Nú styttist óðum í konudaginn og ef þið ætlið að gleðja konu í ykkar lífi já eða viljið nýta tækifærið og koma óskum um smá gjöf á framfæri við þann sem ætlar að gleðja ykkur á sunnudaginn þá mæli ég með ilmvatninu sem þið fáið að vita allt um núna. Ég hef oft sagt það áður og ég meina það enn einu sinni en það er ávalt koma sumarilmsins frá Escada sem mér finnst koma með vorið. Þegar þessi ilmur kemur í verslanir þá boðar það bara frábæra tíma framundan. Hann er iðulega einn af þeim fyrstu til að mæta og ég heillast alltaf af honum – hvernig sem hann er. Ég hef alla vega ekki enn fundið ilm frá merkinu sem heillar mig ekki á staðnum!
Ilmurinn heitir í ár Turquoise Summer hann er eau de Parfum og fæst í 30ml og 50ml umbúðum og það er líka til Body Lotion. Hann er ofboðslega ferskur og góður, hann er ávaxtakenndari en ilmur síðast árs. Innblástur ilmsins er frelsi og þessi frelsistilfinning sem fylgir sumrinu þegar hárið færist til í léttri golu og allt er einhvern vegin svo einfaldara. Mér finnst líka skemmtileg tenging við fiðrildið sem umlykur háls flöskunnar. Flaskan er í sama lagi og síðustu ár, hún er með fallegum bláum lit sem smám saman hverfur og eftir stendur glær botn.
Ilmurinn samanstendur af léttum tónum og ávaxtatónum og svo líka nokkrum kröftugum sem gera hann að enn betri en það má segja að það sé blanda jarðaberja og hindberja sem einkenna ilminn – það eru alla vega tónarnir sem ég greindi alveg sérstaklega sterkt.
Aðrir einkennandi tónar eru í hjartanu sem er djúpur ferskjutónn sem mildar ilminn og gerir hann örlítið mýkri, svo frískar fjóla og appelsínublóm uppá hjartað líka. Í grunninn eru það svo ekta tónar til að dýpka ilminn – svona þeir tónar sem mér finnst alveg sérstaklega algengir í svona sumarilmum því þeir mynda svo svakalega gott jafnvægi – en það eru vanilla og sandelviður.
Mér finnst þessi virkilega æðislegur sérstaklega því hann kemur í góðum stærðum og er á góðu verði þrátt fyrir að vera eau de parfum sem eru yfirleitt aðeins dýrari ilmvötn. Þessi er æði og fær mín bestu meðmæli. Þeir eru tveir vorilmirnir sem ég verð alltaf að eignast annar þeirra er sá frá Escada svo er einn í viðbót sem er ekki kominn í sölu en ég fékk minn í dag og hlakka til að segja ykkur frá honum þegar hann er kominn í verslanir sem verður núna í mars…. Ég ætla ekki einu sinni að segja hver það er!
Annars vona ég að þið eigið dásmalega helgi, ég hef sjaldan verið jafn spennt fyrir helgi í langan tíma en ég ætla að reyna að vinna ekki neitt. Þvílík vinnuvika að baki og ég er eiginlega alveg örmagna – ekkert eiginlega ég bara er örmagna. Vinnutörnin hefur sjaldan verið svona rosaleg þrátt fyrir að ég sé búin að minnka við mig um eina vinnu er ég eiginlega ekki enn farin að finna fyrir því að hafa meira rými til að sinna blogginu. En ég hlakka til nýrrar viku og er með planaðar skemmtilegar færslur um helgina og á morgun eru það 15 vikna bumbumyndir sem fá að mæta hingað á bloggið eftir kröfu vinkvenna.
EH
P.s. eins og alltaf kemur ilmurinn bara í takmörkuðu upplagi svo það er um að gera að tryggja sér hann sem fyrst áður en hann klárast!
Varan sem ég skrifa um hér fékk ég senda sem sýnishorn. Það hefur þó engin áhrif á álit mitt á vörunum og eins og alltaf veiti ég hreinskilið álit.
Skrifa Innlegg