fbpx

MÍN VEGFERÐ AF SJÁLFSVINNU OG SJÁLFSÁST EFTIR ÁFALL

LÍFIÐ

Seinastliðin 2 ár og 2 mánuði hefur líf mitt einkennst af sjálfsvinnu og sjálfsást. Ég kvaddi áfengi úr lífi mínu og tók að mér stærsta og mikilvægasta verkefni sem ég hef tekið að mér, að finna sjálfa mig uppá nýtt og að endurbyggja mitt musteri. Mitt musteri er ég, bæði líkamlega og andlega – við eigum að koma fram við okkur sem slíkt. Ég er mitt dýrmætasta musteri sem þarf oftar en ekki á aðhlynningu að halda.
Líf mitt hefur einkennst af mikilli sjálfsvinnu undanfarið og er ég loksins komin á rétta braut, braut sem hentar mér vel og ég er loksins orðin hamingjusöm og heil. En af hverju þurfti ég á þessari sjálfsvinnu á að halda?
Jú ég er nefnilega þolandi kynferðisofbeldis. Sjálf er mér ekki vel við orðið ‘þolandi’ og vil ég frekar nota orðið ‘sigurvegari’ því í dag, eftir þessa erfiðu sjálfsvinnu stend ég uppi sem sigurvegari og kynferðisofbeldið skilgreinir mig ekki sem manneskju.
Eftir þetta áfall greindist ég með ofsakvíða, alvarlegt þunglyndi og áfallastreituröskun, en með hjálp sálfræðinga, geðlækna, fjölskyldu og vina hefur mér aldrei liðið betur, bæði andlega og líkamlega. En ég vil samt sem áður gefa sjálfri mér bikarinn því ég vann útúr mínu áfalli eins og sigurvegari og í dag snýst líf mitt um mikla sjálfsást og sjálfsvinnu – því hún endar aldrei!

Mig langar að deila með ykkur hvaða verkfæri fyrir utan faglega aðstoð hafa hjálpað mér að halda niðri kvíðanum, hvernig ég tæklaði svefnvandamál og hvernig ég lærði að elska sjálfa mig uppá nýtt.

Hugleiðsla og öndun,
Hugleiðsla og öndun eru klárlega þau verkfæri sem ég nota oftast. Ég er auðvitað misdugleg og stundum ‘gleymi’ ég að hugleiða en þetta er æfing eins og svo margt annað. Mitt næsta verkefni er að gera hugleiðsluna hluta að rútínunni minni. Ég hef verið að notast við öppin Shine og Headspace. Shine hefur verið í algjöru uppáhaldi en þar eru margar æfingar sem henta við mismunandi aðstæður. Ég hef verið að taka morgunæfingar sem koma mér af stað í daginn, með bros á vör og full af jákvæðni. Einnig hef ég gert sérstakar æfingar sem einblína á kvíða eða stressandi aðstæður, þær æfingar hafa hjálpað mér alveg rosalega. Ég á stundum erfitt með svefn og hef ég því verið að hugleiða fyrir svefninn og notast þá oftast við sérstakar svefnhugleiðslur. Þær hugleiðslur einblína bæði á hljóð t.d. sjóhljóð, fuglahljóð og rigningarhljóð ásamt æfingum sem einblína á djúpöndun. Þessi aðferð hefur hjálpað mér að ná góðum svefni með frábærum árangri, ég hef ekki átt svefnlausa nótt í mjög langan tíma.

Núvitund,
Að læra að vera í núinnu er mikil kúnst. Ég get gleymt mér í pælingum um framtíðina, fortíðina og á samfélagsmiðlum. Ég hef slökkt á öllum tilkynningum frá samfélagsmiðlum sem hefur hjálpað mér að minnka símanotkunina. Svo finnst mér voðalega gott að taka mér pásur af og til frá samfélagsmiðlum, ég hef brennt mig á að bera mig saman við aðra og þá skellur yfir mig vanlíðan. Ég veit að ég er ekki sú eina sem ofhugsar fortíðina og framtíðina. Það er alveg ótrúlegt hvað maður getur velt sér uppúr því sem maður getur ekki stjórnað. Núna er ég að einbeita mér að því að taka einn dag í einu og njóta hvers dags, að njóta augnabliksins og að njóta litlu hlutanna. Njóttu góða kaffibollans sem þú sýpur á, hlustaðu á fuglahljóðin, horfðu á fallega bláa himininn og andaðu að þér ferska loftinu – þetta er núvitund, að læra að njóta augnabliksins og að anda að sér deginum í dag.

