Mig langaði að koma með nokkur góð ráð varðandi það hvernig er best að ferðast með snyrtivörur þar sem aðal ferðatímabilið er framundan – hvort sem það eru sólarlandaferðir eða tjaldútileigur.
Ferðasett
Mér finnst alltaf gott að eiga svona ferðasett – sérstaklega þegar ég er að fara eitthvað stutt þá set ég smá rakakrem, augnkrem og rakavatn.
Minna er meira
Ekki taka of mikið af snyrtidóti með ykkur. En fyrst og fremst er nauðsynlegt að muna eftir sólarvörninni og jafnvel sniðugt að grípa með sér aloe vera krem til að kæla húðina á kvöldin. Ég myndi fyrst og fremst hafa það í huga að taka með mér snyrtivörur sem ég þarf ekki að nota pensla í – hér er það sem ég myndi taka með mér.
- Rakakrem
- Léttur farði eða BB krem
- Blot púður – litlaust púður
- Kremkinnalitur
- Sólarpúður
- Hyljarapenni
- Maskari
- Svartur eyelinertúss
- Varasalvi með sólarvörn
Hreinsa húðina:
Ef þið eruð að fara erlendis þar sem þið eruð með baðherbergisaðstöðu þá hafið þið ekki afsökun fyrir að taka ekki með ykkur hreinsimjólk og rakavatn og hreinsa húðina vel kvölds og morgna. Ef þið eruð að fara að vera í tjaldi þá er nú í lagi að nota hreinsiklúta en takið alltaf með ykkur rakavatn notið það eftir að þið eruð búnar að hreinsa farðann af. Veljið svo góða hreinsiklúta ég er venjulega með klútana frá Clean & Clear.
Að ferðast með púður:
Ef þið eruð að ferðast mikið með snyrtivörur sem eru í föstu púðurformi hvort sem það er púðurfarði, blot púður, kinnalitur, augnskuggar og allt þar á milli þá er gott að setja bómullarskífu yfir púðrið og loka svo. Þannig þrýstir smá á púðrið og það myndast ekkert tómt rými sem getur leitt til þess að púðrið brotnar við smá högg.
Ég vona nú innilega að þið hafið vitað um þessa aðferð fyrir daginn í dag – ég er alla vega búin að vera ótrúlega dugleg að breiða út þessum boðskap og ég veit það að það hafa mínir „samstarfsmenn“ líka verið dugleg að gera.
Ef púðrið ykkar brotnar – augnskuggi, púður, kinnalitur o.s.frv. þá er til leið til að bjarga þeim. Mér finnst best að mylja púðrið þá alveg niður í eins litlar agnir og ég get – ég nota þá bara t.d. skaftið á förðunarpensli til að gera það. Setjið nokkra dropa af sótthreinsi yfir púðuragnirnar – hrærið aðeins til í púðrinu, aftur nota ég skaftið – til að dreifa sótthreinsinum á milli agnanna. Setjið svo fingurinn ykkar inní plast – plastpoka, plastfilmu – og þrýstið púðrinu þétt niður. Þið getið notað pening til þess að þrýsta niður ef þið viljið fá jafnari áferð, mér finnst persónulega betra að nota fingurna. En það er mjög mikilvægt að setja hvað sem þið notið inní plast svo óæskileg efni fari ekki inní púðrið. Leyfið púðrinu svo bara að þorna yfir nóttu.
EH
Skrifa Innlegg