Áður en við getum byggt um fallegt málverk verðum við að vera með fullkominn hvítan striga – það er það sem farðinn gerir hann jafnar út lit húðarinnar og felur “galla” hennar. Þetta er besta lýsingin sem ég hef nokkurn tíman heyrt á því hvað farðinn raunverulega gerir – lýsinguna heyrði ég frá einum kennaranum mínum í förðunarskólanum.
Dream Satin Liquid frá Maybelline gefur lýtalausa airbrusháferð.
Til að ná sem fallegastri áferð á farðann þá mæli ég með því að þið berið fyrst rakakrem á húðina og látið það liggja á húðinni í sirka 10 mínútur þannig að húðin nái að draga rakann alveg í sig. Ef húðin fær ekki nægan tíma til þess er hætta á að hún dragi allan rakann úr farðanum strax í sig og þá endist hann ekki eins lengi og hann ætti og áferðin verður ekki jafn falleg.
Matte Morphose farðinn er léttur froðufarði sem gefur náttúrulegt yfirbragð.
Þegar ég ber á mig sjálfa farða þá nota ég alltaf hendurnar af því þá finnst mér koma fallegasta áferðin því ég get svo vel stjórnað því hvernig farðinn er. En þegar ég er að farða þá nota ég alltaf Duo Fibre bursta (stór svartur bursti með hvítum hárum efst) það finnst mér bara hreinlegra. Svo mæli ég samt með því að þegar þið eruð búnar að bera á ykkur farðann að strjúka aðeins yfir andlitið með hreinum höndunum til að koma í veg fyrir að það myndist smá misfellur. Munið svo að setja alltaf smá farða á hálsinn – til að koma í veg fyrir grímu – og á eyrun – því þau vilja oft verða rauðari en húðin er.
Lumi Magique farði sem gefur húðinni ómótstæðilegan ljóma – nauðsynlegur í sumar.
Ég held að það sé mjög algengt að við íslensku stelpurnar notum ekki mikið farða á sumrin en ég verð nú að hvetja sem flestar til að gera það. Því það er jú á sumrin sem sólin er sterkust og við þurfum að vernda húðina okkar fyrir útfjólubláum geislum og það gerum við einmitt með því að bera á okkur farða – allir farðar innihalda sólarvörn og vernda okkur þannig fyrir geislum sólarinnar. Svo viljum við heldur ekki að húðin okkar eldist hraðar en hún þarf en það gerir hún einmitt þegar hún verður fyrir of mikilli sól. Ef þið eruð óvanar því að vera með farða þá mæli ég með því að þið fáið ykkur léttan farða eins og Pure Mineral frá Maybelline, Lumi Magique frá L’oreal eða Face & Body frá MAC.
Face & Body frá MAC er einstaklega léttur og drjúgur farði sem gefur fallega áferð.
Eitt það nytsamlegasta sem ég lærði í förðunarskólanum var listin að blanda saman farða til að fá hinn fullkomna lit. Það er t.d. mjög sniðugt að eiga alltaf til hjá sér einn ljósan og einn dökkan farða, því á sumrin þá dökknar húðin okkar að sjálfsögðu og í staðin fyrir að þurfa kannski 2-3 yfir sumarið að kaupa nýjan farða þá kaupið þið einn frekar dökkan og blandið við ykkar ljósa sem þið eigið síðan í vetur. Sparar pening og farða.
Pure Mineral Liquid er steinefnafarði sem er olíu- og ilmefnalaus og megin uppistaðan í honum er vatn.
Þegar þið eruð að velja ykkur lit á farða munið þá að fara alltaf eftir ljósasta litnum í húðinni svo liturinn passi fullkomlega við húðina og til að koma í veg fyrir að það sjáist of vel að þið séuð með farða. Prófið litinn alltaf á kjálkabeininu til að finna lit sem passar andlitinu og hálsinum. Ef þið viljið virðast aðeins brúnni en þið eruð þá finnst mér alltaf fallegast að nota aðeins dekkra meik eða blanda því útí ljósa litinn ykkar. Áferðin verður alltaf aðeins náttúrulegri með farða en með sólarpúðri – því það getur þurrkað húðina svo. Passið samt að ganga ekki of langt í litabreytingunum;)
EH
Skrifa Innlegg