Fyrir stuttu eyddi ég deginum í verkefni á Akranesi. Úti blés ískaldur vindur og við vorum rétt hjá hafinu. Ég dáðist að fyrirsætunni sem sat fyrir í fatnaði úr nýrri línu frá hönnuðinum Magneu Einars sem er væntanleg í sölu þann 12. nóvember í versluninni JÖR á Laugaveginum.
Magnea Einarsdóttir er 27 ára fatahönnuður og strákamamma sem ólst upp í Vesturbænum, fór í Menntaskólann við Hamrahlíð og þaðan í fornám í Myndlistarskólanum. Hún byrjaði að læra fatahönnun í París í skóla sem heitir Parsons en fór þaðan til London í Central Saint Martins og lærði fatahönnun með áherslu á prjónavöru. Hún Magnea tók sér þó ársleyfi frá skólanum til að eignast barn og vera í barneignarleyfi á Íslandi en flutti svo út með son sinn og kláraði námið í fyrrasumar. Síðan hún útskrifaðist hefur verið nóg að gera hjá henni en hún kennir t.d. prjón og hugmyndavinnu í textíldeild Myndlistarskólans og hefur verið að hanna fyrir danskt fyrirtæki sem heitir Muuse. Í sumar bauðst henni að taka þátt í tískusýningum á Spáni og í Bretlandi og í kjölfarið bauðst henni að selja línuna sem hún hannaði fyrir sýningarnar í nýrri dömudeild JÖR. Svo nú er hún á fullu að leggja lokahönd á hana fyrir opnun deildarinnar.
Ég fékk hana Magneu til að svara örfáum spurningum um atriði sem mig langaði að fá að vita tengdum þessari skemmtilegu línu. Inná milli spurninganna blanda ég svo myndum úr lookbook myndatökunni.
Er einhver sérstök ástæða fyrir því að þú hannar knitwear?
Það eru nokkrar brautir í tískudeildinni í Central Saint Martins og knitwear er ein af þeim en hún undirbýr fólk fyrir störf sem knitwear/jersey hönnuðir í tískuhúsum. Mér var bent á að það væru styrkleikar í möppunni minni í prjóni og var boðið að velja þá línu og mér leist strax vel á þá hugmynd. Eftir árið í París vissi ég að mig langaði að sérhæfa mig meira en var ekki ákveðin í hverju og þarna kom bara svarið. Ég get ekki sagt að ég hafi verið að prjóna mikið fyrir en strax á degi eitt þegar ég prófaði prjónavél í fyrsta skipti vissi ég að þetta var fyrir mig. Ég heillaðist af því að búa til mín eigin efni frá grunni og legg áherslu á að gera áhugaverðan textíl.
Hver er innblásturinn þinn fyrir línuna?
Ég hannaði þessa línu út frá útskriftarlínunni minni sem ég gerði í fyrra. Línan var öll handgerð úr andstæðum efnum, íslenskri ull og gúmmíi. Þegar ég fór að vinna þessa línu vildi ég nota sömu aðferðir og efni en gera hana auðveldari í framleiðslu. Ég fékk innblásturinn upp úr gömlum kassa sem ég fann í flutningum en þar voru gömlu körfuboltamyndirnar mínar og póstkort af egypskum múmíukössum. Mér fannst þetta skemmtilega ólík viðfangsefni og blandaði saman smáatriðum úr báðum áttum.
Nú veit ég að það verða ekki fáanleg mörg stykki af hverri flík, afhverju er það?
Línan er að miklum hluta handgerð og þess vegna mjög mikill tími sem fer í að vinna hverja flík. Ég lét framleiða eins mikið og ég vissi að ég mundi ná að klára fyrir opnun dömudeildarinnar í JÖR, allavega svona til að byrja með. Ef eftirspurnin verður mikil þá læt ég framleiða meira en annars er ég líka að fara á fullt í að klára næstu línu.
Afhverju ákvaðstu að skíra merkið sama nafni og þú berð?
Ég hef náttúrulega mjög oft hugsað út í það hvað ég mundi láta mitt eigið merki heita en var ekki endilega að stefna a það alveg strax. Það hefur allt gerst mjög hratt á þessu ári og magnea varð fyrir valinu því það var einfaldlega ekki tími til að finna annað nafn. Annars hefur magnea líka alltaf unnið aðrar hugmyndir sem ég hef fengið. Það er ekki mjög algengt, það er íslenskt en virkar vel erlendis og svo þykir mér líka alveg sérstaklega vænt um það vegna þess að ég er skírð eftir yndislegu ömmu minni sem kenndi mér að sauma.
Hvernig konu sérð þú fyrir þér klæðast flíkunum?
Í rauninni bara hvaða konu sem er. Ég hef fundið fyrir áhuga hjá mjög breiðum hópi. Ég er að vinna með svolítið óhefðbundin efni svo hún verður að vera típa sem þorir. Sniðin eru einföld þar sem áherslan er á smáatriði í textílnum svo ég sé fyrir mér að flíkurnar henti þeim sem vilja kaupa vandaða og tímalausa vöru.
Áttu þér uppáhalds flík úr línunni?
Mér finnst rosalega erfitt að velja uppáhalds.. en ég hef mikið verið að nota hvítu peysuna – sjá HÉR. Mér finnst hún virka bæði hversdags og spari, allt eftir því hvað maður notar með henni.
Svo að lokum gat ég ekki staðist það að spurja Magneu útí það hvaða snyrtivörur væru í uppáhaldi hjá henni…
Núna er ég að nota dagkrem og húðhreinsivörur frá Biotherm og ilm frá Chloé sem heitir Love. Ég get ekki verið án Kanebo Total Finish púðurfarðans og á augun set ég alltaf brúnan augnskugga, Paint Pot Quite Natural frá Mac og Lash Queen maskara frá Helena Rubinstein. Ég er rosalega ánægð með primerinn minn frá Smashbox og finnst hressandi að setja hyljara frá Make Up Store undir augun sem heitir Reflex Cover. Svo er ég alltaf með uppáhalds varalitinn í töskunni, en hann er frekar dökkur og heitir Rivoli nr 21 frá Chanel.
Lookbook myndataka f. Magneu Einars:
Ljósmyndari: Aldís Pálsdóttir
Fyrirsæta: Sara Karen
Hár & Förðun: Erna Hrund Hermannsdóttir
Ég hvet ykkur svo til að fylgjast með hönnun Magneu inná Facebook ef ykkur líst vel á hana – HÉR.
EH
Skrifa Innlegg