fbpx

EIK undirbýr verðandi foreldra fyrir stærstu hlutverk lífsins

Mömmublogg

Þegar ég hugsa til baka í dag orðin tveggja barna móðir þá átta ég mig á því að ég vissi bara ekki neitt þegar ég átti von á Tinna Snæ. Maður var búin að reyna að ímynda sér þetta nýja stóra hlutverk og þó ég hefði farið á þar til gert námskeið í brjóstagjöf og foreldrafræðslu fannst mér ég ekkert hafa lært – því það námskeið snerist aðallega um að fræða okkur um ágæti brjóstamjólkur og lítið komið inná annað. Ég var búin að sjá fyrir mér að þetta yrði bara ekkert vandamál, konurnar í bíómyndunum rúlla þessu öllu saman upp og ég yrði nú aldrei minni manneskja en þær.

En upp kom að ég vissi ekkert hvað ég var að fara út í þegar kom að tilfinningum – ég gef mér það að við vorum nú búin að kaupa allt og það var sko nóg til fyrir blessað barnið. Ég vissi samt ekkert hvernig mér leið ég gleymdi algjörlega að hugsa um sjálfa mig og upp kom að ég gjörsamlega bugaðist við allar þessar breytingar.

Ég hef stundum reynt að lýsa því fyrir barnlausum vinkonum hvað það er sem gerðist þegar ég átti Tinna og svo aftur þegar Tumi kom en þessum tilfinningum er á engan hátt hægt að lýsa. Ég fann fyrir svo mikilli ást og ég uppgötvaði svo margar nýjar tilfinningar sem ég vissi ekkert hvað ég átti að gera við og hvert ég gæti beint þessum nýju tilfinningum. En það eru ekki bara tilfinningarnar og ástin sem fór með mig heldur líka pressan sem ég setti á sjálfa mig til að allt væri fullkomið, ég var með svakalegan kvíða og mikið fæðingarþunglyndi sem ég ýtti alltaf frá mér því allt varð að vera fullkomið. En innst inni var ég að bugast. Ég man eftir fyrsta deginum sem við Tinni vorum ein heima saman – daginn sem Aðalsteinn fór í vinnuna eftir fæðingarorlof. Ég sat heima hjá mér og grét og grét og hugsaði bara að ég gæti þetta engan vegin. Mér leið svo illa að ég náði ekki nógu góðum tengslum við barnið mitt og ég hef þurft að vinna mikið úr þessum tilfinningum síðan þá með hjálp fagaðila því samviskubitið nagar mig daglega.

Það er nefninlega svo margt sem þarf að huga að þegar tekið er á móti nýjum fjölskyldumeðlim, það þarf ekki að eiga rimlarúm, skiptiborð eða föt fyrir tugi þúsunda – það þarf jafnvægi, það þarf góðan stuðning og það þarf mikla ást. Ég get sko sagt ykkur það að Tumi er orðinn 7 vikna og hér er sko ekkert rimlarúm til – bara vagga sem hann sefur í á nóttunni og finnski pappakassinn sem nýtist á daginn. Hann á foreldra sem eru nú reynsluboltar, mömmu sem er á kvíðastillandi til að halda sér í jafnvægi og fullt af ást frá foreldrum sínum og bróður og við myndum sterkari tengsl sem fjölskylda með hverjum deginum sem líður.

Ég er að deila öllu þessu með ykkur til að hvetja ykkur sem eruð verðandi foreldrar eða í barneignahugleiðingum að kynna ykkur ný námskeið á vegum EIK Ráðgjöf. Ég vildi óska þess að þessi námskeið hefðu verið í boði fyrir mig á sínum tíma. Ég sem móðir er heilluð af hugmyndafræðinni á baki fræslunnar en þetta er einmitt allt sem ég hefði svo mikið þurft leiðsögn með á sínum tíma.

Eins og ég var búin að segja áður þá ætla ég að skrifa meira um mömmu hlutverkið hér á síðunni og mig langar að hvetja ykkur sem hafið áhuga á að lesa yfir spurningar og svör sem ég fékk að senda á hana Möttu sem er ein þeirra sem stendur á bakvið EIK Ráðgjöf sem mun bjóða uppá fræðandi námskeið fyrir foreldra og hefur nú þegar sett saman fyrsta námskeiðið þar sem fræðslan snýr að undirbúningi fyrir komu barns…

11951332_1611537179111557_327113089284961800_n

Hvað geta foreldrar átt von á að fræðast um á námskeiðinu?

