Mig langar að segja ykkur frá frábæru verkefni sem er í gangi núna í einni flottustu barnaverslun landsins.
Name It hefur sett af stað frábæra söfnun í samstarfi við fyrirtækið I:CO sem stendur fyrir I Collect. Í verslunum Name It í Kringlunni og Smáralind finnið þið nú endurvinnslukassa þar sem er tekið á móti öllum fatnaði notuðum og jafnvel ónýtum. Fatnaðurinn er nýttur á ýmsan hátt öðrum til góðs. En auk þess að taka þátt í svona flottu starfi hefur Name It tekið þetta skrefinu lengra og tengdir þessa söfnun saman við aðra – til styrktar frábæru íslensku málefni. Þið finnið meiri upplýsingar um það hér neðar í færslunni.
Gefið ykkur stund til að horfa á þetta stutta myndband til að sjá hvernig fötin eru nýtt. Það er mjög fræðandi og gaman að sjá hvað er í raun og veru hægt að gera við úr sér gengin föt eða skó, það þarf alla vega alls ekki að henda þeim. Hér sjáið þið hvernig flíkurnar sem við notum ekki lengur geta öðlast nýjan tilgang og nýst öðrum :)
Ég hvet ykkur til að fara með þær flíkur sem þið eruð hætt að nota, þessar sem sitja venjulega aftast í fataskápnum og maður notar aldrei. Ég ætla klárlega að fara í gegnum minn skáp og fara með það sem ég er hætt að nota í dallinn í Name It. Ég þarf líka að fara í gegnum fötin hans Tinna ég er alveg viss um að ég get fundið einhverjar flíkur þar sem ég get kannski ekki notað á næsta barn, ef þær hafa t.d. rifnað eða blettir fest sig í þeim. Ég hvet ykkur til að gera hið sama.
Það eru engar kvaðir – þetta þurfa ekki að vera föt úr Name It eða þið þurfið ekki að versla föt í búðinni til að mega skila inn. Heldur er Name It á Íslandi bara að halda utan um söfnunina. Verslunin bætir svo um betur og fyrir hvert kíló af fötum sem safnast þá gefa þeir 100 kr til styrktar Umhyggju, félags langveikra barna. Markmið félagsins er að tryggja foreldrum og öðrum aðstandendum aðstöðu og réttindi til að dvelja hjá veiku barni sínu án þess að verða fyrir verulegri tekjuskerðingu. Þetta er félag sem hefur unnið frábært og óeigingjarnt starf öðrum í hag, félagið þrífst eingöngu á styrkjum frá fyrirtækjum og einstaklingum. Svo nú eruð þið komin með einn meiri hvata til að fara með flíkur í söfnunina. Þetta eru frábær málefni og við skulum láta gott af okkur leiða. Hver veit nema einhvert okkar eða einhver tengdur okkur þurfi á stuðningi Umhyggju að halda í framtíðinni eða hefur einmitt fengið stuðning frá þeim. Svo á maður kannski ekki einu sinni að hugsa þannig heldur bara að hugsa vel um náungann og láta gott af sér leiða fyrir þann sem þarf þess.
Sjáumst í Name It með fatapokana – ég skora á ykkur!
EH
Skrifa Innlegg