Leitin að hinum fullkomna maskara getur verið löng og ströng og margar hverjar finna aldrei þann sem hentar þeim fullkomlega eða gerir það sem þær vilja að hann geri. Maskarar eru jafn ólíkir og þeir eru margir, formúlur litarins, burstarnir, hárin í burstunum, umbúðir allt er þetta ólíkt og framleiðendur keppast um að geta sem flestum neytendum til geðs.
Ég lenti í því um daginn þegar ég var að kynna snyrtivörur fyrir hóp af konum að ein þeirra sagði bara hreint og beint út “ný og byltingakennd formúla? hvernig í ósköpunum eigum við að trúa því að hver einasti maskari sé alltaf bestur eða betri en hinir?” Afhverju ætli það sé að framleiðendur keppist um að gera besta maskarann aftur og aftur er það ekki einmitt af því að við krefjumst þess einmitt að það komi alltaf eitthvað nýtt og betra?
Eins og við gerum við lífið okkar, við trúum því nú ekki að það gerist bara ekki betra en þetta – þó svo við sitjum á strönd á Hawaii að horfa á sólsetur og höfrunga sprikla í sjónum – og við sættum okkur bara ekki við það. Við leitum alltaf að hinu fullkomna í lífinu, fullkomna makanum, fullkomna starfinu, fullkomna heimilinu, fullkomna maskaranum og er það ekki bara allt í lagi því við eigum alls ekki að þurfa að sætta okkur við neitt.
Þegar við finnum hið fullkomna þá skiptir allur tíminn sem við eyddum í að leita að því engu máli – er þá ekki bara allt í lagi að trúa framleiðendum og prófa nýja og nýja maskara þangað til við finnum þann eina rétta?
Ég er búin að hafa mjög gaman af því undanfarið að skrifa föstudagspistla fyrir Fréttatímann svo ég ætla að gera það núna á hverjum einasta föstudegi, hvort sem pistillinn birtist hér eða í Fréttatímanum. Ég vona að þið hafið gaman af ég skrifa bara um það sem mér dettur í hug en mér finnst alltaf skemmtilegra að skrifa persónulega pistla sem gefa smá innsýn í það sem á sér stað í kollinum mínum.
Eigið yndislegan dag:)
EH
Skrifa Innlegg