Kinnalitafærslurnar hafa fengið að sitja aðeins á hakanum á meðan RFF gleðin stóð sem hæst – ég á reyndar enn efni í nokkrar færslur um tískuhátíðina í viðbót sem byrtast núna næstu daga…En kinnaliturinn sem ég er með á myndinni hér er frá Smashbox og tegundin heitir Halo en ef þið hafið skoðað Smashbox vörurnar svolítið síðan þær komu hingað þá ættuð þið að kannast við það nafn því það er líka fáanlegt púður frá merkinu undir sama nafni.
Liturinn sem ég er með er Warm Glow og ég myndi lýsa honum sem rauðbrúnum lit eða berjalit – mér finnst hann fara mjög vel við andstæðurnar í andlitinu mínu – dökku augun og hárið á móti ljósu húðinni. Púðrið er ekki of þungt fyrir húðina – þegar maður notar púðurlit, sérstaklega matta liti, sem mér finnst þessi vera, finnst mér það verða stundum of greinilegt að maður sé með kinnalit. Það er púðrið blandast ekki nógu fallega saman við húðina, það á ekki við þennan kinnalit.
Umbúðirnar eru svolítið sérstakar en fyrir mér virðist púðrið vera í föstu formi en til að fá litinn upp á snýrðu appelsínugula hringnum – sjáið á myndinni hér fyrir ofan – og þá kemur liturinn upp í föstu púðri en það eru örfínar sköfur – besta lýsingin sem mér dettur í hug – sem skafa ofan af púðrinu svo það koma púðuragnir uppúr sem þið setjið síðan púðurburstann í og berið á kinnarnar. Sniðug lausn og góð vörn til að koma í veg fyrir að púðrið brotni. En það er gott að hafa í huga að skafa bara lítið magn í einu upp af því ef þið eruð með laust púður uppi við þá gæti það farið út fyrir þegar þið opnið kinnalitinn næst.
EH
Skrifa Innlegg