Það er nú ekki algengt að ég fái dýrindis gjafaöskjur til að prófa en í ár varð breyting á þar sem ég fékk senda dásamlega dekuröskju frá Burt’s Bees. Mér fannst líka gaman að askjan innhélt tvær af mínum uppáhalds vörum frá merkinu og eina nýja sem mig vantaði akkurat í töskuna!
Gjafakassinn sjálfur er í raun svona álaskja sem er svo hægt að nota til að geyma t.d. varasalva, naglalökk eða jafnvel jólasmákökur í. Ég er reyndar líka með svipað box undir saumadót og gjafaborða og tækifæriskort – það er mjög gott að eiga svoleiðis öskju og eiga alltaf eitthvað til í henni!
Nú sjáið þið ástæðu þess að ég kýs að kalla þessa öskju dekuröskju – en hún inniheldur einn af mínum uppáhalds handáburðum, næringu fyrir naglaböndin og varasalva.
Ég hef sagt ykkur áður frá þessum dýrðlega handáburði sem átti lengi vel heima á náttborðinu mínu – eða þar til lítill drengur fór aðeins að taka þar til og ekki var hægt að geyma marga lausamuni þar lengur. Handáburðurinn ilmar af möndlum og hann inniheldur E vítamín og möndlur sem næra hendurnar og mýkja þær og svo er það býflugnavaxið sem verndar hendurnar á meðan hin efnin vinna á þurrkinum. Hann er ótrúlega drjúgur og formúlan er þykk og þétt í sér sem skilar sér í því að það þarf ekki mikið magn af honum. Í þessum agalega kulda þá skrælna hendur margra upp – það gera mínar og þá er nauðsynlegt að eiga einn svona.
Mig langar að mæla með þessari dekjuröskju fyrir allan aldur, ástæða þess er sú að þetta eru dásamlegar vörur sem henta konum á öllum aldri og líka þeim yngstu. Vörurnar eru lausar við alls kyns aukaefni sem margir eru kannski ekki hrifnir af að leyfa yngstu dömunum að nota og þar á meðal er þessi flotti varasalvi sem vinnur einnig á erfiðum varaþurrkum og má alveg hiklaust nota á börn líka.
Naglabandanæringin er það eina sem ég hef ekki prófað af þessum þremur vörum sem eru í settinu, en mig vantaði akkurat nýtt því ég er alltaf með svona í veskinu. Þetta ilmar af sítrónum og er mjög nærandi fyrir neglurnar. Ég mæli með því að þið nælið ykkur í góða naglabandanæringu því ég er alveg búin að sannreyna það nokkrum sinnum að naglalökk endast betur þegar maður er duglegur að næra naglaböndin. Þá fær nöglin sjálf raka og þornar síður upp því það er þessi þornun sem skilar sér svo oft í því að það fer að kvarnast uppúr naglalökkum. Ef ég fæ smátíma yfir daginn, ég er kannski að tala í símann, bíða einhvers staðar þá gríp ég yfirleitt í naglabandanæringu og nudda yfir neglurnar – þetta tekur engan tíma og við erum nú góðar í að multitaska ;)
Þessi fallega dekuraskja fæst t.d. í Lyf og Heilsu en þar er auðvitað ótrúlega gott úrval af Burt’s Bees vörum. Ég var að nota sápu á Tinna í fyrsta sinn um daginn, við höfum bara þvegið honum uppúr olíu en eftir að djöflagangurinn í honum jókst og svitinn þar með þá ákváðum við að tíminn væri kominn – Baby Bee vörurnar frá Burt’s Bees urðu fyrir valinu og við sjáum ekki eftir því þar sem barnið ilmar dásamlega eftir hverja sturtuferð!
EH
Vörurnar sem ég skrifa um í þessari færslu hef ég bæði fengið sendar sem sýnishorn og/eða keypt mér sjálf. Það hefur þó engin áhrif á álit mitt á vörunum og eins og alltaf veiti ég hreinskilið álit.
Skrifa Innlegg