Jæja ég held það sé alveg komin tími á fyrir og eftir blogg af nýja húsinu okkar sem ég hef jú gefið ykkur smá innsýn í hérna á blogginu.
Við fluttum inn laugardaginn 11. mars og erum búin að koma okkur mjög vel fyrir, hérna líður okkur öllum rosalega vel og mér finnst eiginlega pínulítið eins og ég hafi alltaf búið hérna. Það eru nokkur smáatriði ókláruð en það er líka bara gott mál, maður þarf ekki að gera allt í einu. Okkur langar líka að finna okkur aðeins betur í húsinu áður en við hengjum upp allar myndir, platta og annað slíkt.
Viðbrögðin við þessum framkvæmdum okkar voru hreint út sagt frábær, mjög margir fylgdust með “í beinni” á snapchat og ansi margir ráku reglulega inn nefið og fylgdust með. Ég var líka mjög dugleg og er reyndar enn að setja inn myndir af heimilinu okkar á Instagram.. @hrefnadan .
Baðherbergið fyrir & eftir
Inni á baðherbergi tókum við innréttinguna, spegilinn og ljósin sem fyrir voru niður. Við settum inn skáp sem ég fann í Ikea sem er ekki ætlaður inn á baðherbergi, mér fannst hann bara smellpassa inn í hugmyndina að hönnuninni á rýminu. Palli og vinnufélagi hans söguðu svo skápinn til svo hægt væri að setja handlaugina ofan á hann og koma fyrir lögnunum. Dúkurinn var málaður svartur sem og framan á baðkarið og veggurinn þar fyrir ofan. Það kom aldrei neitt annað til greina en að setja hringspegil þarna inn og við völdum þennan frá Ikea, veggljósið er frá Brauhaus.
Eldhúsið fyrir & eftir
Í eldhúsinu fórum við í mestar breytingar, þar brutum við niður skápa, tókum út eldavélina, viftuna og vaskinn. Við brutum niður flísarnar á milli, tókum borðplötuna og skrúfuðum höldurnar af öllum skápum. Því næst tókum við allar skápahurðarnar af og filmuðum framhliðina á þeim ( eða réttara sagt filmaði meistarinn Eyþór Óli fyrir okkur), máluðum svo kantana og bakhliðarnar með svartri akrýlmálningu. Sett var ný borðplata og keypt inn ný tæki, nýr vaskur og blöndunartæki. Höldurnar keyptum við í Ikea og ég spreyjaði þær mattar svartar með Montana spreyji. Punktinn yfir i-ið setur svo veggljósið sem við settum upp sem vinnulýsingu.
Stofan fyrir & eftir
Í stofunni skrúfuðum við niður allar gardínustangir, máluðum sólbekkina hvíta og gluggana. Veggina í stofunni og borðstofunni máluðum við með litnum Nóvember frá Slippfélaginu. Við settum líka rósettur í loftinu í þessum rýmum. Við parketlögðum nýtt parket yfir það sem fyrir var.
Með því að mála veggina í dökkum lit drógum við fram fallegu smáatriðin sem skrautlistarnir eru.
Forstofan fyrir & eftir
Í forstofunni lögðum við parket yfir flísarnar, eins og við gerðum líka í eldhúsinu, stofunni og borðstofunni. Parketið sem við völdum okkur heitir Colorado Oak og við fengum það hjá Byko. Við máluðum alla veggi (að undanskildum stofunnni og borðstofunni) í húsinu með litnum Rut Kára frá Slippfélaginu og loftin máluðum við með Arkitektarhvítum einnig frá Slippfélaginu.
Svefnherbergið okkar fyrir & eftir
Í svefnherberginu máluðum við veggi og loft og settum rósettu í loftið
Borðstofan fyrir & eftir
Í borðstofunni tókum við niður gardínustöngina og máluðum veggina með litnum Nóvember eins og ég talaði um áður og parketlögðum. Einnig settum við rósettu í loftið þar.
Framkvæmdirnar gengu ótrúlega vel og eins og ég hef talað um á öðrum miðlum þá er Palli hetjan mín, hann var algjörlega vakinn og sofinn yfir þessu verkefni okkar og stóð sig alveg hreint frábærlega. Árangurinn lætur ekki á sér standa og útkoman er draumi líkust, við erum í sæluvímu með þetta allt saman og okkur líður öllum ótrúlega vel hérna.
Við fengum líka heilmikla hjálp frá frábæru fólki og erum þeim sem ótrúlega þakklát, við eigum sko aldeilis góða og yndislega fagmenn að. Allir voru tilbúnir að leggja sitt af mörkum sem við leituðum til og það er svo magnað!!
Við versluðum alla okkar málningu og allt sem málningarvinnunni tengdist í Bresabúð hérna á Akranesi og það sem þeir nenntu að elta vitleysuna í mér. Ég er jú ekki auðveldur kúnni alltaf hreint og vildi stundum fara aðeins flóknari leiðir og gera eitthvað sem kannski ekki allir vilja gera. En alltaf gerðu þeir allt og betur en það.. ég mæli 100 % með þeim öllum félögum í Bresabúð!
– Ef það er eitthvað fleira sem þið viljið vita um framkvæmdirnar, einhverjar spurningar sem kvikna hjá ykkur þá endilega sendið á mig. Ég reyni eftir fremsta megni að svara.
HDan