fbpx

Hafdís Inga um rósaroða

HúðMakeup ArtistMakeup TipsSnyrtivörur

Ég er fyrst til að viðurkenna það að ég veit ekki nákvæmlega allt um húðina og vandamál sem geta komið upp hjá okkur öllum varðandi hana. Ég er þó sjúk í að læra meira um húðina og á stuttum tíma hef ég náð að sanka að mér alls kyns fróðleik. Einn húðsjúkdómur sem ég er ekki nógu fróð um en fæ reglulega spurningar útí er rósaroði. Mér fannst því kjörið tækifæri að kynna ykkur fyrir mínum fræðara í þeim efnum henni Hafdísi Ingu.

Hafdís er algjör snillingur þegar kemur að bæði förðun og húðumhirðu en hún er förðunarfræðingur en við lærðum báðar í sama skóla – Hafdís þó á undan mér en hún kenndi mér líka smá þegar ég var í náminu. Ég get alltaf leitað til hennar þegar ég þarf að fræðast um rósaroða og mörg svörin sem ég sendi frá mér varðandi þennan sjúkdóm eru byggð á upplýsingum sem hún hefur deilt með mér. En eins og með allt þá þekkir maður best sína eigin húð og ég fékk að senda nokkrar spurningar á hana Hafdísi um rósaroða og fá hana um leið til að gefa ykkur sem eruð með sjúkdóminn eða haldið mögulega að þið séuð með hann upplýsingar.

217274_10150165297381842_1815759_nHafdís Inga

Hvernig lýsir rósroði sér í húðinni?

Rósroði er varanlegur húðsjúkdómur sem lýsir sér í bólgum og roða sem oftast kemur fram í andliti. Um er að ræða mikla víkkun í háræðum sem veldur vandamálinu og er talið að erfðir og umhverfisþættir spili mesta rullu hvað rósroða varðar. Hjá mér lýsir þetta sér þannig að ég er alltaf rjóð í kinnum og fæ bólgur sem líkjast bólum á sama svæði. Stundum fæ ég rósroða köst þar sem það virðist vera sama hvað ég geri, ég skána ekkert og hef því endað á sýklalyfjakúr, sem svo lagar ástandið. Virkilega leiðinlegur kvilli að díla við.

Hvenær varðst þú fyrst vör við rósroðann hjá þér?

Ég fékk rósroða eftir að ég átti mitt fyrsta barn en fyrir þann tíma var ég með algjörlega fullkomna húð.

Fylgja honum óþægindi?

Já mjög mikil, ég er mjög viðkvæm fyrir áreiti, finn hita í húðinni og þorna upp. Eins eru töluverð óþægindi vegna útlitsins, bæði vegna roðans og bólgnanna.

Hvað ráðleggur þú konum sem halda að þær séu mögulega komnar með rósroða að gera?

Ég mæli hiklaust með því að þær leiti sér aðstoðar hjá húðlækni til að fá greiningu og þá lyf eða krem ef þörf er á. Að því loknu skiptir verulegu máli að huga vel að húðinni, nota vörur sem henta viðkvæmri húð og fylgjast með því hvort að eitthvað matarkyns hafi svokölluð „trigger“ áhrif á húðina, þ.e.a.s komi kasti af stað. Ég sjálf þarf t.d að forðast ákveðnar rauðvínsþrúgur ásamt fleiru.

Eru einhverjar vörur sem konur með rósroða ættu að forðast?

Virk krem fara gíðarlega illa með mína húð en ég finn það strax ef ég nota vörur sem húðin mín þolir ekki þar sem ég fæ nokkurkonar stingi og sviða. Eins er ráðlagt að forðast olíur á húðina. En mikilvægt er að hafa í huga að það getur verið mjög persónubundið hvað hver og einn þolir en ég held að almennt myndi ég ráðleggja fólki að halda sér við vörur sem eru sérstaklega gerðar fyrir viðkvæma húð.

Eins þurfum við rósroðafólk að fara afskaplega varlega í kornamaska og helst sleppa þeim, nema þá að maður noti þá á þau svæði sem eru „rósroðalaus“.

Hvaða snyrtivörur hafa reynst þér best með rósroðanum – að fela hann eða draga úr honum?

