Dramatískasti titill á færslu fyrr & síðar? Mögulega… Ég er í smá byltingu, ein með sjálfri mér & þið eruð velkomin með. Byltingu gegn því að andlegir sjúkdómar, andleg vanlíðan, kvíðalyf & allt sem því fylgir sé TABÚ, sé eitthvað sem er óþæginlegt að tala um & oft á tíðum kallað væl & aumingjaskapur. Ég tek ekki þátt í þessu lengur, ég tek ekki lengur þátt í því að fólk þori ekki að opna sig um sig & sín vandamál af ótta við að fá ekki draumastarfið, missa vini, missa maka eða fleira af því að fólki finnist maður “klikkaður” andlegir sjúkdómar eru ekki tabú, vanlíðan er ekki tabú.
Ég þekki nokkra sem eru að kljást við andlega vanlíðan á hverjum degi, þau sýna það ekki, þau tala ekki endilega um það & þú myndir mögulega aldrei giska á það að manneskjan sem þú sérð líði illa. Hinsvegar ef sama manneskja væri handleggsbrotin þá færi það alls ekki framhjá þér, hún væri í tilheyrandi gifsi, tæki verkjalyf eftir læknisráði & myndi ekki reyna að fela það á neinn hátt, enda ekkert til að skammast sín fyrir, er það ekki? En það sem samfélagið á oft erfitt með að fatta er það að andleg vanlíðan er ekkert annað en sár eftir slys, alveg eins sár eins & beinbrot er nema í staðinn fyrir að vera utan á líkamanum er það á sálinni, sár á sálinni sem þarf oft hjálp við að laga.
Með þessari færslu langar mig að opna þessa umræðu, hvetja fólk til þess að opna sig & fá aðstoð því hún er í boði & hún getur bjargað mannslífum. Ég lenti í hræðilegri lífsreynslu þegar að ég eignaðist dásamlega drenginn minn sem ég hef vissulega komið inn á áður, en ég opnaði mig um minn kvíða & mína áfallastreituröskun á Snapchattinu mínu í gær & viðbrögðin voru ótrúleg.
Mig langaði þess vegna að taka þetta einu skrefi lengra & skrifa færslu hér á þennan flotta miðil & stökkpall sem TRENDNET er. Ég hvet ykkur öll til þess að leita hjálpar ef þið þurfið hana, þetta er ekki feimnismál, þetta er ekki tabú, það að leita sér hjálpar er ekki aumingjaskapur það er hugrekki.
Þið eruð rosalega mörg sem sendið mér fyrirspurnir á Snapchat sérstaklega eftir að ég birti mynd af maganum á mér & eruð að spyrja mig út í það hvað gerðist. Til að ég útskýri það án þess að fara í gegnum allt ferlið (það væri efni í svona 10 færslur) þá gerist það að barnið er ofboðslega stórt, snýr öfugt & eftir 19 tíma í brjáluðum hríðum er ég send í bráðakeisara þar sem að stór mistök gerast hjá læknunum, þarmarnir mínir eru gataðir & ég er svo saumuð aftur saman, í 5 daga flæðir loft út úr þörmunum mínum & inn í kviðarholið sem er lífshættulegt ásamt því að ég er send í hræðilegar & viðbjóðslegar taugaörvandi meðferðir til þess að reyna að leysa loftið sem þau héldu að væri fast í maganum (ekki stöðugt að flæða útaf götunum, þau vissu ekki af þeim) Eftir að ég missi svo meðvitund af sársauka á 6.degi er ég send í sneiðmyndatöku þar sem að götin sjást.
Ég er strax send í uppskurð & látin vita að ég muni mögulega vakna með stóma sé skemmdin það mikil. Ég vakna með þverskurð upp magan frá keisaraskurði og upp að rifbeinum & ligg inni á gjörgæslu í 2 vikur án þess að geta séð um nýfædda barnið mitt á nokkurn hátt. Þetta er hræðilegt, þetta skeði & þetta skeði fyrir mig. Núna sit ég eftir skemmd á sálinni & ég ÆTLA að sigrast á þessu. Lífið er dásamlegt & ég vil njóta þess. Nú er ég búin að leita mér hjálpar & vona að mér fari að líða betur. Einnig kem ég tvíefld til baka á bloggið, eins & opin bók. Ætla að einbeita mér að makeup-inu & leyfa ykkur að vera með í því partýi! <3
Stokkbólgin & sárþjáð að reyna að ganga loftið úr mér samkvæmt læknisráði….
Ennþá bólgnari & þjáðari eftir aðgerð númer 2, að reyna að hvílast með tónlist í eyrunum. Þetta var eina leiðin fyrir mig að hafa nýfædda Sigga minn hjá mér því ég mátti ekki halda á honum…
Þetta er myndin sem breytti öllu fyrir mig, hér sýni ég magann á mér eins & hann er í dag, hann er slitinn, með risastóru öri upp magan, öðru öri eftir keisara & því þriðja er gatið lengst til vinstri eftir magadren… Hér sýndi ég öllum það sem ég vildi ekki að neinn sæi…
Hér ákvað ég að fara í bikiníi í SPA því að ég ætlaði ekki að fela hvernig ég liti út, ég grét alla leiðina í SPA-ið….
Takk fyrir að lesa mína sögu, takk fyrir skilaboðin, takk fyrir stuðninginn & takk fyrir að deila ykkar sögum með mér.
Þið finnið mig á Instagram & Snapchat undir:
steinunne
xx
Skrifa Innlegg