Fyrir stuttu síðan fékk ég nokkur sýnishorn af nýjum snyrtivörum sem voru að koma í sölu hér á markaði. Ég varð forvitin þegar ég fékk tölvupóst frá fyrirtækinu sem flytur vörurnar inn. Þar var mér sagt að merkið, Benecos, biði uppá lífrænt vottaðar snyrti- og förðunarvörur. Það er alls ekki mikið úrval af svokölluðum „no nasties“ förðunarvörum á Íslandi svo ég varð spennt að skoða þetta merki betur.
Benecos merkið býður uppá flest allar tegundir förðunarvara – farða, púður, kinnaliti, augnskugga, maskara og eyeliner-a svo eitthvað sé nefnt.
Ég fékk að prófa farðann, maskara, varalit, naglalakk og púðurbursta frá merkinu. Burstinn er strax kominn í burstasettið mitt, hann er alveg silkimjúkur og hefur ekki enn misst eitt hár. Ég er með ljósasta litinn af farðanum sem er mjög þéttur og helst til of þykkur sem hentar illa þurru húðinni minni – svo ég þynnti hann aðeins með því að blanda rakakreminu mínu saman við hann. Ef þið eruð að nota þykkan farða þá gildir það oftast að vera fljótar að dreifa úr honum því þykku farðarnir þorna oft mjög hratt. Svo er gott að hafa það fyrir reglu að strjúka yfir andlitið með hreinar og þurrar hendurnar til að jafna áferðina og koma í veg fyrir misfellur.
En spenntust var ég þó fyrir maskaranum – merkið býður uppá þrjár týpur af maskara og mér leist best á Maximum Volume – Multi Effect. Burstinn er með mörgum hárum sem liggja þétt saman. Burstinn nær að fanga hvert augnhár og skilar frá sér mjög fallegum og náttúrulegum augnhárum. Augnhárin verða þéttari og þykkari en að mínu mati greiðir burstinn ekki alveg nógu vel úr þeim. Áður en ég frétti af þessu merki spurðist ég aðeins fyrir um lífrænt vottaða maskara og ég fékk ekkert sérstaklega góðar reynslusögur frá konum sem höfðu prófað það sem til var. Ég hvet því þær konur sem voru búnar að gefast uppá möskurunum sem voru til hér fyrir komu Benecos að tékka á þessum möskurum.
Svo valdi ég mér brúnan varalit – liturinn heitir Toffee og smellpassar inní varalitatrend haustsins. Þennan mun ég nota mikið í vetur – bæði einan og sér en líka undir aðra liti til að gefa þeim brúnan tón. Ég held það muni koma mjög vel út að blanda honum t.d. við dökkrauðan lit.Hér er ég með farðann, varalitinn og maskarann.
Ég fagna komu lífrænt vottaðra förðunarvara til landsins – það eru eflaust margar konur sem finnst frábært að eiga kost á því að kaupa svona snyrtivörur.
Ég mun þó seint hætta að nota hinar snyrtivörurnar mínar en það eru kannski ekki allir eins og ég.
Svo mæli ég með því að ef þið eigið litlar prinsessur sem vilja stundum fá naglalakk eins og þið að þið kaupið þessi naglalökk – þau eru ekki að skemma litlar og viðkvæmar neglur.
Benecos vörurnar fáið þið í Lifandi Markaði og Heilsuhúsinu.
EH
Skrifa Innlegg