Til að draga úr roðanum hef ég mikið notað græna CC kremið frá L´oreal, en græni liturinn dregur einmitt úr roðanum. Það er frábær vara á mjög góðu verði sem hentar mér afar vel. Eins passa ég mig á því að eiga alltaf léttan og góðan hyljara sem ég set yfir farðann komi roði í gegn, en alltaf í þunnu lagi þar sem að náttúrulegt útlit er mér mikils virði.

Eins er ég núna að nota Neostrada krem sem er sér hannað fyrir rósroðahúð sem hefur reynst mér mjög vel, ásamt Hydra Zen frá Lancome sem ég held að sé mitt uppáhalds krem, en það róar taugaendana í húðinni og hentar minni húð fullkomlega. Svo skiptir mig gríðarlega miklu máli að hreinsa húðina mína kvölds og morgna með húðmjólk og toner, auðvitað fyrir viðkvæma húð. Bleika línan frá L´oreal hentar mér fullkomlega. Svo hefur það líka haft góð áhrif á mína húð að drekka nóg af vatni.

067eb563feceb2e399db5a677343fe37 Ég hef einmitt mælt með græna CC kreminu fyrir konur með rósroða einfaldlega
vegna þess að Hafdís talar svo vel um það!

Þegar maður fær að senda svona flottum förðunarfræðingi spurningar gefur auga leið að ég get ekki alveg stoppað þar og verð að fá að vita meira um hennar snyrtibuddu og venjur.

Hvaða vörur eru ómissandi í snyrtibuddunni þinni?

Ég kemst ekki langt án þess að eiga góðan og léttan farða, Sensai augabrúnablýantinn minn, brow drama frá Maybelline, sólarpúður, maskara og Lumi highlighter primerinn frá L’Oreal þar sem að ég er algjörlega high light sjúk. Svo er punkturinn yfir I-ið fallegur hyljari. Förðunin er svo fullkomnuð með góðum förðunarburstum.

Er einhver snyrtivörunýjung sem þú ert spennt fyrir að prófa?

Já ég er rosalega spennt fyrir svo mörgu, en ég er Benefit fíkill og langar virkilega að prufa held ég bara allt þar, sem ég þá hef ekki prufað enn. En ég er held ég spenntust fyrir að prufa nýju augn-primerana frá Smashbox akkúrat eins og er.

_MG_7044

Það er frábært að vera í teymi með Hafdísi en við og Gunnhildur Birna vorum makeup trioið á
tískusýningunni hennar Andreu Magnúsdóttur fyrir stuttu.

Hvað verður áberandi að þínu mati í förðunartrendum fyrir haustið?

Ég er svo ótrúlega ánægð með það að sjá að berjalitaðar varir eru að koma sterkar inn, það er eitt af mínu uppáhalds. Það verða s.s seiðandi varir, björt augu með metal áferð og náttúruleg húð og brúnir sýnist mér á öllu. Fallegt og kvenlegt haust í vændum.

fall_winter_2014_2015_makeup_trends_metallic_makeup

Það var metallic þema í förðunum hjá mörgum af helstu tískuhúsunum á sýningunum fyrir þetta haust.

Takk kærlega fyrir “spjallið” kæra Hafdís og ég vona að þið kæru lesendur séuð nú fróðari um þennan húðsjúkdóm. Hafdís Inga er eins og ég segi brillíant förðunarfræðingur og þið getið séð eitthvað af hennar verkum og haft samband við hana í gegnum Facebook síðuna hennar HÉR.

Ég tek undir með Hafdísi að ef þið haldið að þið séuð með einhver vandamál í húðinni ráðfærið ykkur þá við húðlækna ég eins og þið vonandi vitið legg mig fram við að hafa fjölbreytt efni inná síðunni og allir ættu að geta fundið efni og umfjallanir um vörur við sitt hæfi. Næst á dagskrá er að ráðast svo í almennilega umfjöllun um olíumiklar húð en eins og með rósaroðann hef ég ákveðið að ráðfæra mig við fróðari menn og netmiðla og sú færsla er væntanleg – lofa!

EH

Dreymir um Daisy

Skrifa Innlegg