Héðan í frá ætla ég að tala um BB og CC kremin sem stafrófskrem – mér fannst það svona besta samheitið yfir þessar nýjungar.
Smashbox er eitt af þeim merkjum sem býður bæði uppá BB krem og CC krem. Ég veit bara um 2 önnur merki eins og er sem munu eftir smátíma setja CC krem í sölu hjá sér en fyrir eru til BB krem hjá þeim merkjum. Smashbox er merki sem býður uppá mjög vandaðar vörur sem eiga allar það sameiginlegt að gera þann sem notar vörurnar fullkominn fyrir myndatökur. Davis og Dean Factor sem stofnuðu merkið árið 1996 eru barnabarnabörn Max Factor sem er nú vel þekktur í snyrtivöruheiminum fyrir að stofna merki sem er nefnt í höfuðið á honum. Factor fjölskyldan er greinilega alveg með þetta þegar kemur að snyrtivörum.
Kremin eiga það bæði sameiginlegt að innihalda háa SPF stuðla, gefa húðinni góðan raka, hafa stjórn á olíumyndun í húðinni og gefa henni fullkomið yfirborð.
BB kremið: Er mjög þétt í sér en á sama tíma létt – formúlunni finnst mér best að lýsa sem loftkenndri. Kremin eru fáanleg í nokkrum mismunandi litum sem er kostur þar sem flest merki bjóða bara uppá 2 liti í BB kremum. BB kremið fullkomnar yfirborð húðarinnar, það fyllir uppí ójöfnur og skilur eftir sig mjúka og náttúrulega húð. Af BB kremunum sem ég hef prófað set ég þetta hiklaust á topp 5 listann. Þetta krem var eitt af þeim fáu sem ég gat notað í vetur því það kemur í ótrúlega ljósum lit sem er það sem ég þarf á veturna fyrir gegnsæju húðina mína. Inniheldur SPF 35.
CC kremið: Er aðeins þykkara í sér heldur en BB kremið og formúla CC kremsins minnir mig meira á farða heldur en hitt. CC kremið jafnar húðlit og dregur úr litablettum í húðinni sem geta komið af völdum öldrunar, sólar og blettum sem geta myndast eftir bólur. Held að þetta krem sé einmitt sniðugt fyrir þær ykkar sem voru með erfiða húð á unglingsárum, bólótta, óhreina húð og enn með ummerki um þann tíma í húðinni. Ég hef ekki enn notað það jafn mikið og BB kremið en ég hef góða tilfinningu fyrir því. Inniheldur SPF 30
Mér finnst alltaf svo góð lykt af vörunum frá Smashbox, hún er svo létt og frískandi. Mér finnst ég svona vakna í framan þegar ég ber kremin á mig.
Ef þið áttið ykkur ekki á því hvort kremið hentar ykkur þá hvet ég ykkur til að fara og prófa áferðina á kremunum á handabakinu ykkar. Ef þið mætið í nú kannski í snyrtivöruverslunina ómálaðar þá getið þið eflaust fengið að prófa kremin á andlitinu ykkar og séð hvernig ykkur líst á. Smashbox vörurnar fást t.d. í Hagkaupum Smáralind, Kringlunni og Garðabæ og í Hygeu Smáralind og Kringlu.
Ég er mikið búin að nota BB kremin síðan þau komu á markaðinn á síðasta ári. Mín skoðun er samt sú að þau koma aldrei í staðin fyrir farða. Þegar ég farða þá set ég yfirleitt BB krem undir farða sem primer eða base. Ég hef ekki prófað nógu mikið af CC kremum til að segja hvort ég myndi gera það sama með þau. BB kremin gefa bara ekki það mikla hulu að mér finnist ég geta notað þau ein og sér í verkefni – en sjálf nota ég þau dags daglega ein og sér.
Svo las ég mér til um það í gær að það sé komið DD krem í sölu núna frá merki sem ég hef ekki kynnst áður, Julep. Hjá þeim stendur DD fyrir Dynamic Do-alls. Ég hef ekki hugmynd um hvað það þýðir en það verður gaman að sjá hvort önnur merki munu fylgja því. Alla vega var búið að vera slúður um það í smá tíma að DD krem ættu að vera ætluð fótum en ekki andliti… svo ég er ekki alveg að skilja hvað er í gangi. En eins og alltaf verður spennandi að fylgjast með framgangi mála:)
EH
Skrifa Innlegg