Það er ekkert leyndarmál að asískar konur eru þekktar fyrir að hugsa vel um húðina sína og þær eiga einhver af þeim allra best geymdu snyrtivöruleyndarmálum sem fyrirfinnast í heiminum í dag. Það er því vegna þessa sem ég heillast mjög auðveldlega af vörum frá asískum snyrtivörumerkjum og þá sérstaklega af húðvörunum þeirra.
Nýlega kom nýjung hjá snyrtivörumerkinu Shiseido á markað hér á Íslandi, snyrtivara sem kveikti mikla forvitni í mér til að kynna mér hana betur, prófa og segja ykkur frá…
Hér sjáið þið kremið umvafið af nýjum vorlitum frá merkinu sem þið fáið að sjá von bráðar á blogginu…;)
Kremið kemur nýtt inní Ibuki línuna frá Shiseido, Ibuki línan er hugsuð fyrir konur 25 ára og eldri eða fyrir þær sem að finna fyrir fyrstu einkennum öldrunar eða bara þær sem vilja fá enn meiri raka og vörur sem gera kannski aðeins meira fyrir húðina. Virkilega fín lína ;)
En Multi Solution gel heitir varan sem mig langar að segja ykkur aðeins frá í þetta sinn en hér er um að ræða eina litla vöru sem gerir alveg heilan helling eins og nafnið hennar gefur til kynna. Gelið er mjög virkt og er hugsað fyrir þessi neyðartilfelli sem koma stundum upp í húðinni okkar í kjölfar stress já eða bara þegar við borðum alltof mikinn sykur eða einhver ákveðin frænka mætir í heimsókn… ;) Gelið er sumsé ekki hugsað fyrir allt andlitið eða fyrir lengri tíma notkun heldur meira sem svona ígrip inní ástand sem við þurfum að hverfi, bólur, stækkaðar svitaholur, útbrot, roði, gróf húð – þetta er svona bani sem virkar hratt og gerir það sem hann á að gera.
Gelið er t.d. frábært fyrir þær sem eru ef til vill með grófa húð eftir t.d. bólur, þá hjálpar kremið húðinni að jafna sig, jafna yfirborð hennar og slétta það á ný. Það er flott til að setja beint á óvelkomna bólu en gelið inniheldur salicylic acid sem er bakteríudrepandi gel sem þurrkar upp óhreinindi svo bólan ætti að kveðja fljótt. Gelið má undir og yfir farða og það má sannarlega kalla bólubana. Gelið er fáránlega frískandi og það er svakalega létt, maður finnur að það fer mjög hratt inn í húðina og smitast ekki saman við neinar förðunarvörur svo það er í raun ekkert mál að setja það yfir förðunarvörur. Núna er ég t.d. að prófa mig áfram með gelið á þessar litlu leiðinlegu hormónabólur sem birtast hér og þar yfir húðinni minni og það er að virka mjög vel, kemur góðu jafnvægi á húðina og það er í alvörunni fáránlega gott að bera það á húðina, það gefur svona létta kælingu og veldur ekki sviða eins og mörg sambærileg krem.
Gelið er fyrir allar húðtýpur ég er þó stundum ansi heppin með húðina fyrir utan einstaka þurrkubletti en það er alltaf gott að eiga einn svona. Svo er þetta tilvalið fyrir ykkur sem eruð með olíumikla húð og fáið mikið af svona leiðinlegum og óvelkomnum gestum eða viljið reyna að ná að laga yfirborð húðarinnar eftir þannig gesti. Svo er það að sjálfsögðu líka frábært fyrir unglingahúð sem er á þessu leiðinlega óhreinindaskeiði í lífinu.
EH
Varan sem ég skrifa um hér fékk ég senda sem sýnishorn Það hefur þó engin áhrif á álit mitt á vörunum og eins og alltaf veiti ég hreinskilið álit.
Skrifa Innlegg