Fyrir stuttu þá flutti ég inní nýtt skrifstofurými. Síðustu vikur hafa farið í það að skoða alls konar myndir í leit af innblástri. Núna er ég reyndar bara með gamalt skrifborð, borðstofustól og sjónvarpsskenk fyrir aftan. En með smá tíma og hugmyndaflugi þá held ég að þetta pláss mitt geti orðið sjarmerandi.
Allt hvítt er heillandi – ég er þegar búin að koma auga á nýtt skrifborð sem er reyndar hugsað sem snyrtiborð – passar vel fyrir mig. Svo langar mig að hafa hvítan skenk fyrir aftan borðið þar sem ég get stillt upp ilmvatnsglösum og naglalökkum fyrir framan stóran gylltan spegil sem ég á hérna heima. Annars langar mig líka að nota vegginn fyrir aftan skrifborðið mitt sem hugmyndavegg – held það gæti komið skemmtilega út.
Í gær tók ég með mér nokkur ilmvatnsglös og raðaði þeim upp ofan á litlum tímaritastafla. Eins og er þá er þetta eina myndin af rýminu mínu sem mér finnst við hæfi að birta;)
Ég hlakka til að stilla upp fallegum snyrtivörum, vera með lifandi blóm og gera dáldið kósý. Ég vinn lang best í hlýju umhverfi – umkringd fallegum hlutum.
Ég leyfi ykkur að fylgjast með framgangi mála…:)
EH
Skrifa Innlegg