Mig langar að segja ykkur frá einum förðunarsnillingi, henni Hjördísi Ástu. Hjördís er þessa stundina í Versló og ég veit ekki hvort það sé asnalegt að segja það en hún minnir mig smá á sjálfa mig.
Ég var með förðunarpenslana á lofti öll fjögur árin sem ég var í skólanum sem býður uppá ótrúlega mörg tækifæri fyrir þá sem hafa áhuga á förðun. Það er nemendamótið, sýningu Listafélagsins, nokkur blöð sem innihalda öll ýmsa myndaþætti, Vælið, hinar og þessar myndatökur. Hjördís hefur eins og ég farðað fyrir allt sem tengist skólanum og rúmlega það.
Mér datt í hug að fá aðeins að forvitnast um hana Hjördísi og deila því með ykkur…
Hvaðan kemur menntunin þín í förðun?
Ég er alveg sjálflærð og hef ekki fengið neina formlega menntun. Það hefur tekið mikinn tíma, þrautseigju og metnað að koma mér og kunnáttu minni á þann stað sem ég er í dag. Ég hef lært mikið af Youtube, með því að grandskoða og stúdera tækni og farðanir sem ég sé frá öðrum makeup artistum og af tískusýningum, lesa bækur og síðast en ekki síst að æfa mig, endalaust.
Hvaða snyrtivörur finnst þér að allar konur þurfi að prufa?
Mér finnst samt að allir þurfi að prufa góðan hyljara, kinnalit og góðan gel eða blautan eyeliner. Einnig að prufa mismunandi varaliti og finna sér einn hversdags og einn rauðan eða dökkan varalit fyrir fínni tilefni.
Svo er það eitt annað sem er beint ekki snyrtivara. Mér finnst að allir sem farða sig þurfi að prófa að nota góða bursta. Margir furða sig á því hvað burstar skipta miklu máli en góðir burstar gera kraftaverk.
Finnst þér íslenskar konur almennt vera nýjungagjarnar þegar kemur að förðun og snyrtivörum?
Mér finnst það skiptast svolítið í tvennt. Annars vegar þær sem eru spenntar fyrir að prófa allar nýjungar og svo hins vegar þær sem eru smeykar við að prófa nýja hluti og við að stíga út fyrir þægindarammann. Snyrtivörur hérna á Íslandi eru yfirleitt frekar dýrar miðað við í mörgum öðrum löndum svo ég skil það vel að það séu ekki allir til í að setja pening í hvað sem er bara til þess að prófa og sjá hvort það gangi. Sjálf kynni ég mér alltaf snyrtivörur og nýjungar vel áður en ég kaupi þær og passa mig að eyða peningnum skynsamlega.
Varðandi farðanir finnst mér það oft vera aldurstengt. Þær yngri eru oft mikið til í eitthvað öðruvísi en þær sem koma til mín leyfa mér oftast að ráða því algjörlega hvað ég geri. Þær sem eru eldri vilja frekar eitthvað minimalískt og eru oftar en ekki smeykar við ljóma og sanseringu. Einhver Jón úti í bæ bjó nefnilega til þá reglu að eldri konur ættu ekki að nota vörur með sanseringu. Þetta stangast svolítið á hjá honum Jóni okkar því að ósjálfrátt tengjum við ljóma og sanseringu við ungleika og frísklegt útlit. Eftir minni vitneskju er það nákvæmlega það sem eldri konur sækjast eftir. Ekki leyfa Jóni úti í bæ að segja ykkur hvað má og hvað má ekki því það eru engar reglur í förðun, það má allt.
Hvaða ilmvatn er í uppáhaldi hjá þér?
Ég er mjög kræsin þegar það kemur að ilmvötnum og þar sem ég eyði peningnum mínum í snyrtivörur frekar en allt annað tými ég ekki að kaupa mér ilmvatn nema það öskri á mig að ég verði að eignast það. Það verður samt líka að viðurkennast að ég er heldur ekki dugleg við að leita mér af ilmvötnum en eina sem hefur heillað mig og mér finnst ég geta klæðst er upphaflega Christina Aguilera ilmvatnið.
Hvað er skemmtilegasta förðunarverkefni sem þú hefur tekið að þér og hvaða verkefni dreymir þig um að fá?
