Eftir að ég setti saman vikuna mína í nagalalökkum um daginn datt mér strax í hug að gera eins en bara með farðanir. Ég er kannski örlítið sein með þetta en ég byrja þó á deginum í dag – mánudegi.
Ég veit ekki með ykkur en ég byrja vikuna oft með bara örfáum förðunarvörum og svo eykst kannski frumleikinn þegar líður á hana og ég fer að bæta nokkrum við. Vikan hjá mér byrjar því mjög náttúrulega en færist síðan aðeins útí meira:)
Hér er vikan mín í förðunum…
Mánudagur:
Á mánudögum á ég nógu erfitt með að koma mér framúr rúminu – hvað þá að skella einhverju fleiru í andlitið á mér en bara örfáum förðunarvörum. Litað dagkrem, kinnalitur, sólarpúður, maskari og varasalvi – það er lúkkið mitt í dag. Þetta þarf nú alls ekki að vera flóknara en það stundum og fyrst og fremst legg ég bara áherslu á að vera litað dagkrem með SPF vörn :)
Þriðjudagur:
Ég þoli fáa daga minna en þriðjudaga – þeir eru þreytudagarnir mínir þar sem húðin mín er venjulega grá á litinn og ég með massíva poka undir augunum. Þá elska ég fátt en að nota krem með ljóma og mögulega dekkri lit en húðin mín er. Mér finnst fátt hressa meira uppá húðina en ljómi og smá tan. Eitt ráð sem ég get gefið ykkur gegn þreytupokum undir augunum – fyrir utan auðvitað þetta HÉR – er að setja ljósan og sanseraðan augnskugga í innri augnkrók auganna. Það er reyndar mjög sniðugt að setja þá smá auka lit yfir augnlokin eins og nude lit eða ljósbleikan en alls ekki setja hvíta litinn yfir allt augnlokið það getur hreinlega orðið einum of mikið. Fríklegur kinnalitur getur svo sett punktinn yfir i-ið til að fullkomna húðina. Á þriðjudagsmyndinni sjáið þið nákvæmlega það sem ég meina ;)
Miðvikudagur:
Brúnn eyeliner umhverfis augun finnst mér ótrúlega fallegur og með því að nota eyelinerblýant og mýkja hann aðeins og draga út með skáskornum eyelinerpensli fáið þið einmitt þessa áferð á eyelinerinn. Ég sýndi ykkur einmitt svona eyeliner fyrir stuttu á blogginu en ég get ómögulega fundið færsluna. Mattur bleikbrúnn varalitur helst í ljósari kantinum smellpassar svo við lokaútkomuna.
Fimmtudagur:
Fimmtudagar eru varalitadagarnir mínir þá finnst mér alltaf við hæfi að taka fram einhvern skemmtilegan lit – helst fjólubláan og mig langar dáldið að nota þennan fína varalit aftur, Heroine. Það er ótrúlega langt síðan hann var tekinn fram síðast og kannski er bara kominn tími á hann aftur. Það einkennir mig held ég ekkert meira en fjólublár varalitur og þessi er sko extra fjólublár!
Föstudagur:
Á föstudaginn hyggst ég stela einu af signature lúkki leikkonunnar Söruh Jessicu Parker en það er að setja svartan lit í vatnslínuna. Á föstudögum er allt í góðu að vera með aðeins skarpari umgjörð um augun og gera þau aðeins dulúðarfyllri og hvað er einfaldara og fljótlegra en einmitt bara að setja smá lit í augun. Mér finnst persónulega best að nota annað hvort gel eyeliner eða eyelinertúss í augun. Liturinn dreifist svo jafnt og hann verður mun þéttari en með blýanti t.d..
Laugardagur:
Laugardagar eru eiginlega í langmestu uppáhaldi hjá mér þar sem ég fæ að sofa aðeins út. Ég er reyndar dáldill haugur því ég get sofið út til hádegis og yfirleitt lengur. Ég er samt í átaki núna og undanfarið hef ég verið að vakna ekki seinna en 10 svo ég geti nú gert eitthvað með strákunum. Yfirleitt vel ég alltaf að vera með frísklega förðun á laugardögum og vil bara ljóma, smá auka lit og vonandi þegar sólin fer að láta sjá sig meira get ég skartað svona fallegum freknum um leið.
Sunnudagur:
Ég veit ekki hvað það er en mér finnst fátt meira sunnudags en rauðar varir og eyeliner með spíss. Sunnudagur finnst mér alltaf mjög hátíðlegur svona síðasti dagurinn til að slaka á fyrir vinnuvikuna sem er framundan. Mér finnst varaliturinn hér fyrir ofan virkilega fallegur og eyelinerinn fullkominn – smá spíss til að lífga aðeins uppá hann.
Svo er bara að sjá hvort ég nái að fylgja þessu eftir – ef það tekst þá leyfi ég ykkur að sjálfsögðu að sjá útkomuna þegar vikan er liðin :)
EH
Skrifa Innlegg