úti og spurðu um hringinn. Upphafið er því svo sannarlega Laufa hringurinn en frá því hann leit fyrst dagsins ljós hafa mörg skref verið tekin í áttina að því að láta stóran draum um að skapa farsælt og vel rekið íslenskt hönnunar fyrirtæki og vörumerki rætast. Fyrir mér hafa lykilatriðin verið að sýna kjark í nýjum aðstæðum og óttast ekki það sem er ófyrirséð, leysa hvert vandamál sem upp kemur, grípa tækifæri fegin hendi, fara sjálf á eftir því sem ég óska mér og bæta mig þar sem ég hef verið veik.

71401_568360129888972_689801758_n 16577_568359606555691_726683105_n

Í kringum Laufahringinn bætti ég við fleiri munum sem mynda saman skartgripalínuna Ævintýrið. Árið 2011 leit svo Teboðs línan dagsins ljós en hana hannaði ég ásamt Andreu Ósk Jónsdóttur að viðbættum tréslaufum eftir Mugga húsgagnasmið. Á Hönnunarmarsi árið 2012 frumsýndi ég nýjar hálsfestar sem ég kalla Pirouette og hringa og eyrnalokka við. Nýverið bættust við armbönd í stíl en þessar vörur hafa verið afar vinsælar undanfarið. Á Hönnunarmarsinum síðasta, 2013, sýndi ég örlítið brot af línu sem ég kalla Fluga í versluninni Kraumi. Sú lína byggir á fluguhnýtingum, handapósum og fótleggjum, en sú línu hefur verið að gerjast hjá mér í tvö ár ef ekki lengur. Ég hef aldrei verið jafn lengi að móta línu og átt jafn erfitt með að ná útkomu sem mér líkar. Verkin eru í huganum, stemmningin, tilfinningin og andrúmsloftið en mér hefur reynst erfitt að ná útkomu sem mér líkar OG er raunhæf söluvara. Sem betur fer hafa nokkrir hlutir fæðst hjá mér sem eru nú í prufun hjá okkur.

3650_568358726555779_1114825577_n 71401_568360129888972_689801758_n-1

995729_568358519889133_2069884975_n

Hvaðan færðu innblástur fyrir vörurnar þínar?

Ég fæ innblástur víða og það sem ratar í skissubækurnar mínar eru til dæmis stundir sem vekja hjá mér tilfinningar og mér finnst sjarmerandi. Það getur verið hegðum einstaklings, tónlist, texti, lykt, endurminning, myndrænt augnablik sem mér finnst einstakt og mig langar að endurvekja eða endurskapa. Rætur Pirouette skartgripalínunnar liggja til dæmis til tveggja verka sem eru skáldsagan Water for Elephants og laganna Pirouette og Love letter eftir söngkonuna og lagasmiðinn Lisu Mitchell. Lögin vöktu hjá mér sterkar tilfinningar og kölluðu fram einstaklega falleg myndræn augnablik sem eru þannig að mig langar til að upplifa þau sjálf. Water for Elephants las ég tvisvar í röð og fannst ég horfa á kvikmynd nánast allan tímann en sagan gerist í farandsirkus fyrir 100 árum síðan. Andstæðurnar í sirkusnum eru miklar. Þar eru stórstjörnur sem þéna vél, klæðast silki og demöntum og drekka kampavín á kvöldin, og á móti bláfátækir þrælar sem eiga sér ekki von um frelsi. Minn útgangspunktur var að tengja þessa tvo heima með því að búa til kraga, (hugmyndin á bak við hálsmenin eru sem sagt kragar), sem ganga bæði við fallegan dýran silki kjól og ódýran, gamlan, margnota, upplitaðan bómullarkjól. Þegar þú notar festina yfir bómullarkjólinn, segjum bara náttkjólinn jafn vel, þá virkar hún þannig að hún gefur kjólnum sterkan, nýjan karakter.

