Áfram held ég að sýna ykkur einfaldar og skemmtilegar hárgreiðslur í sítt hár. Mér þykir þetta bara ansi skemmtilegt og smá meiri hvatning fyrir mig til að setja eitthvað í hárið á mér. Ég skellti í dúskatagl í sólinni í síðustu viku og það kom svona svakalega vel út og tekur enga stund.
Ég hef alltof lengi ætlað að skella í svona greiðslu en hún Andrea vinkona mín og uppáhalds hönnuður er mikið með svona bæði sjálf og í myndatökum fyrir línurnar sínar og ég er alltaf að dásama greiðsluna en aldrei skellt í hana. Fyr en nú! Ég hef í raun kannski bara aldrei átt nógu góðar teygjur í þessa greiðslu en svo var ég í apóteki um daginn og greip með mér pakka af ábyggilega 200 litlum glærum teygjum. Teygjurnar komu bara ansi mikið á óvart varðandi styrk en þær eru samt bara svona einnota – þess vegna eru líka kannski svona margar í pakkanum.
Ég ákvað að hafa taglið bara frekar lágt í þetta sinn en þið getið auðvitað hækkað það meira upp svo það standi aðeins út. Þá verður greiðslan líka kannski aðeins fínni. En ég byrjaði á því að spreyja vel hárið með nýja saltvatnsspreyjinu mínu frá Herbivore sem þið fáið HÉR – til að gefa því smá svona tjásulega áferð og hristi uppí því áður en ég skellti taglinu í. Spreyið er reyndar uppselt í augnablikinu sem ég skil vel því bæði er varan mjög góð, hún er falleg og á góðu verði.
Ég setti sumsé bara hárið í tagl og skellti svo teygjum í hárið niður eftir því og togaði aðeins út hárið á milli teygjanna þannig það myndast svona eins konar dúskar. Ég hefði mögulega komist upp með að skella einum dúsk í enda hársins í viðbót en það fer auðvitað bara eftir smekk hvers og eins. Teygjurnar fékk ég í Lyfju Lágmúla ef einhver er að pæla í því.
p.s. ef þið voruð búnar að taka eftir því þá er eins og ég sé ekki með óléttubumbu á þessari mynd! Finnst það smá krípi þar sem hún er að mínu mati alveg risavaxin enda er barnið orðið 14 merkur samkvæmt vaxtasónar í síðustu viku! Svo eru þessir marblettir voða smekklegir – blóðprufur!
Einföld og fljótleg greiðsla fyrir ykkur með miðlungs sítt hár og sítt hár eins og ég. Svo þegar ég tók teygjurnar úr voru komnir svona skemmtilegir bylgjukenndir liðir í hárið sem mér þótti mjög flottir og svona auka plús.
Næsta greiðsla sem þið fáið svo að sjá er mjög svipuð og þessi – Aðalsteinn trúði mér alla vega ekki þegar ég hélt því fram að þetta væru ekki eins greiðslur. En hún er smá svona twist á þessari greiðslu – í bókstaflegri merkingu!
EH
Skrifa Innlegg