Námskeiðið “Barnið komið heim, hvað svo?” er glænýtt og fyrst og fremst ætlað verðandi foreldrum með fyrsta barn en auðvitað eru allir velkomnir. Markmiðið er að varpa skýru ljósi á þá stórkostlegu vegferð sem hefst við fæðingu barns. Námskeiðið er bæði hagnýtt og skemmtilegt og fá verðandi foreldrar að takast á við raunhæf verkefni í umönnun barnsins. Samband og samskipti verðandi foreldra eru einnig í brennidepli þar sem ný hlutverk og breytingar geta óneitanlega verið fylgifiskar barneigna. Við undirbúning fyrir fæðingu barns horfa verðandi foreldrar gjarnan til veraldlegra hluta, svo sem að kaupa vöggu og fatnað. Þeir geta, að því er virðist, gleymt því að undirbúa samskiptin, nýja hlutverkið og sambandið. Farið verður yfir mikilvæg lagaleg atriði og þátttakendur fá lista með sér heim yfir hagnýt atriði er varða barnið og umönnun þess.
Námskeiðið okkar er frábær undirbúningur fyrir þá stórkostlegu vegferð sem hefst við fæðingu barns. Við trúum því að foreldrar séu betur í stakk búnir til að takast á við nýtt hlutverk af festu og öryggi hafi þeir haldgóða þekkingu á því sem framundan er. Almennt vilja allir verðandi foreldrar standa sig vel og námskeiðið veitir fólki upplýsingar og fjallar um hagnýt atriði sem vert er að hafa í huga.

Hverjir koma að fræðslunni á námskeiðinu og hver er þeirra menntun/reynsla?

Starfsmenn EIK ráðgjöf eru:
-Ingunn Ásta Sigmundsdóttir er 36 ára uppeldis- og menntunafræðingur og kennari og starfar sem kennari við unglingadeild Háteigsskóla í Reykjavík. Hún stundar mastersnám í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf M.ed við Háskóla Íslands. Ingunn Ásta á þrjú börn sem eru fædd á árunum 2008, 2009 og 2011.
-Matthildur Jóhannsdóttir er 34 ára félagsráðgjafi. Matthildur lauk BA prófi í félagsráðgjöf árið 2012 og Mastersnámi til starfsréttinda MA árið 2014. Matthildur á þrjú börn sem eru fædd á árunum 2009, 2011 og 2014.

11990604_1611013632497245_4085860718637652855_n

Afhverju ákváðuð þið að fara af stað með námskeiðið?

Við fæðingu barns getur ýmislegt gerst sem foreldrar eiga ekki endilega von á. Umönnun ungabarns getur verið verulega krefjandi á svo margan hátt um leið og þetta er eitt skemmtilegasta hlutverk sem fólki er falið lífinu. Að ala upp barn er mikil ábyrgð og geta foreldrar upplifað sig vanmáttuga í ákveðnum aðstæðum en okkar markmið er að undirbúa foreldra bæði fyrir umönnun barnsins og samskipti sín á milli. Með því að hafa aðgang að fræðslu og ráðgjöf um umönnun og uppeldi barnsins geta foreldrar leitað upplýsinga eða fengið stuðning til að takast á ábyrgan máta við aðtsæður, áður en allt er komið í óefni. Við hjá EIK viljum vera sá aðili sem fólk leitar til fyrst til að greina vanda og þörf fyrir ráðgjöf eða stuðning.

Er námskeiðið hugsað fyrir verðandi foreldra eða fræðslan líka nýst fólki sem er nú þegar foreldrar?

Námskeiðið er fyrst og fremst ætlað fyrir verðandi foreldra með fyrsta barn en að sjálfsögðu eru allir velkonir og það nýtist öllum sem standa í barneignum.

Hvert geta foreldrar sótt frekari upplýsingar eða spurst fyrir um námskeiðið?

Heimasíðan okkar er í vinnslu en allar upplýsingar er að finna á facebooksíðunni EIK ráðgjöf. Hægt er að bóka tíma í ráðgjöf og skrá sig á námskeið eikradgjof@gmail.com Þjónusta EIK ráðgjöf er tvíþætt, annars vegar að halda námskeið og hins vegar að veita fjölskyldu- og uppeldisráðgjöf. Námskeiðið Barnið komið heim, hvað svo? er fyrsta námskeiðið sem EIK ráðgjöf býður upp á og eru fleiri námskeið fyrir foreldra í vinnslu.

——

Mér finnst þetta alveg frábært framtak hjá þessum flottu konum og reynsluboltum á sínu sviði og ég get ekki annað en ímyndað mér að þær og þeirra fræðsla muni nýtast verðandi foreldrum vel. Hér eru á ferðinni konur með mikla reynslu og menntun á þessu sviði og ég á ekki von á öðru en að þær muni geta hjálpað mörgum. Ég vildi að það hefði verið í boði fyrir mig að sækja námskeið af þessari gerð þegar ég átti von á Tinna þá hefði ég ef til vill getað gert hlutina aðeins öðruvísi.

Ég get alla vega lofað ykkur því að það skiptir engu máli að eiga fullbúið barnaherbergi með öllu fyrir fæðingu fyrsta barnsins – það þarf foreldra í góðu andlegu jafnvægi sem eiga nóg af ást fyrir afkvæmin sín og auðvitað hvort annað***

EH

Ladylike

Skrifa Innlegg

Skilaboð 1

  1. Adda

    21. September 2015

    Glæsilegt framtak hjá þessum konum ! þær eru rosalega færar í sínu starfi og þær eru pottþéttar. Ég mæli með þessu námskeiði fyrir verðandi foreldra sem eru að stíga sínu fyrstu skref í foreldrahlutverkinu!