Ég hreifst samstundis af nýja ilmvatninu frá Marc Jacobs þegar ég sá það í fyrsta sinn. Flaskan greip athygli mína strax en hér er á ferðinni nýr Daisy ilmur sem ber nafnið Daisy Dream.
Daisy ilmvötnin eru yfirleitt nöfnin sem sumarilmvötnin frá merkinu bera en nú er kominn nýr ilmur sem er í föstu úrvali. Daisy sumarilmirnir eru skyldueign hjá mér á hverju ári en þið sjáið glitta í þrjá þannig fyrir aftan þennan. Flaskan er alltaf flott en þessi setur markið enn hærra…
Toppnótur:
Brómber – Grape – Perur
Hjarta:
Jasmín – Lychee – Blue Wisteria
Grunnnótur:
Hvítur viður – Musk – Kókosvatn
Í fyrstu hefði ég giskað á það að hér væri um léttan sumarilm að ræða en grunnurinn er frekar djúpur en samt léttist hann með kókosvatninu. Þetta er mjög þægilegur ilmur til að nota dags daglega – hann er á engan hátt yfirþyrmandi og of mikill heldur er hann frekar frískandi og dáldið draumkenndur.
Flaskan er bara æðisleg og blómin sem umlykja hana minna mig helst á blúndur og flaskan fær fallega áferð og fangar alveg athyglina strax. Liturinn á vökvanum er svo að sjálfsögðu blár í takt við himininn og drauma innblásturinn.
Ef ég næ einhver tíman að sannfæra manninn minn um að leyfa mér að skreyta íbúðina með ilmvatnsflöskum þá fá allir Daisy ilmirnir mínir að standa saman. Fallegri flöskur finnast varla og litirnir og hugsunin á bakvið hönnunina passar alltaf.
EH
Ilmvatnið fékk ég sent sem sýnishorn. Það hefur þó engin áhrif á álit mitt á vörunum og eins og alltaf veiti ég hreinskilið álit á vörunum.
Skrifa Innlegg