fbpx

MINN FYRSTI ÞRIÐJUNGUR Á MEÐGÖNGU

HEILSALÍFIÐMEÐGANGAPERSÓNULEGTSJÁLFSVINNA

Ég ætlaði mér að skrifa um fyrsta þriðjung fyrir þónokkru síðan, en svo tók hversdagsleikinn við .. og þið vitið hvernig tíminn flýgur frá manni. Ég hef aldrei verið jafn glöð og þegar ég komst að því að ég væri ólétt, við vorum búin að óska eftir þessu kraftaverki í rúmt ár og loksins tókst það hjá okkur! Mér leið vel og í raun ekkert öðruvísi fram að 6. viku, þá breytist aftur á móti allt hjá mér. Yfir mig helltist morgunógleði, orkuleysi og andlega heilsan fór á hliðina. Mér hefur sjaldan liðið jafn illa, þetta var ótrúlega erfitt og tók á bæði líkamlega og andlega. Sem betur fer fékk ég allan þann stuðning sem ég þurfti og mikla ást og umhyggju – sem var einmitt það sem ég þurfti á þessum tímapunkti.

Ég prófaði öll morgunógleðis-trixin í bókinni, ógleðisarmband, borðaði litlar máltíðir, var alltaf með eitthvað til þess að narta í, vítamín, holl fæða, svo fátt eitt sé nefnt. Það virkaði klárlega í smá tíma en svo læddist ógleðin aftur að mér. Ég var það slæm á tímabili að ég gat ekki tannburstað mig án þess að kasta upp. Hvað varðar andlegu hliðina þá ætla ég ekkert að skafa af því, mér leið mjög illa. Það er erfitt að vera sífellt þreytt, orkulaus og kastandi upp. Þetta er ekkert grín.. Til að byrja með bældi ég tilfinningaflóðið niðri, mér leið eins og ég ætti ekki rétt á því að líða illa – ég var jú loksins orðin ólétt. Það hugarfar virkaði ekki lengi enda sprakk ég á endanum. Ég leitaði mér loksins aðstoðar, talaði við fólkið næst mér og fékk viðeigandi hjálp. Ég fann að mér fór að líða betur um leið og ég byrjaði að tala um tilfinningarnar mínar og fékk þar af leiðandi ráð hvernig ég gæti látið mér líða betur. Ég mæli með að tala opinskátt um tilfinningar og upplifanir við ljósmóður, maka eða fjölskyldumeðlim frá degi eitt.

Það var eitt ráð sem ég fékk frá flestum sem endaði með að virka best. “Hvíldu þig. Slakaðu á. Settu þig og bumbubúann í fyrsta sæti.” Mér fannst erfitt að viðurkenna og segja það upphátt að ég þyrfti að taka mér pásu frá hversdagsleikanum, vinnunni og áhugamálunum. En ég gerði það og það skilaði sér margfalt til baka. Ég vaknaði einn daginn, komin rúmar 12 vikur á leið og morgunógleðin var farin, orkan kom hægt og rólega til baka og andlega hliðin sömuleiðis. Ég komst loksins í jafnvægi eftir erfiðar vikur.

Það er ekki sjálfsagt að ganga með barn og er ég óendanlega þakklát að geta það. Það má aftur á móti ekki gleyma að þetta er erfitt og getur lagst misjafnt á konur. Ég var óheppin á fyrsta þriðjung en mér hefur sjaldan liðið jafn vel og núna, á öðrum þriðjung. Vonandi heldur þetta sér svona, annars mun ég minna sjálfa mig á að hlusta á líkamann, leyfa mér að hvílast, setja sjálfa mig í fyrsta sæti og tala opinskátt um hvernig mér líður hverju sinni. Það er víst besta ráðið. 🤍

Knús,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

ERUM VIÐ AÐ EIGNAST STRÁK EÐA STELPU?

Skrifa Innlegg

Skilaboð 1

  1. Arna Petra

    26. August 2021

    💗