Ég hef þónokkrum sinnum talað um að það séu engar reglur þegar kemur að förðun allt sé leyfilegt en það eru þó kannski nokkrar reglur sem fjalla um umhirðu förðunarvara og notkun þeirra sem mér finnst stundum gott að minna á :)
Aldrei pumpa maskarann:
Þetta eru án efa algengustu förðunarmistökin og ég hjartað á mér tekur í alvörunni kipp þegar ég heyri hljóðin þegar maskari er pumpaður. Það sem er svo skelfilegt við að gera þetta er að þegar maskarinn er pumpaður svona þá myndast litlar loftbólur inní maskaranum og hann þornar innan frá. Ég er ein af þeim sem stoppar fólk samstundis í klefanum í sundlauginni, í vinnunni eða bara hvar sem er þegar ég sé konur gera þetta. Þetta er svo mikil synd því um leið og formúlan er farin að þorna þá hrynur maskarinn af augnhárunum því formúlan er svo þur. Þegar ég hef verið að kynna útí búðum og heyrt konur bölva möskurum því þeir hrynja þá gef ég mig undantekningarlaust á tal við þær og ber upp spurninguna um hvort þær pumpi nokkuð maskarann sinn. Svarið er í 98% tilfella já og um leið og þær hætta því þá lagast ástandið. Þetta er auðvitað sérstaklega leiðinlegt þegar um er að ræða dýra maskara. Ef þetta er spurning um að fá meiri formúlu í greiðuna ykkar þá veit ég ekki hvernig einhver fékk það út að það fengist með því að pumpa maskarann… mitt ráð, snúið burstanum út til hliðanna þegar þið eruð að draga hann upp þá fáið þið nóg af formúlu.
Auðvitað er það ekki algilt að þetta sé útskýringin margar konur pumpa ekki maskarann sinn og formúlan þornar samt. En ef þið passið uppá að loka maskaranum vel og geyma hann á þurrum stað þar sem hitastigið er jafnt þá á þetta allt að enda vel. Ef ekki þá er formúlan mögulega gölluð. Endingatími maskara samkvæmt umbúðum þeirra eru 3 mánuðir. Af minni fenginni reynslu finnst mér formúlur sem fylgja möskurum með gúmmíbursta endast lengur en þeir sem eru með venjulegum bursta.
Hreinsið burstana ykkar reglulega:
Hreinlæti er ótrúlega mikilvægt þegar kemur að förðun. Maður á almennt ekki að nota sömu förðunarvörur og annar er að nota um leið og það á líka við um förðunarbursta og svampa. Nú þegar það er orðið enn vinsælla að eiga förðunarbursta þá verð ég að brýna enn einu sinni á því að þið hreinsið reglulega burstana. Ef þið eruð bara að nota þá fyrir ykkur þá segi ég 4-6 vikna fresti – þetta á líka við um alla svampa ef þið notið þannig t.d. í farða. Eins ef þið eruð að lána burstana ykkar til vinkonu þá er mikilvægt að þrífa þá strax eftir það. Sérstaklega ef um er að ræða bursta sem eru notaðir á augun því augnsýkingar eru svo ótrúlega fljótar að smitast á milli. HÉR getið þið lært allt um það hvernig ég hreinsa burstana mína.
Primerinn þarf að þorna:
Eins og með rakakrem þá þarf primer að fá að þorna og jafna sig á húðinni áður en fleiri förðunarvörur eru bornar á hana. Þetta á við um primera fyrir húðina og fyrir augun. Ef hann fær ekki að þorna þá nær hann ekki að gegna sínu hlutverki almennilega og blandast bara við förðunarvörurnar sem koma ofan á. Primer á að jafna yfirborð húðarinnar, fylla upp í ójöfnur, laga ýmsa bletti eða annars konar lýti og hann getur ekki gert það nema að hann fái tíma til að jafna sig á húðinni og vinna vinnuna sína. Yfirleitt finnst mér 5-10 mínútur nóg til að hann fái að gera sitt. En svona ef þið pælið í því þá meikar þetta alveg sense :)
Að prófa lit á farða á handabakinu:
Ég verð ennþá eitt spurningamerki í framan þegar ég er að kynna snyrtivörur og konur rétta fram hendina til að prófa lit á farða. Það á alltaf að prófa litinn á kjálkanum til að sjá hvort liturinn passi ekki bæði andlitinu og hálsinum. Þetta gerum við til að passa uppá að hin alræmda gríma myndist ekki. Liturinn á handabakinu er allta annar og yfirleitt eru við með berar æðar á höndunum og því er útkoman á farðanum á handabakinu ekki í samræmi við þá sem myndi myndast á andlitinu. Ég mæli alltaf með því að konur reyni að mæta með hreina húð þegar þær ætla að fara að kaupa sér farða til að geta prófað hann almennilega. Annars er alltaf hægt að fá aðstoð inní verslunum við að hreinsa húðina og alla vega þegar ég er að kynna þá hjálpa ég bara konum að farða sig uppá nýtt :)
Réttur litur sem hentar ykkur og ykkar litarhafti fellur alltaf inní húðina samstundis.
Mér finnst þetta svona algeng mistök sem er einfalt að laga og ætti að laga sem fyrst ;)
EH
Skrifa Innlegg