Ég rakst á þessa mynd af hinni einstaklega fallegu Leighton Meester á Pinterest hangsi gærkvöldsins – hún greip athygli mína strax.
Ég dýrka fátt annað en fallegan ljóma á húðinni og vel skyggt andlit. Mér fannst þessi förðun líka fullkomin þar sem sumarið er formlega komið samkvæmt dagatalinu og nú þarf ég bara að taka fram St. Tropez sjáflbrúnkuna mína og ná almennilega heildarlúkkinu hennar Leighton.
Þó þessi mynd hafi bara verið að fanga athygli mína núna þá er hún nú alls ekki glæný en förðunin finnst mér nú tímalaus og hentar einstaklega vel fyrir viðburði sem eru að kvöldi til!
Hér koma nokkur tips frá mér fyrir ykkur til að ná þessari flottu förðun:
- Hér skiptir miklu máli að móta húðina vel og gera það einmitt undir farðanum eins og ég sýni í þessu myndbandi HÉR. Ég myndi samt án efa skerpa skygginguna enn frekar og jafnvel nota instant tan gel í staðin fyrir dökkan hyljara á móti ljósa hyljaranum.
- Yfir skygginguna er svo upplagt að nota léttan fljótandi farða eða jafnvel bara rakamikið BB krem.
- Ég myndi án efa matta aðeins miðju andlitisins og þá aðallega þau svæði sem þið lýsið upp með ljósa hyljaranum þegar þið gerið skygginguna. Ég myndi nota ljómandi púður eins og Wonder Powder frá Makeup Store í verkið.
- Ég myndi ekki setja beint meiri skyggingu og alls ekki með sólarpúðri, reynið að nota instant tan kremið til að gera þétta skyggingu undir kinnbeinin og blandið vel saman við restina af förðuninni. Það er allt í góðu að bæta aðeins ofan á þegar þess er þörf.
- Setjið svo nóg af highlighter eða jafnvel bara glærum glossi ofan á kinnbeinin, í kringum augabrúnirnar, niðureftir nefinu og meðfram efri vörinni.
- Í kinnarnar myndi ég setja rauðtóna gloss til að fá áfram svona mikinn ljóma og smá lit með.
- Grunnið næst augnlokin með brúnum, þéttum kremaugnskugga sem er helst með mattri áferð en engri sanseringu. Ekki setja of mikið bara aðeins til að skerpa á skyggingu augnlokanna. Setjið þennan skugga líka með fram neðri augnhárunum.
- Takið svo sanseraðan kremaugnskugga sem er útí gyllt og setjið yfir aunglokið ekki setja of mikið af litnum bara smá – hafið þetta eins náttúrulegt og þið getið. Ég myndi nota kremaugnskugga af því það er svo auðvelt að blanda þeim.
- Ég dýrka augabrúnirnar á Leighton þær eru svo náttúrulegar og fallegar. Ég myndi gera lítið annað en að strjúka aðeins yfir þær með glæru eða smá lituðu augabrúnageli. Þið sjáið að þær eru ekki fullmótaðar með púðurlit á því að við sjáum nánast hvert og eitt hár í augabrúnunum það er ekki búið að þétta þær.
- Notið svartan gel eyeliner til að gera línu meðfram efri augnhárunum og setjið hann líka í augnhvarminn (vatnslínuna).
- Setjið loks nóg af maskara og þá er augnförðunin tilbúin.
- Með varirnar þá myndi ég alltaf fyrst byrja að móta varirnar með varablýant sem er í mjög ljósum lit nánast eins og varirnar.
- Veljið svo áberandi rauðan lit sem er með glossaðri áferð. Ef þið finnið ekki varalit sem er með nógum glans þá er auðvitað alltaf lausn að setja glæran gloss yfir.
Góða skemmtun að ná þessari förðun – mér finnst hún algjört æði!
EH
Skrifa Innlegg