Eg keypti fyrstu Real Techniques burstana mína fyrir síðustu jól og ég varð ástfangin um leið og ég renndi fingrunum í gegnum hárin. Burstarnir eru hugarfóstur annarrar Pixiwoo systranna – hennar Samönthu Chapman.
Ég er svo ótrúlega ánægð með þessi kaup og ef þið eruð búnar að vera að hugsa um að fá ykkur þessa en eruð hikandi við það – kaupið þá núna! Síðan ég fékk þá í desember hef ég aldrei lent í því að þurfa að týna hár sem hafa losnað uppúr þeim af andlitinu mínu. Þeir halda löguninni sinni vel og mýktinni þrátt fyrir að ég þrífi þá mjög reglulega og þeir eru líka bara svo þæginlegir í notkun.
Ég fékk mér augnburstana – fjólubláa línan – og farðaburstana – orange línan. Smám saman ætla ég svo að bæta hinum í safnið. Mér finnst hönnunin á burstunum skemmtileg, litirnir eru líflegir og gera það að verkum að burstarnir standa svolítið út. Á þeim stendur hvaða hlutverk þeir hafa – fyrir ykkur sem finnst allt þetta magn af burstum ruglingslegt. Orange burstarnir eru til þess að gefa húðinni þinni fullkomna undirstöðu, fjólubláu penslarnir eru fyrir augnförðunina og þeir bleiku fínpússa smáatriðin í förðuninni – en burstaflokkurinn nefnist „Finish like a pro“.
Núna hafa nýjir burstar bæst við í sölu en það eru Duo Fibre burstar – í þremur mismunandi stærðum og þrátt fyrir að vera alveg hvítir þá eru það stafirnir á burstunum sem segja til um í hvað á að nota þá. Það sem mér finnst helst einkenna áferðina sem Duo Fibre burstarnir sem ég á nú þegar gefa er að hún er svo létt og falleg. Áferðin verður svona effortless á meðan aðrir burstar gefa kannski þéttari áferð. Ég er búin að eiga MAC 187 Duo Fibre burstann í mörg ár og á sömu týpu í mörgum stærðum. Þeir voru uppáhaldsfarða burstarnir mínir þar til ég eignaðist Real Techniques farðaburstana nú nota ég þá til skiptis. En ég er virkilega spennt að prófa þessa – nú vakta ég ebay og vona að ég rekist á sett á góðu verði. Burstarnir verða fáanlegir núna í eitt ár og eru þegar uppseldir í flestum verslunum í Bretlandi – það vonandi þýðir að þetta séu góðir burstar ;)
Ég á orðið ansi stórt burstasafn – hef nú einhver tíman birt mynd hér á síðunni þar sem sást brot af því – en mér finnst ég aldrei eiga nóg. Stundum ef ég er virkilega ánægð með einhvern bursta þá fæ ég mér kannski 2-3 stykki af honum bara til að eiga ef ég tek að mér stórt verkefni.
EH
Skrifa Innlegg