Mér finnst ótrúlega gaman að kaupa mér fallegar bækur í gegnum Amazon, ég á þó nokkrar skemmtilegar förðunarbækur sem ég hef keypt þar í gegn og bækur sem eru skrifaðar af bloggurum, fyrirsætum eða bara fyrirmyndar konum. Ég kaupi þó frekar sjaldan bækur þessa dagana og það er langt síðan síðustu kaup fóru fram. Um daginn fór ég svo á eitthvað flakk á Amazon þegar ég sá hjá Tanya Burr að bókin hennar væri að koma út – þá skildi ég aðeins betur leyni verkefnið hennar sem hún sagði mér frá þegar við hittumst – og ég ákvað að forpanta hana. Um leið keypti ég tvær aðrar bækur sem mér leist mjög vel á.
Þessum verður nú komið fyrir á náttborðinu þar sem þær bíða betri lesturs…
Love Tanya eftir Tanya Burr:
Þegar við Tanya hittumst í London sagði hún mér fá því að hún væri rosalega spennt fyrir verkefninu sem hún væri að fara að leysa eftir að augnhárunum hennar yrði launchað – ég veit nú að það verkefni var að gefa út þessa bók. Hún er virkilega flott og vel heppnuð og ég hlakka til að skoða hana betur. Bókin er við fyrstu sýn svona lífstílsbók og efnið tengist öllu því sem Tanya hefur verið að fjalla um á vlogginu sínu og gefur lesendum og aðdáendum góða tilfinningu fyrir henni sjálfri. Bókin segir hún að lýsi sinni leið í gegnum lífið hvernig hún varð konan sem hún er í dag. Bókin er skemmtilega sett upp með fullt af myndum, hugmyndum og góðum ráðum.
Pretty Honest eftir Sally Hughes
Hér er á ferðinni ein hreinskilin ung kona sem mér finnst með mjög skemmtilegan ritstíl, hún er með húmor í lagi og er ekki hrædd við að segja það sem henni finnst. Sally er blaðamaður og hefur mikið skrifa um snyrtivörur. Ég viðurkenni að ég þekki ekki mikið til dömunnar en bókin vakti forvitni mína þegar hún kom út og mig er búið að langa í hana síðan. Loksins er hún mín og ég hlakka til að lesa skrif dömunnar sem lýsir skoðunum hversdags konunnar á förðun, húðumhirðu og snyrtivörum – miðað við það litla sem ég er búin að lesa er bókin ávísun á skemmtun og hlátur.
Make Up eftir Michelle Phan
Michelle Phan er ein af þessum förðunardömum sem ég hef svona alltaf haft annað augað á. Ég kíki reglulega á myndböndin hennar, fylgist með henni á instagram og hún er virkilega opinn og hress persónuleiki og með mikla útgeislun sem heillar mig. Ég vissi ekki mikið um bókina þegar ég keypti hana og viðurkenni að það var nafn höfundarins sem heillaði. Bókin virðist vera góð handbók fyrir snyrtivöruaðdáendur þar sem farið er yfir húðumhirðu, farðanir og góð ráð gefin. Bókin hefst þó á góðri kynningu um höfundinn sjálfan og hún virðist vera mjög persónuleg.
Það er líka önnur ástæða fyrir því að ég hef sérstaklega gaman af því að fletta í gegnum svona bækur og lesa það sem vekur áhuga minn. Ég hef lengi gengið með þann draum í maganum að skrifa bók – ég veit alveg hvernig bókin ætti að vera og hún er nánast tilbúin í hausnum á mér. Þetta er yrði ekki svona týpísk förðunarhandbók eins og kannski margir myndu halda að ég myndi skrifa heldur bók sem tekur á öllu sem tengist útliti og þar á meðan sjálftrausti og útlitsdýrkun. Mig langar að skrifa bók sem ég get verið stolt af sem getur kannski haft áhrif á einhverjar ungar stelpur og sem leggur áherslu á fjölbreytileikann og leggur áherslu á að við njótum þess að vera eins og við erum en ekki alltaf að reyna að vera eins og einhver annar vill að við séum. Mig langar að gefa út bók sem lýsir mér og mínu lífi líka. Já draumurinn minn mun rætast einn daginn og ef einhver getur gefið mér góða punkta með hvernig maður aðhefst í bókaútgáfu má sá hinn sami hafa samstundis samband :)
Ef ykkur líst vel á þessar bækur þá fást þær allar á Amazon – ég mæli alla vega með þeim já og bókunum hennar Lauren Conrad þær eru alveg æðislegar!
EH
Skrifa Innlegg