fbpx

HVAÐ ER FRÆ?

ANNA MÆLIR MEÐMATURUPPSKRIFTIRVIÐTAL

Mig langar að kynna ykkur fyrir elsku Örnu minni, fagurkera og eiganda Fræ. Í byrjun þessa árs opnaði Arna vefsíðuna fræ.com en þar er hægt að finna dásamlegar mataruppskriftir, fróðleik og leiðbeiningar um plöntumiðaðan og náttúrulegan lífsstíl.  Ég lít mikið upp til hennar en hún veit ansi mikið um heilsu og náttúrulegan lífsstíl og les sig til um allt á milli himins og jarðar, það er einstaklega gott að eiga hana að en ég myndi leita fyrst til hennar ef ég þyrfti á aðstoð að halda þegar kemur að næringu eða heilsu. Ég er svo stolt af Örnu en ég er búin að fylgjast með fræ verða að veruleika og finnst mér það því heiður að fá að nota minn vettvang til þess að kynna ykkur fyrir bæði fræ og Örnu. Ég fékk að taka viðtal við hana og ætla að fá að deila því með ykkur hér á Trendnet.

Hvað er Fræ?
Fræ er uppskriftasíða sem sameinar í hugmyndafræðina um heilnæmt og plöntumiðað mataræði. Heilnæmt mataræði snýst um að borða sem minnst af unnum matvörum og fókusa á heila fæðu; grænmeti, ávexti, baunir, heilkorn, hnetur og fræ. Ég tek það samt fram að gleyma ekki að lifa í jafvægi og snýst lífsstíllinn alls ekki um að vera fullkominn heldur að finna þennan gullna meðalveg. Fræ varð hugmynd árið 2019 og mér fannst það óþægileg tilhugsun í byrjun að sýna fólki hvað ég væri að gera og leyfa hverjum sem er að hafa skoðun, þetta er miklu persónulegra en annað sem ég hef gert. En það er yndislegt að heyra frá lesendum og algjörlega þess virði að fara aðeins út fyrir þægindarammann. Ég vona að fræ veki jákvæðar tilfinningar og forvitni lesanda – það er náttúrulega best í heimi að borða góðan mat!

Hver er á bakvið Fræ?
Ég heiti Arna og er 27 ára stelpa úr Garðabænum en bý í miðbænum með kærastanum mínum. Ég lærði listræna stjórnun í London College of Fashion og hélt að ég myndi aldrei vinna í öðru en tískubransanum. Mér finnst hann alltaf jafn spennandi en ég finn meiri jarðtengingu og tilgang í persónulegri verkefnum. Draumurinn væri auðvitað að tvinna þennan heim saman við fræ á einhvern hátt – ég elska ekkert meira en að búa til og gera fallegt í kring um mig og hef sterkar skoðanir varðandi stílinn minn og hvað passar heildstætt við mína sýn á heiminum.

Samloka með tofu, nori & sinnepi

Hvað varð til þess að þú valdir þennan lífsstíl? 
Ég veiktist alvarlega af taugasjúkdómnum Guillain Barré í æsku og tók út verstu sviðsmynd sjúkdómsins á einu bretti. Það er óneitanlega stór partur af minni sögu og ástæðan fyrir þörfinni að líða vel í líkamanum. Erfið lífsreynsla gefur bæði og tekur en núna sé ég mjög skýrt afhverju ég færðist í áttina að náttúrulegri lífsstíl. Í dag sé ég þetta ferðalag sem gjöf, ég fékk sterkt innsæi og hæfileikann til að hlusta á líkamann. Með aldrinum kom andlega vegferðin, þakklætið og virðingin fyrir líkamanum mínum – bara sterkari tenging í rauninni. Svo er lífið að sjálfsögðu líka upp og niður og vegurinn er aldrei þráðbeinn, það tekur tíma að finna sinn veg og skapa nýjar venjur og ekki síst að þora að lifa eftir sinni eigin sannfæringu.

Hvar sækirðu innblástur?
Ég er oftast með nokkur hráefni sem mig langar að nota saman og svo byrjar boltinn að rúlla. Stundum þarf nokkrar tilraunir til að ná útkomunni sem ég vil en stundum virkar það strax. Mér finnst jafn mikilvægt að maturinn sé góður, girnilegur og vel framsettur og það tvinnast allt saman í innblástur úr ólíkum áttum. Það getur verið allt frá ákveðinni menningu yfir í tísku, arkitektúr og innanhússhönnun og að sjálfsögðu pinterest og í góðum bókum. Ég er mjög hrifin af minimalisma og wabi sabi, helst myndi ég vilja búa japönsku tehúsi – ég þarf samt aðeins að hugsa hvernig ég get útfært það á Íslandi haha!

