Mér finnst alltaf ótrúlega gaman að prófa mig áfram með eitthvað nýtt og skemmtilegt þegar kemur að snyrtivörum. Að nota það sem finnst í eldhúsinu inná baði hvort sem það er í hárið, andlitið eða á líkamann hefur aldrei verið jafn vinsælt og nú og ég fann nýlega skemmtilegar uppskriftir af hármöskum. Þessa ætla ég klárlega að prófa þegar ég kem heim frá Köben.
Mig langaði að deila uppskriftunum með ykkur á íslensku en uppskriftunum hef ég safnað héðan og þaðan á netinu.
1. Hármaski fyrir þurrt hár til að gefa því mýkt og raka:
1 egg
2 msk ólífu olía
1 tsk af hunangi
1 tsk af hárnæringu
blandið þessu saman og setjið inní örbylgjuofn þangað til þetta er búið að hitna örlítið sirka 20 sek. Setjið næringuna svo í enda hársins (ekki hársvörðinn) og leyfið að bíða í 30 mín og þvoið svo úr.
2. Kókoshnetuolía
1 msk af kókoshnetuolíu
Setjið olíuna í enda hársins og setjið hárið í snúð og leyfið olíunni að vera í hárinu í minnst 30 mínútur. En það er alveg mælt með því að þið sofið með hana í hárinu yfir nótt og þrífið svo hárið morguninn eftir með sjampó og næringu eða bara eins og þið eruð vanar að gera.
3. Avókadó fyrir illa farið hár
1 maukað avókadó
4 msk hreint jógúrt
1 eggjahvíta
Berið næringuna í 2/3 neðri hluta hársins og leyfið að vera í hárinu í amk 30 mínútur. Það er sniðugt að horfa bara á einn langan þátt eða eina bíómynd í sjónvarpinu. Eggið og jógúrtið gefur hárinu prótein og avókadóið mýkir hárið. Það er sérstaklega tekið fram að það megi ekki nota of heitt vatn til að skola næringuna út þar sem eggið gæti eldast í hárinu og þá er erfitt að ná því úr ;)
4. Majónes maski
Blandið saman jöfnu magni af majónesi og ólífuolíu svo þið séuð með fullan lófa af næringu. Þessi maski er fyrir þurrt hár til að gefa því smá rakabúst. Berið næringuna fyrst á enda hársins og vinnið ykkur upp í áttina að rótinni með hárgreiðu – passið að setja ekki næringu í hársvörðinn. Skolið svo maskann úr eftir 30 mínútur með volgu vatni.
Hafið þið prófað svona heimagerða hármaska – ég er mjög forvitin að heyra þá hvernig hefur tekist til svo endilega deilið því með mér :)
Hef einnig verið að safna uppskriftum fyrir heimagerða húðmaska sem ég set hér inn við tækifæri.
Auðvitað er svo hægt að fá alls kyns góða hármaska hjá mörgum hármerkjum. Minn all time uppáhalds er úr olíulínunni Sp Luxe Oil frá Wella – hann er algjört æði fyrir hárið mitt það verður svo mjúkt og fallegt :)
EH
Skrifa Innlegg