fbpx

Fokk ofbeldi!

Ég Mæli MeðLífið Mitt

Mig langaði að segja ykkur aðeins frá nýjasta framtaki UN Women hér á Íslandi sem ber nafnið Fokk Ofbeldi. UN Women vekur athygli á framtakinu með því að selja virkilega flott armbönd sem á stendur Fokk ofbeldi. Átakinu er ætlað til að vekja fólk til vitunfar um útbreiddasta mannréttindabrot í heiminum í dag: kynbundið ofbeldi. Fleiri konur deyja eða tapa heilsu á hverju ári vegna ofbeldis heldur en vegna krabbameins, umferðaslysa, malaríu og alnæmis ár hvert.

Ég las mér til um staðreyndir tengdar kynbundnu ofbeldi og sú sem sló mig mest er sú sem stendur næst okkur. En vissuð þið að það er líklegra að stelpa í 10. bekk í grunnskóla á Íslandi hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni heldur en að hún reyki. Oft eru það þær staðreyndir sem standa næst okkur sem hreyfa við okkur og ég veit að mögulega er það hræsni að velja þessa staðreynd en allar hinar sem eru sannarlega allar jafn skelfilegar en ég gat ekki annað en fundið fyrir smá verk í hjartanu þegar ég las þessi orð.

Herferðin sem var gerð í kringum átakið er samvinnuverkefni hönnuðanna Kötlu Rósar og Ragnars Más en þau fengu hugmyndina að því að fá nokkra dansara til liðs við sig sem mynduðu stafina FOKK OFBELDI. Þau fengu til liðs við sig þrjá dansara Siggu Soffíu Níelsdóttur, Snædísi Lilju Ingadóttur og Ásgeir Helga Magnússon sem mynduðu stafina með líkama sínum. Það er svo hin óviðjafnanlega og dásamlega Saga Sig sem tekur myndirnar og þær eru sannarlega glæsilegar eins og öll hennar fyrri verk. Herferðin er merki um vel heppnað samstarf íslenskra listamanna – til lukku með vel unnið verk sem vekur umtal og athygli!

image001-3

Hér getið þið séð nánari myndir af þessu hæfileikaríka og liðuga fólki sem myndar stafina og ég hvet ykkur til að smella á myndirnar til að sjá þær stærri. Þetta er ekkert smá flott og ég er virkilega fegin að atvinnufólk hafi verið fengið í verkið en ekki t.d. ég… :)

„Það er mikilvægt að sýna á táknrænan hátt hvernig vinna þarf sameiginlega gegn ofbeldi gegn konum og stúlkum. Í sameiningu mynda líkamarnir heild á tvo vegu; annars vegar mynda þeir tákn, orðin Fokk ofbeldi með líkömum sínum og hins vegar er sameining líkama þeirra tákn um þá sameinuðu krafta sem þarf til að gera okkur sterkari í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi.“

Hér sjáið þið flotta hóp fólksins sem kom að gerð stafanna – meirað segja má finna yngsta meðlim hópsins í einum stafnum – alveg dásamleg!10947941_10152509903791213_1367164913_o

Það í sjálfu sér gæti ekki verið einfaldara að styðja þetta flotta málefni. Þú kíkir á sölustað sem er næstur þér og styrkir málefnið um 2000kr með því að kaupa þetta flotta armband. Eins er þetta auðvitað t.d. flott afmælisgjöf fyrir hvern sem er og mér fyndist sjálfri bara gaman að fá fallega gjöf sem ég veit að gefur áfram.

Ég gerði mér ferð áðan í Lyfju til að kaupa armband og styrkja þetta flotta málefni og sá fyrir mér að ganga stolt um með það. Ég hefði betur keypt tvö því tveggja ára sonur minn eignaði sér flotta armbandið strax og hann sá það svo saman segjum við mæðgin – fokk ofbeldi! Mér finnst í góðu lagi að kenna barninu svona orð þegar svona flottur málstaður er annars vegar. Ég hef oft leitt hugan að því sem móðir hvernig ég get alið son minn upp og eitt af mínum markmiðum er að kenna honum að bera virðingu fyrir öllum í kringum sig og að sjálfsögðu að bera virðingu fyrir konum.

Screen Shot 2015-02-10 at 6.03.46 PM

Armbandið er ætlað fullorðnum en það er mín ákvörðun að leyfa honum að taka þátt í því og reyna að segja honum frá því afhverju við ættum að bera armbandið stolt. Ég veit hann er bara tveggja ára en ég held það sé aldrei og snemmt að byrja. Orðalag herferðarinnar er öðruvísi og það er vísvitandi ögrandi en það gerir það að sjálfsögðu að verkum að átakið vekur athygli okkar og vekur okkur til umhugsunar. Það eru alveg sláandi staðreyndir að ein af hverjum þremur konum verða fyrir ofbeldi á lífsleiðinni og ég er ein af þeim sem hef orðið fyrir ákveðinni tegund af ofbeldi – ég segi stopp og ég segi Fokk Ofbeldi og stend stolt með mínum kynstystrum með löngutöng framan í gerendur um heim allan.

Ekki bíða eftir tækifærið til að gera eitthvað í þessum málum komi uppí hendurnar á þér – gríptu þetta tækfæri, farðu í Lyfju, Aðótekið eða verslanir Heilsuhússins og kauptu armbandið og styddu við þetta flotta málefni það gæti ekki verið einfaldara!

Svo að sjálfsögðu má ekki gleyma því að 13. febrúar n.k. er efnt til stærstu dansveislu heims! Veislan heitir Milljarður rís og fer fram í Hörpu, Hofi, á Seyðisfirði og á Ísafirði – ég hvet ykkur til að fylgjast með fréttamiðlum næstu daga til að fá frekari upplýsingar um tímasetningar.

EH

Armbandið verður fáanlegt í Lyfju, Apótekinu og Heilsuhúsinu um allt land dagana 6.-20. febrúar og kostar 2000kr.

Glaðningur fyrir ástina

Skrifa Innlegg

Hætta við svar

2 Skilaboð

  1. kristin

    11. February 2015

    hæ, veistu nokkuð hvort hægt sé að kaupa plakat með stöfunum ? mig langar ótrúlega mikið í svoleiðis :)