Ætli skemmtilegasta förðunarverkefnið sé ekki 20’s myndaþátturinn sem birtist í síðasta Viljablaði, skólablaðsins í Verzló. Mér finnst skemmtilegast þegar ég fæ að gera eitthvað öðruvísi og sköpunargáfan fær að njóta sín. Verkefnið sem mig dreymir um er kannski ekki eitthvað eitt og sér, það er meira staðurinn sem mig langar að vera komin á eftir ákveðinn tíma og það sem mig langar að hafa afrekað. Mig langar út í listnám til þess að fá meiri listrænan bakgrunn fyrir förðunina og að farða á tískusýningum. Ef ég þyrfti að nefna eitthvað eitt þá held ég að ég mundi deyja ef ég fengi að farða Beyoncé eða að vera einkasminkan hennar. Ég hef elskað hana frá því ég man eftir mér og hún leyfir Sir John, makeup artistanum sínum, mjög mikið að leika sér og gera það sem hann vill sem ég held að sé draumur flestra makeup artista.
Hvaða förðunarbursta mundir þú mæla með að allar konur ættu?
Ég lít á bursta sem fjárfestingu svo ég vanda kaupin og kaupi mér góða bursta sem ég hugsa mjög vel um. Ég mæli með því að allar konur eigi einn bursta í farða, beauty blender eða annan bursta til að nota í hyljara, bursta í púður, kinnalit og sólarpúður, tvo augnskuggabursta (einn blöndunarbursta og svo einn fyrir meiri nákvæmisvinnu) og eyelinerbursta. Einn bursti fyrir augabrúnirnar er líka must fyrir mig. Síðan má ekki gleyma fingrunum sem eru líka dýrmætir því þeir eru við líkamshita og ganga oft alveg jafn vel og burstar.
Hvaðan sækir þú þér innblástur fyrir farðanir?
Eiginlega bara hvaðan sem er. Ég er mikið á Pinterest og skoða reglulega heimasíður Style, Vogue, Harper’s Bazaar, ýmis tímarit og portfolio möppur hjá ýmislegum artistum á netinu. Myndir af tískusýningum, verðlaunaafhendingum og hátíðum eru líka fastur liður. Mér finnst saga líka mikilvæg því ég sæki líka innblástur í tímabilin og gömlu klassísku trendin. Svo elska ég að fylgjast með Pat McGrath, Charlotte Tilbury, Sir John, Romero Jennings, Sam Fine, Patrick Ta, Rokael Lizama, Lottie Stannard og fleirum á Instagram þar sem maður fær allt beint í æð.
Lumar þú á einhverju förðunarráði fyrir lesendur svona rétt í lokinn?
Eitt sem ég geri mikið er að setja pigment sem ég nota til að highlighta í andlitssprey og spreyja því yfir andlitið undir lokinn. Það gefur fallegt glow ásamt því að spreyið nærir húðina og gefur henni raka. Ef þið hafið óvart púðrað of mikið bjargar þetta líka frá púðuráferðinni. Svo nota ég alltaf blævæng til að þurrka.
Einnig þar sem dökkar varir verða sífellt vinsælli byrja ég alltaf á því að setja smá af hyljara yfir varirnar, nota svo varablýant, setja varalitinn yfir það, gagnsætt púður yfir og setja svo annað lag af varalitnum yfir það. Þessi lagskipting og púðrið gerir það að verkum að varaliturinn haggast ekki og blæðir ekki út.
Svo er það sem mér finnst mikilvægast af öllu. Hugsið vel um húðina ykkar og það sem þið setjið á hana. Ég rekst svo oft á að konur og karlar hugsi ekki nógu vel um húðina sína en það skiptir gríðarlega miklu máli. Þetta er kannski frekar heilræði heldur en förðunarráð en allar fallegar farðanir hefjast með góðum grunni.
Ég hlakka til að fylgjast með Hjördísi blómstra í framtíðinni í förðunarfaginu. Hún á svo sannarlega framtíðina fyrir sér í bransanum. Ég er mjög hrifin af því að hana langi að mennta sig í listum ég held að hún hafi hitt naglann á höfðuðið með að það sé gott með í förðuninni.
Gangi þér ótrúlega vel Hjördís mín og nýttu hvert tækifæri sem þú getur nælt þér í í versló til að blómstra enn frekar í förðuninni. Takk fyrir spjallið og ég fylgist spennt með þér!
Ég mæli með því að þið fylgist með Hjördísi HÉR.
EH
Skrifa Innlegg