Mér fannst ég knúin til að láta aðra bloggara á Trendnet vita að ég væri ekki týnd og tröllum gefin – mér finnst ég núna knúin til að láta vita af því hér. Það er ekkert grín að skrifa efni í 100 blaðsíðna blað á einum mánuði og það er það sem ég er búin að vera að gera ásamt því að sinna vinnunni svo því miður þá hefur bloggið fengið að mæta afgangi. Ég verð þó að segja að ég er fáránlega stolt af nýjasta tölublaðinu sem þið fáið að sjá þann 12. febrúar næstkomandi og ég er svo sannarlega viss um að blöðin munu bara verða betri og betri eftir því sem líður á – næsta blað er sko komið af stað í hausnum á mér, svona er maður alltaf einu skrefi á undan.
En í dag var síðasti myndatökudagurinn fyrir blaðið og mér datt í hug að ykkur myndi kannski finnast gaman að skyggnast aðeins á bakvið tjöldin og fá að vita aðeins um það sem mun vera í blaðinu :)
Binni ljósmyndari að störfum – þessi er einn sá skemmtilegasti í bransanum og ég ligg venjulega í hláturskrampa þegar ég kíki í heimsókn til hans. Hér er hann að taka hópmynd af vörum sem eru fullkomnar til að nota á kvöldin. Þess vegna er þeim stillt uppá náttborði. Já ég skellti bara náttborðinu mínu inní bíl og ók með það inní stúdíó maður verður aðeins að leggja smá í props. Mér þykir alltaf skemmtilegt af svona uppröðuðum myndum í blöðum og það verða nokkrar svona í blaðinu.
Í blaðinu verður myndaþáttur þar sem 8 andlitsmaskar verða til sýnis – hér sjáið þið Volcanic Ash hinn dásamlega hreinsiskrúbb/maska frá MAC – þessi kemur svo vel út á mynd og ég er alveg kolfallin fyrir þessum! Það er hin yndislega vinkona mín Íris Tanja sem situr fyrir á myndunum – held að húðin hennar hafi aldrei verið jafn hrein og eftir daginn í dag!
Í blaðinu munið þið líka finna þessa gullfallegu ungu konu! Það er svo ótrúlega fyndið að Eva Laufey er alveg minn uppáhalds matarbloggari og þegar við hittumst fyrst föðmuðumst við strax – okkur fannst við bara þekkja hvor aðra þó svo við höfum aldrei einu sinni talað saman, svona er þessi bloggheimur. Þessi yndislega dama verður með skemmtilegar uppskriftir í blaðinu og ég er mjög spennt að fá að deila þeim með ykkur þar – þær eru svo girnilegar!
Ef þið eruð ekki búin að geta ykkur til um það þá snýst blaðið fyrst og fremst um húðina – þetta er skincare blað útí gegn. Blaðið er búið að vera lengi í hausnum á mér en það er ár síðan það átti að koma út á netinu en ég varð að fresta útgáfunni vegna of mikillar vinnu. Nú er það að mæta á svæðið og draumurinn minn að rætast – mér finnst nefninlega að maður eigi að byrja nýtt ár með það markmið að hugsa betur um húðina svo nú skora ég á ykkur að gera það! Ekki bara andlitið – við megum nefninlega ekki gleyma líkamanum. Húðin okkar er okkar stærsta líffæri og við verðum að hugsa vel um hana – ekkert rugl bara húðdekur ;)
EH
p.s. þessar myndir birtust allar á Instagram hjá mér – þar er öllum frjálst að fylgjast með og ég tek fagnandi á móti öllum! Þið finnið mig undir @ernahrund ;)
Skrifa Innlegg