fbpx

Náðu Lúkkinu

Ég er svo sjúkleg skotin í förðuninni sem Scarlet Johansson skartar í auglýsingu fyrir nýjasta ilminn frá Dolce & Gabbana – Desire. Svo mér fannst myndin fullkomin í næstu „Náðu lúkkinu“ færslunni minni. Það er síðan á listanum mínum að endurskapa þetta lúkk!

  • Byrjið á því að grunna húðina með léttum farða – ég myndi frekar nota farða hér en BB krem til að fá meiri þekju.
  • Notið hyljara með ljómandi áferð undir augun, á kinnbeinin, á miðju ennisins, niður með nefinu og á hökuna til að fá svona ljómandi áferð. Held það gæti oriði aðeins of mikið að nota higlighter, það yrði of blautt.
  • Setjið létta skyggingu í andlitið – eins og ég sýni HÉR.
  • Mér sýnist hún ekki vera með mikinn kinnalit, en ef þið viljið setja einhvern þá myndi ég nota orange lit sem tónar við gylltu augnförðunina.
  • Takið brúnan augnskugga – t.d. með sanseraðri áferð, og berið yfir allt augnlokið. Látið augnskuggan ná út fyrir augnlokið þannig hann gefi augunum svona kisulega ásýnd. Dreifið jafnt úr augnskugganum yfir augnlokið. Setjið skuggann einnig meðfram neðri augnhárunum, hafið litinn mestan hjá ytri augnkróknum og látið hann deyja út áður en hann kemur að þeim innri.
  • Til að ná gyllta litnum í aungkróknum myndi ég nota gel- eða kremaugnskugga með svona sanseraðri áferð. Doppið honum létt í augnkrókinn og setjið örlítið af honum inná augnlokið.
  • Notið kolsvartan geleyeliner og setjið þykka línu meðfram augnlokinu línan á að ná alveg að innri augnkróknum og að ytri augnkróknum. Þetta sjáið þið vel á myndinni.
  • Hún er mjög greinilega með gerviaugnhár sem eru þétt – til að gef augnhárunum mesta umfangið þá mæli ég með því að þið berið maskara á augnhárin, setjið svo gerviaugnhár á augun og setjið svo ennþá meiri maskara. Það er aldrei hægt að setja of mikið af maskara á augnhárin – nema hann klessist mikið að sjálfsögðu;) Af minni reynslu þá eru það oftast maskarar með gúmmíbursta sem klessa sjaldnast.
  • Til þess að ná að hafa varirnar með svona þéttum en samt léttum lit með glossaðri áferð er bara ein vara sem kemur til greina að nota og það er flottur Dior Addict varalitur!

Desire ilmurinn og fílingurinn í honum passar svo vel við þessa förðun sem gefur Scarlet dularfulla ásýnd. Svart glas með gylltum smáatriðum. Svo er glasið áletrað með undirskrift Stefanos Gabbana á Desire í gylltu. Tappinn er í líki svarts geimsteins sem endurkastar ljósinu í kringum sig.

Eins og segir í nafni ilmvatnsins er hann gæddur innilegri þrá. Ilmvatnið er sérstaklega kvenlegt og í stuttu máli þá er þetta blómailmur sem hentar t.d. vel á fallegu vor/sumarkvöldi. Ég notaði þennan ilm á fyrsta stefnumóti okkar unnustans eftir fæðingu erfingjans þegar við fórum á frumsýningu Íslenska Dansflokksins um daginn. Ég féll alveg fyrir honum þá. Mér finnst að ilmvötn sem fara manni eigi maður endilega ekki að taka sjálf eftir að maður sé með. Ef ég nota ilmvatn sem pirrar mig þá finnst mér ilmurinn oft festast í nefinu á mér – það gerði þessi alls ekki. Dolce & Gabbana ilmirnir eru reyndar í uppáhaldi hjá mér – femme ilminn nota ég mikið.

Toppnótur ilmsins eru mandarína, litkaaldin og ilmappelsína sem tóna vel með ilm af lilju. Svo má segja að í hjarta ilmsins sé þrenning sérstaklega kvenlegra blóma – maríulilja, indverskur rósahnúður og jasmín sem blandast saman við ilm sætrar plómu. Skemmtilegt hvernig toppnóturnar – ilmurinn sem fangar athygli okkar sé með þremur ávöxtum og einu blómi en hjartað akkurat öfugt. Grunnurinn er svo sérstaklega ljúfur en þar er vanillublandin karamella sem fer saman við sandelvið, moskus og klettarós.

Þennan ilm og fleiri verð ég með til sýnis á Tískudögum í Smáralind í dag;)

EH

Must See!

Skrifa Innlegg