Quote sem ég lifi eftir

Ég umkringdi sjálfa mig af góðu og heilsteyptu fólki, sem vildi mér einungis vel
Það var og er mikilvægt í mínu bataferli að hafa fólk í kringum mig sem vill mér vel og hjálpaði mér með þetta erfiða verkefni. Það er svo mikilvægt að hafa fólk í kringum sig sem gefur frá sér góða orku og nærveru. Aldrei vanmeta fjölskyldu ykkar og vini. Það er hreint ótrúlegt hvað fólkið mitt er sterkt, þegar eitthvað bjátar á rétta allir fram hjálparhönd. Ég stend í eilífðar þakkarskuld við þau. Takk fyrir að vera hér góða fólk.

Mamma og pabbi, fólk sem myndi vaða eld og brennistein fyrir mig

Ég setti sjálfa mig í fyrsta sæti,
Það er þvert á móti eigingjarnt að setja sjálfan sig í fyrsta sæti, í rauninni eigum við alltaf að vera númer 1. Því ef við fúnkerum ekki hvernig getum við þá sinnt fólkinu í kringum okkur? Eftir mitt áfall fann ég fyrir miklu sjálfshatri sem ég þurfti að snúa yfir í ást. Það var erfiðara en að segja það en eftir mikla sjálfsvinnu og tíma sem ég tók fyrir sjálfan mig þá er ég loksins komin á rétta braut varðandi sjálfsást. Þú. Ert. Númer. Eitt.

Ég kvaddi áfengi útúr lífi mínu,
Stór partur af mínu bataferli var að kveðja áfengi. Það er ótrúlegt hvað það er létt að deyfa sig með áfengi og að flýja raunveruleikann, sem er nákvæmlega það sem ég gerði. Fyrir 26 mánuðum ákvað ég að leggja áfengið á hilluna og lifa vímuefnalausu lífi – þvílíkt frelsi. Tilfinningin að hafa fullkomna stjórn á sjálfum sér, alltaf, er ólýsandi. 

Ég borða hollan mat og hreyfi mig, 
Mataræði og hreyfing hefur alltaf verið stór hluti af lífi mínu og það er ekkert leyndarmál að hreyfing og mataræði helst í hendur við andlega heilsu. Svo finnst mér öll útivera vera rosalega frelsandi, það einfaldlega jafnast ekkert á við að anda að sér fersku lofti í fallegu umhverfi.

Hreyfing, útivera og hollt mataræði eru bestu meðölin fyrir vanlíðan

Þakklætisbókin,
Að lokum verð ég að segja ykkur frá bók sem hefur hjálpað mér, hún heitir ‘Five Minute Journal’. Þar skrifa ég í byrjun dags hvað ég er þakklát fyrir, hvað myndi gera daginn minn stórkostlegan, daglegar staðhæfingar um sjálfa mig svo í lok dags skrifa ég hvað gerðist í dag sem gerði daginn frábæran og hvað hefði gert hann enn stórkostlegri. Þessi bók er frábær og svo einföld en það að telja upp hvað maður er þakklátur fyrir kveikir á eitthverju í undirmeðvitundinni. Ég loka bókinni alltaf brosandi og þakklát.

Það sem ég skrifaði 04/10/19

Í lokin langar mig að minna á hversu mikilvæg sjálfsvinna er, hvort sem að þú hefur lent í áföllum, tekið að þér erfið verkefni eða ekki. Sjálfsvinna er holl fyrir okkur öll og fyrir mér er hún lífsnauðsynleg. Við lifum bara einu lífi og með sjálfsvinnu og sjálfsást getum við gert líf okkar fullt af hamingju, ást, gleði og innri ró.

Ég vona innilega að þessi færsla muni hjálpa eitthverjum sem er að vinna í sjálfum sér eða er að taka fyrstu skrefin.

Takk fyrir að lesa,
Anna Bergmann
Instagram: annasbergmann

HAUST ÓSKALISTINN

Skrifa Innlegg

Hætta við svar

9 Skilaboð

 1. Guðrún Sørtveit

  4. October 2019

  Flottust elsku Anna <3

  • Anna Bergmann

   6. October 2019

   Takk elsku Guðrún mín x

 2. sigridurr

  5. October 2019

  takk fyrir að deila með ykkur, þú ert svo sterk! x

  • Anna Bergmann

   6. October 2019

   Takk elsku Sigríður, knús til þín x

 3. Helgi Ómars

  5. October 2019

  Dásamleg færsla og ekkert smá gott að lesa!! Takk fyrir að deila með okkur hinum <3

  • Anna Bergmann

   6. October 2019

   En hvað ég er glöð að heyra, takk fyrir falleg orð elsku Helgi xx

 4. Elísabet Gunnars

  7. October 2019

  VÁ ANNA – loksins opnaði ég og las færsluna þína. Sit hér með kaffibollann minn og dáist að dugnaði þínum. Áfram gakk <3 þú ert frábær!!

  • Anna Bergmann

   7. October 2019

   Takk elsku Elísabet mín, þú ert yndisleg <3
   Knús xxx

 5. Hildur Hilmars

  3. December 2019

  Elsku vinkona
  Takk fyrir að deila❤️Knúz til þín