Eftir vinsældir fyrri færslu heldur mömmubloggarinn í mér ótrauður áfram og mig langar núna að deila með ykkur smá nýju föndri sem ég er að reyna að venja mig á að gera reglulega fyrir son minn. En það eru heimagerðar blautþurrkur.
Fyrstu mánuðina hans Tinna notuðum við ekkert annað en grisjur á bossann hans. Við bleyttum þær bara aðeins uppúr vatni og þrifum litla sæta bossann hans. Ég hafði alltaf hugsað mér að prófa mig áfram í því að búa til blautþurrkur heima með grisjunum en ég kom mér einhvern vegin aldrei í það. Svo þegar tíminn leið varð einhvern vegin bara einfaldara og fljótlegra að kaupa blautþurrkur útí búð. Ég verð samt að viðurkenna að stundum fékk ég hreinlega samviskubit þegar ég var að þurrka bossann á barninu með þeim – sérstaklega ef ég var nýbúin að stela einum slíkum til að þrífa af mér maskarann…. Svo undanfarið höfum við tekið uppá því að nota grisjurnar bara aftur.
Nú annað hvort bleytum við þær uppúr vatni og þrífum bossann og svo er líka hægt að gera heimatilbúna blautklúta. Ég er búin að finna nokkrar aðferðir en sjálf er ég hrifnust af því að nota kókosolíu. Þá sýð ég vatn, blanda smá kókosolíu saman við vatnið, passa að blanda vel saman og legg svo grisjurnar í blönduna. Svo þegar það er öruggt að koma við þær, þá vind ég grisjurnar vel, tek s.s. mesta vökvann úr þeim og legg í blautþurrkubox sem ég fékk hjá vinkonu minni sem selur Tupperware. Þessa aðferð getið þið líka notað t.d. með lavander olíu, það er náttúrulega svo góður ilmur af henni.
Grisjurnar er þó hægt að nota líka í allt annað en að hreinsa litla bleyjubossa. Tinninn minn er reglulega með smá horklessur sem er svo sem algengt meðal barna. Ég nota alltaf grisjur til að hreinsa á honum nefið því þær rispa ekki húðina hans, þær eru svo mjúkar. Sjálf könnumst við nú við það hvað maður getur þornað upp í kringum nefið þegar maður er slæmur af kvefi og alltaf að snýta sér. Ég verð alla vega ótrúlega rauð í kringum nefið.
Annað sem ég nota þær í sem dagmömmurnar hans Tinna kenndu mér er að verna bossann hans þegar hann er rauður. Tinni fær reglulega sár á bossann, finnst eins og hann sé með sérstaklega viðkvæma húð á bossanum en reyndar er hann mikill kúkakall og ef við skiptum ekki strax um bleyju þá verður hann mjög rauður. Núna um daginn fékk hann mikið af sárum á bossann, fjögur stykki og þið sem eigið börn vitið hvernig það er þegar þau fá sár, þá festist kremið ekki á bossann. Þegar hann fær sár nota ég yfirleitt feit krem eins og vaselín til að vernda sárin fyrir vökva eins og pissi. Ef hann er hins vegar bara rauður þá fær hann hvíta Johnson kremið. En þar sem hann var með mjög slæm sár sem við vildum alls ekki að bleyjan myndi nuddast í datt dagmömmunni okkar það snilldarráð í hug að þekja grisju með vaselíni og „líma“ við bossann hans. Þannig verður enginn núningur í sárunum og með þessu ráði þá fengu sárin að gróa í friði og grisjan er svo þunn að Tinni fann ekki fyrir henni. Mæli hiklaust með þessu ráði – algjör snilld!
Annað sem þær eru snilld í – einmitt með kókosolíunni líka er að hreinsa augnförðun! Ég hef áður skrifað um mátt kókosolíunnar við möskurum og ég hef bara notað olíuna og nuddað henni yfir augun til að leysa upp förðunarvörurnar. Svo nota ég grisjur til að hreinsa olíuna og förðunarvörurnar burt. Svona smá auka ráð um hvernig má nota grisjurnar. Mér finnst ég líka nota færri grisjur til að hreinsa augnförðunina heldur en þegar ég nota hreinsiklúta. Ég nota kannski eina grisju á móti 2-3 klútum – fer að sjálfsögðu eftir því hversu mikið ég er máluð um augun.
Grisjur og nóg af þeim eru ómissandi á mitt heimili, ég á alla vega nóg af þessu inní skáp og byrgi mig reglulega upp. Grisjurnar fæ ég í Rekstrarlandi í Skeifunni og það eru 100 stk í pakkanum :)
Ég mæli eindregið með því að gera heimatilbúnar grisjur uppúr kókosolíu, sjálf elska ég ilminn af kókos og sæti prinsinn minn fær svo mjúka og fallega húð þegar við notum þessar. Ég var búin að mikla þetta svo mikið fyrir mér en vitiði það kom mér bara á óvart hvað þetta var lítið mál – hefði alveg verið til í að hafa gert þetta frá upphafi eins og ég ætlaði mér. En betra er seint en aldrei!
EH
Skrifa Innlegg