Fyrr í sumar hóf ég að prófa skemmtilega nýjung frá Bobbi Brown – CC krem. Þetta er þó CC krem sem er ólíkt öllum sem ég hef prófað það er helst liturinn sem líkist engum öðrum en kremið er bleikt á litinn!
Bobbi Brown CC kremin eru sett aðeins öðruvísi upp en önnur CC krem. Það er greinilegt að mikið hefur verið lagt í hugmyndavinnu til að ná að gera vöru sem byggir almennilega á hugmyndafræðinni á bakvið CC krem. Hugmyndafræðin er að sjálfsögðu að litarhaft húðarinnar sé jafnt og náttúrulegt.
Það sem getur gerst þegar við erum mikið útí sól eða þegar við eldumst er að það myndast litablettir á húðinni. Þá er ég nú ekki að tala um freknur heldur aðeins stærri bletti sem koma ekki endilega í kinnarnar. Það sem bleiki liturinn á að gera er að jafna út þessa bletti og fá þá til að falla saman litarhaft húðarinnar og jafna það þannig. Bleiki liturinn er þó hugsaður fyrir ljósu húðina en eftir því sem húðin verður dekkri þarf hún krem með meiri beige/orange tón í. Þetta er svona það sem bleiki liturinn er hugsaður til að gera en kremið frá Bobbi kom mér þó meira á óvart þar sem þetta atriði var ekki það eina sem kremið tók á. Bleika kremið gerir húðina mína líka bara fallegri – það er eitthvað við það. Það er nú ekki rosalega mikill ljómi sem kemur frá því heldur fær húðin ótrúlega frísklega áferð. Mér líður svona eins og ég sé nýbúin að synda margar ferðir af baksundi, hjóla heiman frá mér og niðrí bæ eða skokka nokkra kílómetra – ég geri ekkert af þessu en kremið lætur mig halda það því húðin verður svo frísk!
Annað atriði sem ég elska við kremið er það að það er með SPF35. Þeim mun sterkari vörn þeim mun minna af kreminu þarf ég að nota til að fá nógu mikla vörn fyrir sólina. Hugsið ykkur hvað það hefði verið upplagt hefði ég verið með þetta CC krem í sólinni í dag. Ég bara gleymdi að kíkja á veðurspánna og setti aðeins öðruvísi krem á mig. Ég mun þó án efa nota þetta í fyrramálið.
Í sumar hef ég einungis notað CC krem. Nú loksins hef ég áttað mig á því að CC kremin eru bara tilvalin til þess að nota á sumrin. Þau eru miklu léttari og áferðin er miklu meira sumarleg heldur en sú sem kemur frá BB kremunum. BB kremin mín geta bara beðið róleg til haustsins ;)
Hér sjáið þið hvernig kremið er þegar það kemur útúr túbunni en það minnir mig mun meira á t.d. rakakrem eða hreinsikrem kannski frekar – allt annað en CC krem alla vega.
Áferðin á kreminu er eins og þið sjáið mjög þétt – þetta litla sem ég setti á handabakið er nánast nóg fyrir mig þannig ég nái að þekja allt andlitið – ég þarf kannski aðeins meira.
Svo þegar búið er að jafna áferðina er húðin á hendinni minni miklu frísklegri. Þið sjáið mikinn mun ef þið berið saman þessa mynd og myndina þar sem þið sjáið mig með kremið beint úr túbunni á handabakinu. Áferðin er miklu frísklegri, húðin ljómar ekki en áferðin er náttúruleg og falleg.
Þetta CC krem er upplagt fyrir ykkur sem viljið létt CC krem og eruð kannski með mjög föla húð og jafnvel freknur sem þið viljið ekki að hverfi á bakvið mikinn lit. Svo er leikur einn að fríska undir augun með léttum ljómapenna, setja smá sólarpúður undir kinnbeinin og frísklegan kinnalit í kinnarnar. Ég held að svona hljómi einmitt förðunin mín á morgun.
CC kremið frá Bobbi Brown er það skemmtilegasta sem ég hef prófað. Það hentar mér fullkomlega þ.e. liturinn og ég vissi einhvern veginn lítið sem ekkert um það áður en ég prófaði það. Mér finnst það skemmtilegast þegar ég leita mér lítilla upplýsinga og reyni svona að sjá fyrir mér hver hugmyndin með vörurnar er.
Ef þið eruð þó með dekkri húð en ég þá eru til litir sem eru fyrir ykkar litarhaft. Hér er það haft í aðalhlutverki að það sé til litur sem hentar litarhafti hverrar konu. Það sem einkennir mína ljósu húð er ekki það sama og það sem einkennir húð konu sem er með dekkri húð en ég – þetta finnst mér skemmtileg pæling og eitthvað ekta sem Bobbi Brown sjálf hugsar fyrir. Það sem ég elska við hennar vörur er að hún veit hvað við konur erum ólíkar og það sem hún passar uppá er að allar konur finni vörur við sitt hæfi í hennar merki.
EH
CC kremið fékk ég sent sem sýnishorn. Það hefur þó engin áhrif á álit mitt á vörunni og eins og alltaf gef ég mitt hreinskilið álit á vörunni.
Skrifa Innlegg