Ég sat fund um daginn þar sem ég fékk að sjá og prófa glæsilegar snyrtivörunýjungar frá Dior. Ég sat eiginlega bara með gæsahúð þegar ég virti fyrir mér nýjust vörurnar og haustlínu merkisins sem er væntanleg núna í lok sumars í verslanir. Ég held ég geti með sanni sagt að línan er hrikalega vel heppnuð og ein sú allra fallegasta sem ég hef séð. Peter Phillips hefur skilað frá sér alveg stórkostlegri haustlínu sem inniheldur bæði einstaklega flottar nýjungar og glæsilega liti í vörum sem hafa nú þegar verið til hjá merkinu.
En áður en við vindum okkur í haustið þá er um að gera að klára sumarið… Já eða nýju vörurnar sem voru að detta í hús hjá merkinu og ég býð þær kærlega velkomnar því ég hef aldrei átt erfitt með að bæta á mig fallegum vörum frá Dior.
Hér fyrir ofan sjáið þið vörurnar eða þrjár af þeim sem voru að detta í hús og eru nú í fókus á stöndum merkisins um land allt. En það eru nýjar augnskuggapallettur sem innihalda fjóra púðuraugnskugga og svo kremkenndan eyeliner – svo er það nýja útgáfan af hinum allra klassíska Diorshow maskara sem kom í alveg fjórum litum – svörtum, brúnum, bláum og fjólubláum.
Maskarinn hefur fyrir löngu síðan haslað sér völl sem einn af þekktustu þykkingarmöskurum í heimi. En þó hefur hann fengið smá gagnrýni fyrir að þorna ansi hratt upp sem svo sem er svo sem gagnrýni sem margir þykkingarmaskarar fá á sig. En nú fékk maskarinn – bæði formúlan og umbúðirnar kærkomna yfirhalningu svo nú er þetta vandamál úr sögunni. Bæði er loftþéttari efst í umbúðum maskarans sem verndar formúluna og heldur súrefni frá formúlunni og svo er enn betri læsing á umbúðunum en þið snúið honum saman alveg þar til það heyrist smá smellur. Það er auðvitað súrefni og loft sem skemmir formúlur og flýtir fyrir þornun þeirra þess vegna eigið þið alltaf að venja ykkur á að loka möskurunum ykkar alveg sérstaklega vel og líka að alls ekki pumpa þá – þá myndast loftbólur inní maskaranum og hann þornar innan frá.
En aftur að förðuninni – ég ætla að segja ykkur betur frá vörunum hérna fyrir neðan…
Ég heillaðist sannarlega strax af þessari fallegu Taupe brúnu augnskuggapallettu en eins og ég sagði áður frá þá eru þetta 4 augnskuggar, einn sem er fullkominn sem primer og svo er kremaður eyeliner sem fylgir þarna með. Ég hef alltaf verið skotin í burstunum sem koma með Dior pallettunum og ég notaði burstana tvo til að gera þessa förðun. Ég fékk svo ótrúlega skemmtilega áskorun um daginn þar sem ég var hvött til þess að sýna augnförðun með svampbursta sem fylgir með svona pallettum inná snapchat og hana ætla ég að skella í þegar ég útskrifast af spítalanum – ef allt gengur vel það er að segja.
En hér blanda ég öllum litunum í pallettunni saman og skerpi svo á umgjörð augnanna með kremaða eyeliernum og set hann líka í vatnslínuna sem gerir áferðina og umgjörðina enn fallegri og gefur lúkkinu meiri heild. Ég setti bara eina umferð af maskaranum svo þessi á meira en nóg inni hjá mér það get ég sko sagt ykkur. En ég heillast alltaf að því frekar að hafa augnhárin sem náttúrulegust og ég þarf að sýna ykkur þennan betur og máttinn hans við dekkri förðun – með þá svörtu pallettunni sem þið sjáið hér fyrir ofan hún er svona intense kvöldförðunar palletta!
Svo endaði ég á því að bera þennan dýrindis fallega gloss á varirnar – ég er alveg heilluð af litnum finnst ykkur hann ekki æði!
Vörurnar sem ég notaði í lúkkið:
- 5 Coulerus Designer augnskuggapalletta í litnum Taupe Design nr. 718
- Diorshow Mascara í svörtu.
- Rouge Dior Brilliant gloss í litnum Swan nr. 263
Allt tónar ótrúlega saman og þessar þrjár Dior vörur passa algjörlega saman og skapa áferðafallega og rómantíska förðun sem leikur einn er að herma eftir. Eins og ég segi hér fyrir ofan þá leik ég mér með alla litina í pallettunni sjálfri til að skapa förðunina og notaði meirað segja krem eyelinerinn yfir púðuraugnskuggana til að skyggja augnlokið og globuslínuna enn betur – til að gefa augunum aðeins meiri dýpt. Það er alls ekkert sem bannar það að setja kremförðunarvörur yfir púðurvörur eða öfugt – gerið það sem ykkur dettur í hug og það sem ykkur langar til að gera. Svampburstarnir eru fullkomnir til að bera kremuðu formúluna yfir púðurlitinn og svo notið þið burstann sem er dáldið laus í sér til að blanda litunum saman, það gæti ekki verið einfaldara.
En nú aðeins meira um formúluna í maskaranum sjálfum því það er auðvitað hún sem skiptir alveg gríðarlega miklu máli og sérstaklega í þykkingarmöskurunum en það er formúlan sem þéttir og þykkir hárin sjálf. Til þess að gefa augnhárunum mikla þykkingu er best að byrja á því að að nota enda burstans til að bera formúluna á augnhárin þá notið þið stuttu hárin á greiðunni til að þétta augnhárin alveg frá rót. Þá meina ég að þið haldið burstanum lóðréttum og dragið í gegnum aunghárin. Snúið honum loks láréttum og sikk sakkið í gegnum augnhárin til að greiða vel úr þeim og gefa þeim enn meiri þykkt og hjálpa formúlunni að dreifa sér jafnt. Formúla maskarans er kremkennd og inniheldur örfínar trefjar sem leggjast ofan á augnhárin ykkar og gefa þeim enn meiri þéttingu og þykkt og lengd. Svo inniheldur formúlan einnig silki prótein sem vernda og næra augnhárin ykkar svo þau verða fallegri með meiri notkun.
Burstinn á glossinum sjálfum er virkilega skemmtilegur því hann er með smá hólfi í burstanum þar sem fer auka formúla svo það er alltaf nóg af glossi í burstanum sjálfum til þess að ná að þekja allar varirnar. Mér finnst þessi litur alveg virkilega fallegur hann er svona vintage bleikur og mjög flottur einn og sér en gerir varalit í svipuðum lit eflaust enn fallegri.
Ég vona að þið séuð nú einhverju nær um þessar yndislegu vörur frá merkinu sem ég dái og dýrka svo heitt. Svo get ég bara ekki beðið eftir að fá að segja ykkur betur frá haustinu og ég tease-a því í ykkur um leið og ég má sem verður núna í ágúst byrjun. Þangað til horfi ég á þær af mikilli aðdáun og andvarpa yfir fegurð þessara fallegu vara sem Peter Phillips hannaði alfarið fyrir merkið.
Munið að það er enn Tax Free fjör í Hagkaup og þessar vörur fást að sjálfsögðu þar – en ekki hvað ;)
EH
Vörurnar sem ég skrifa um hér fékk ég sendar sem sýnishorn. Það hefur þó engin áhrif á álit mitt á vörunum og eins og alltaf veiti ég hreinskilið álit.
Skrifa Innlegg