fbpx

Detailar í herberginu hans Tinna Snæs

Fyrir HeimiliðLífið MittTinni & Tumi

Herbergið er nú ekki alveg orðið eins og ég vil hafa það, enn vantar hirslur undir allt dótið sem liggur útum öll gólf, ný motta helst loðin og græn er á óskalistanum og svo á eftir að setja upp myndavegg og einhverjar hillur fyrir bækur og smámuni. Mig langaði þó að sýna ykkur smá af því sem er komið. En mér finnst mjög mikilvægt að herbergið sé skreytt litríkum og fallegum hlutum þar sem veggirnir, rúmið og kommóðan eru alveg hvít. Þannig vild ég reyndar hafa það til að geta leyft litríku hlutunum hans Tinna að njóta sín.

tsherbergi12

Fallegir skýjalímmiðar frá FORM Límmiðar bættust við skreytingar herbergisins og við Aðalsteinn vorum að hlæja að því að herbergið væri farið að líkjast dáldið mikið herberginu hans Adda úr Toy Story með þeim – sem er ekkert verra. Það verður líka bara flottara þegar Viddi og Bósi koma uppúr jóla- og afmælispökkunum hans Tinna í ár :)

tsherbergi11

Þið hafið nú þegar fengið að sjá pælinguna mína með stafaborðann en um leið og fyrsti snjórinn fellur fær hann smá yfirhalningu. HÉR getið þið séð færsluna um hann en ég fékk minn á petit.is.

tsherbergi10

Stafaborðann festi ég bara upp með límbandi en mig vantar endilega hugmynd til að gera það öðruvísi ef þið lumið á þeim endilega látið mig vita. En þar sem ég ætla að breyta honum reglulega gæti reynst vesen að festingarnar séu alltaf á sama stað.

tsherbergi8

Fallegi múmínóróinn er kominn upp í glugganum – ég veit þó ekki hvort hann fái að vera þar alltaf en hann tekur sig þó vel út þar í bili.

tsherbergi7

Dásamlega rúmteppið sem fylgdi pabba mínum og bræðrum hans frá því þegar elsti bróðir pabba fæddist. Mér finnst þessi sæti hundur sprengja alla krúttskala!

tsherbergi5

Ofan á kommóðunni bíða fallegar myndir meðal annars frá Pastelpaper eftir að komast uppá vegg. Flottu pappírsdýrin fékk Tinni í nafnagjöf frá frænkum sínum en mig langar helst að raða þeim í fallega hillu uppá vegg með bókum og öðrum smámunum.

tsherbergi4

Á myndavegginn fara að sjálfsögðu líka Múmínálfa myndir en ég rammaði inn nokkur krúttleg póstkort með myndum af fjölskyldunni í hvíta IKEA ramma.

tsherbergi3

Þessi litli snáði er algör gersemi en mágkona mín heklaði hann eftir teikningu af hjálparsveinum Gru í Aulinn ég. Tinni heldur mikið uppá myndina og þessi bangsi er auðvitað algjört meistaraverk eftir þessa hæfileikaríku skvísu sem gefur út sína fyrstu bók núna í október. Bókin heitir Slaufur og inniheldur uppskriftir af alls konar flottum prjónuðum slaufum en Tinni Snær situr fyrir ásamt litla bróður mínum.

tsherbergi

Karlmennirnir í minni ætt eru mjög uppteknir af Star Wars svo ég er það að sjálfsögðu líka og þekki myndirnar fram og tilbaka þó svo þær eldri verði alltaf í meira uppáhaldi en þessar nýrri. Foreldar mínir færðu Tinna Svarthöfðabúning síðast þegar þau komu frá USA – Tinni í búningnum er bara aðeins of krúttlegt!

tsherbergi2

Fallegu skýjin setja svo sannarlega skemmtilegan fíling yfir herbergið og ég er svo mikið að vanda mig að raða þeim í jafna röð og passa að hafa jafnt bil á milli. Mér finnst líka svo skemmtilegt að hafa þau fyrir ofan rúmið hans gerir svona fallega draumastemmingu.

tsherbergi6

Límmiðana er hægt að fá í alls konar gerðum og litum og þið getið fundið þá HÉR. Þeir eru ekki bara flottir í barnaherbergi heldur líka inní stofu, inní svefnherbergi og inní eldhús. Frábær leið til að fríska uppá hvíta veggi og lífga uppá rými :)

Lofa svo að sýna ykkur meira þegar herbergið er komið lengra.

EH

Galdrar að verki!

Skrifa Innlegg

9 Skilaboð

  1. Guðrún

    29. September 2014

    Límbönd með allskonar munstri fást víða, t.d. í Sostrenne Grene og Epal, gæti verið sniðugt fyrir stafaborðann :)

  2. Maren

    29. September 2014

    Veistu hvaðan pappírsdýrin eru? :)

  3. Rannveig

    30. September 2014

    Nei sko hvað hann tekur sig vel út! Kannski maður þurfi bara að fara að skella í einn Olaf fyrir gaurinn á meðan Frozen-æðið stendur yfir ;) <3

    • Reykjavík Fashion Journal

      30. September 2014

      ohhh – þú veist að það myndi slá í gegn!!! Ég býð svo spennt eftir næstu bók – hekl uppskriftir af teiknimyndapersónum – hversu mikil snilld!!!

  4. Hulda

    7. October 2014

    Sæl Erna,
    Hvernig fórstu að því að ná skýjunum svona beinum og fínum, mér finnst þetta allt vera skakkt og skælt hjá mér sama hvað ég reyni.

    • Reykjavík Fashion Journal

      7. October 2014

      Hæ Hulda :) Ég bara vandaði mig alveg extra mikið – var ekki með neitt mér til hliðsjónar þannig en ég get alveg sagt þér það að þetta tók mig mjög langan tíma og ég þurfti oft að taka af og byrja aftur :)