Ég tók myndir af þessu förðunarlúkki í síðustu viku þegar ég var með Tinna veikan heima. Þegar ég var að fara aftur í gegnum myndirnar til að velja einhverjar úr tók ég eftir því hvað augun mín eru græn á myndunum. Ég er með dökk brún augu sem verða stundum græn í ákveðinni birtu eða þegar ég set einhverja liti í kringum augun. Litirnir í þessari pallettu frá YSL gera augun mín alveg stingandi græn – stundum finnst mér alveg magnað að sjá hvað litaðir augnskuggar geta gert mikið fyrir augu. Þegar ég sé svona gerast þá hugsa ég alltaf hvað ég þurfi að venja mig af því að mála mig bara með jarðlitum og nota meira liti – ég hvet ykkur til að gera það sama.
Ég var löngu búin að sjá hvernig palletturnar í haustlínu YSL litu út og þegar ég fékk eina þeirra loksins í hendurnar þá féllust mér næstum hendur svo falleg er hún. Hér sjáið þið vörunar úr haustlínunni sem ég fékk að prófa. Ég er búin að taka myndir af bæði sýnishornum af litunum og af förðunarlúkkum sem ég gerði með vörunum. Ég ákvað að byrja að sýna ykkur lúkk sem ég gerði með augnskuggapallettunni og kinnalitnum. Naglalakkið hef ég mikið notað síðan ég fékk það og þið hafið eflaust rekist á mynd af því á Instagram – @ernahrund.
Haustlínan er virkilega flott og vörrunar eru góðar. Mér fannst mjög gaman að leika mér með litina í augnskuggapallettunni og ákvað að gera aðeins hóflegra lúkk með þeim til að sýna ykkur en er sýnt á Cöru Delevingne í herferðinni frá merkinu. Mér finnst lúkkið hennar reyndar truflað – en það hentar kannski ekki öllum.
Litasamsetningin á augnskuggunum sem eru í pallettunni er heldur sérstök. Það er óvenjulegt að grænum og bláum litum sé blandað saman en það er alltaf gaman að prófa sig áfram með ólíka liti. Hér sjáið þið útkomuna hjá mér.
Ég byrja á því að setja ljósasta litinn yfir allt augnlokið – og aðeins uppá augnbeinið. Jafnið áferð litarins með blöndurnarbursta. Næst setti ég ljósbláa litinn yfir allt augnlokið og blandaði honum saman við ljósa litinn sem ég setti fyrst. Svo setti ég dökkbláa augnskuggann yst á augnlokið og aðeins í globuslínuna og aftur blandaði ég litunum saman svo það sæust engin áberandi litaskil.
Að lokum ákvað ég að setja græna litinn meðfram neðri augnhárunum og það er hann sem kallar fram græna litinn sem leynist í augunum mínum. Svo setti ég maskara og ákvað að sleppa eyelinernum í þetta sinn. Reyndar held ég að það væri mjög flott að setja eyelinerlínu meðfram efri augnhárunum með svörtum gel eyeliner og smudge-a hann með því að setja dökkbláa augnskuggann yfir þann svarta – þá skapast flottir kontrastar í förðuninni og þið eruð komnar með tryllta kvöldförðun.
Af því að augnförðunin var svona litrík ákvað ég að varasalvi væri bestur á varirnar og setti létt af kinnalitnum í epli kinnanna. Kinnaliturinn er léttur orange tónn sem hentar mér mjög vel útaf hárlitnum.
Mér finnst þetta virkilega skemmtileg útkoma. Svona litrík förðun er hressandi í þessu ömurlega haustveðri.
Hér sjáið þið augnskuggapalletturnar úr haustlínunni – annars vega þessi sem ég prófaði og hins vegar palletta sem inniheldur meiri jarðtóna sem hentar öllum augnlitum að mínu mati. Næst á dagskrá er svo sýnikennsluvideo með eyelinerunum – ég prófaði þá um daginn og það kom mér á óvart hversu einfaldir í notkun þeir voru svo mér finnst ég verði að sanna það fyrir ykkur.
Ég held að ég þurfi núna að skella í færslu um hvaða litir henta hvaða lit á augum – hefðuð þið áhuga á því?
EH
Skrifa Innlegg