1012062_568358749889110_1187937630_n521676_568359266555725_249435660_n

Innblásturinn að Flugu línunni minni, sem mun líta dagsins ljós í október ef allt gengur eftir, eru endurminningar mínar og sú djúpa virðing og aðdáun sem ég hef fyrir nákvæmni, þolinmæli, alúð og smáatriðum. Ég er veik fyrir fólk sem sinnir áhugamálum sínum af alúð, er vandvirkt, gefur sér tíma til að gæta að öllum smáatriðum og er þolinmótt. Ég hef alltaf veitt þessum þáttum athygli og þegar ég verð þeirra vör fæ ég fiðring í magann og næstum græt af gleði. Dæmi um þetta eru verk Eggerts Péturssonar myndlistamanns og fínlega hekluð milliverk sem fáir gefa sér tíma til að vinna nú. Fyrir mér eru fluguhnýtingar eitt af þessu. En svo flétta ég fluguhnýtingarnar saman við efnivið sem ég hrífst af og fleira eins og fótleggi dansara og handapósur, en þaðan koma formin.

1012457_568358599889125_490975025_n996895_568360146555637_1997623962_n 969777_568358796555772_420449990_n

Hefur hönnunin vakið athygli út fyrir landsteinana?

Já það hefur hún gert. Ævintýra línan hefur vakið athygli í Bandaríkjunum, Danmörku, Þýskalandi og Hollandi einna helst og selst vel þar sem hún hefur staðið til boða. Nú síðast bættist við sölustaður í Svíþjóð og gengur afar vel. Teboðs línan okkar er nýrri en er nú farin að skila okkur tækifærum í til dæmis Finnlandi, Hollandi, Þýskalandi og Japan. Við ákváðum að bíða með markaðssetningu á Hring eftir hring erlendis þangað til við værum búin að vinna verkferla innan fyrirtækisins betur, sem lúta til að mynda að framleiðslu, dreifingu og lágmörkun á kostnaði, og sjáum nú fyrir endann á þeirri vinnu. Að henni lokinni munum við láta reyna af meiri mætti á markaðssetningu og tenglsanet okkar erlendis en hingað til höfum við aðallega brugðist við fyrirspurnum sem til okkar berast og eru gjarnan smærri concept búðir og vefverslanir. Við munum til dæmis sýna vörur okkar á Maison et Objet vörumessunni í París í september næstkomandi.

643922_568358576555794_2010893016_n995729_568358519889133_2069884975_n-1

Ef þú horfir 5 ár fram í tímann hvert langar þig að vera komin með hönnunina þína?

Ég á mér tvær sýnir. Önnur, sú stærri, er draumurinn um vel rekið og farsælt hönnunar vörumerki sem er stóra markmiðið mitt og það sem ég stefni alltaf að. Hin sýnin nær yfirleitt styttra fram í tímann í einu, kannski 18 mánuði eða svo, og sú sýn felur í sér að við munum ná að sýna nýja vörulínu í október á þessu ári. Ná settu markmiði um aukningu í veltu þannig að við getum haldið áfram að bæta við okkur fagfólki í þau störf sem ég er ennþá að sinna og vildi svo gjarnan gera betur. Koma nýju heimasíðunni okkar í loftið og leysa bæði framleiðsluvandamálin sem ég stend nú frammi fyrir. Sýna á Maison et Objet sýningunni nú í september og að ári líka. Ná þar X mörgum sölustöðum og XX mörgum dýrmætum kontakt aðilum. (Við hvern viðburð og hverja sýningu set ég mér markmið um fjölda kontakta sem ég ætla mér að ná á sýningunni og viðhalda eftir hana.) Og svo mætti áfram telja.

536876_568358569889128_737113024_n

Ég er svo ánægð með postulínsfiskinn minn ég nota hann nánast á hverjum degi

Myndirnar sem ég tók af vinnustofunni sýni ég ykkur svo seinna – ég hálfskammast mín samt fyrir þær þegar ég sé svona fallegar myndir – fleiri myndir finnið þið HÉR.

Góða helgi!

EH

 

Frí förðun fyrir heppna lesendur

Skrifa Innlegg

4 Skilaboð

  1. Sigríður Aðalbergsd.

    9. August 2013

    Meiriháttar skartgripir :)