Núðlusúpa með miso & tofu

Hvar finnst þér vera besta úrvalið af hráefni fyrir matargerð?
Ég kaupi aðallega ferskt grænmeti, heilkorn, baunir og fræ, eins mikið lífrænt og ég finn hverju sinni – flestar betri matvörubúðir bjóða upp á fjölbreytt úrval af þessum vörum ásamt öðrum fyrirtækjum eins og Austurlands Food coop, Móðir Jörð, Íslensk Hollusta svo einhver séu nefnd. Vegan búðin er best fyrir sérvörur eins og hreina jurtaosta og er með mörg hágæða vörumerki, mæli með fyrir alla að kíkja þangað. Að mínu mati er mikilvægt að skoða hvað er í matvörunum sem við kaupum og lesa sig til.

Hver er uppáhalds uppskriftin þín á Fræ?
Ég held að matarmikil salöt verði alltaf í uppáhaldi, ferskt og bakað grænmeti, kannski mango eða góður ávöxtur ásamt hnetum og/eða fræjum. Mér finnst best að borða fjölbreytt og vera dugleg að breyta til. Ég er að lesa bókina Fiber Fueled eftir meltingarlækninn Will Bulsiewicz en hún fjallar um allt sem tengist þarmaflórunni og mikilvægi þess að fóðra hana vel – mæli mjög mikið með! Svo er um að gera að finna hugmyndir í takt við grænmetisuppskeru og árstíð hverju sinni.

Kremað pasta með sólþurrkuðum tómötum 


Ferskt rauðkál & bakað grasker

Ráð fyrir fólk sem er að taka sín fyrstu skref í plöntufæði?
Það er mikilvægast að nærast vel, passa að þegar fæðuflokkur er tekinn út að það komi næringarrík hráefni í staðinn og gera þetta koll af kolli svo maður ráði almennilega við breytingarnar. Okkur er almennt ekki kennt nógu vel á líkamann okkar og þess vegna er ekki skrítið að allar þessar tískubylgjur af mataræði, kúrum eða bætiefnum verði vinsælar. Ef við skoðum virkilega hvað líkaminn okkar þarf til að hámarka vellíðan liggur svarið ekki í innihaldslýsingu sem við skiljum ekki eða hráefni sem er komið langt frá sínu upprunalega formi. Plönturíkið er svo magnað og hefur allt sem líkaminn okkar þarf – ef við borðum vel af grænmeti, ávöxtum, heilkorni, baunum, hnetum og fræjum getum við gengið út frá því að við séum mjög vel nærð. Það er frábært fyrir alla að athuga D og B12 búskapinn annað slagið og svo er hægt að skoða jurtir og rætur fyrir sérstakar þarfir. Mig langar líka að minnast á að það er sérstaklega mikilvægt að við konur séum meðvitaðar um hvað við erum að setja í okkur og á. Við búum yfir stórmerkilegu hormónakerfi sem við þurfum að passa vel uppá – og við þurfum að finna þessar upplýsingar sjálfar.. Þetta viðfangsefni getur verið flókið til að byrja með en ég mæli með bókinni Happy Hormone Guide sem fjallar á einfaldari hátt um tíðahringinn og gefur góða innsýn í hvernig við getum sjálfar byrjað að taka stjórn á líkamanum okkar og nærumhverfi – þetta er valdefling sem allar konur þurfa í sitt líf.

Pavlovur með döðlukaramellu & ástaraldin

TAKK Arna fyrir að leyfa okkur að kynnast bæði þér og fræ. Ég mæli eindregið með að fylgja fræ hér og svo getið þið skoðað allar dásamlegu, ljúffengu uppskriftirnar á fræ.com. Uppskriftirnar eru hver annarri girnilegri og er ég í stökustu vandræðum að velja úr uppskrift. Ég vil að lokum benda á að fræ er ekki bara fyrir fólk sem er vegan heldur líka fyrir ykkur sem eruð forvitin og viljið elda góðan og hollan mat, stútfullan af mikilvægri næringu. Namm, ég hlakka til að prófa!

Þangað til næst,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

RÖLT Í MIÐBÆNUM : OUTFIT

Skrifa Innlegg

Hætta við svar

Skilaboð 1