fbpx

CACAO, ÁVINNINGUR OG UPPSKRIFT

ANNA MÆLIR MEÐHEILSASJÁLFSVINNAUPPSKRIFTIR

Ég kynntist cacao í desember 2018 þegar mamma dró mig með sér í ‘Kakó með Kamillu’. Þar sátum við öll saman og drukkum 100% hreint cacao og enduðum svo á djúpri hugleiðslu. Þetta voru yndislegir tímar og Kamilla er vægast sagt frábær – ég mæli með fyrir alla sem eru að taka fyrstu skrefin í cacao drykkju að kíkja til hennar. Meira um það hér.
Ég var svo heppin að mér var gefinn cacaoblokk frá góðum vini mínum, því tók við mikil cacao drykkja og ceremóníur. Ég er búin að vera að opna augun hjá mikilvægum einstaklingum í lífi mínu fyrir cacao, hugleiðslu og sjálfsvinnu og þykir mér ekkert skemmtilegra en að hafa jákvæð áhrif á fólkið í kringum mig.
Ég get ímyndað mér að margir séu að finna fyrir miklum kvíða á þessum erfiðu tímum í heimum. Ég, kvíðasjúklingurinn, hef verið að finna fyrir mikilli geðshræringu og kvíða. Það var erfitt fyrir mig að pakka í tösku og skilja hundinn minn eftir á Ítalíu, vitandi það að hafa ekki hugmynd um hvenær ég fæ að fara til baka og sækja hana. Núna er ég byrjuð í fjarnámi í skólanum og næ vonandi að útskrifast í vor. Úff seinustu vikur hafa verið ótrúlega skrýtnar og munu þær líklega verða enn skrýtnari og erfiðari. Því er það mjög mikilvægt fyrir mig að taka mér tíma til þess að vinna í sjálfri mér og huga að andlegu hliðinni. Það gleymist oft og hvað þá á skrýtnum tímum sem þessum. En hér kemur áminning frá mér til ykkar: Takið ykkur nokkrar mínútur til þess að huga að andlegu hlðinni, t.d. með bolla af hjartacacao

En hvað er cacao?
Cacaobaunir eru fræin af Theobroma Cacao trénnu og eru baunirnar oft kallaðar “food of the gods” eða “matur guðanna”. Cacaobauninn er ein af flóknustu fæðuuppsprettum heims enda eru þær fullar af leyndardómum. Rannsóknir hafa sýnt fram á töluverð jákvæð áhrif á bæði líkama og sál eftir neyslu baunanna. Ég hef verið að fá mér bolla þegar ég þarf aukna einbeitingu, orku eða er að fara að gera einhvað skapandi þar sem að cacao hefur jákvæð áhrif á listrænuhliðina ásamt því að hjálpa við jarðtengingu og núvitund.

Af hverju virkar það?
Það eru mörg virk efni í cacao og þar á meðal er þeóbrómín sem eykur bæði orku og einbeitingu en hefur langvarandi áhrif annað en koffín. Cacao hefur jákvæð áhrif á taugaboðefni eins og serótónín, dópamín, noradrenalín, anandamíð “the bliss chemical”, fenýletýlamín sem er efnið sem við framleiðum þegar við erum ástfangin og hamingju hormóninn endorfín. Cacao lækkar streituhormínið kortisól og er náttúrulyf gegn þunglyndi og kvíða.
Plantan er einnig ríkt af andoxunarefnum og steinefnum eins og t.d. magnesíum sem heilinn okkar þarf til þess að vinna vel. Engin planta er jafn magnesíumrík eins og cacao en hún er einnig stútfull af öðrum steinefnum. Þar á meðal járn, kalíum, sink, kopar, kalk, selen, fosfór og mangan ásamt sulfur sem styður við flutning á næringarefnum inn og út úr frumum. Það stuðlar einnig að viðgerðum á vefjum, ónæmiskerfinu ásamt því að byggja kollagen og keratín (hár, húð, neglur).
Plantan inniheldur einnig flóvanól sem er blóðflæðisaukandi, bólguminnkandi og stuðlar að heilbrigðu hjarta- og æðakerfi. Einnig hafa rannsóknir sýnt fram á að inntaka flóvanóls getur bætt vikni heilans og hefur jákvæð áhrif á blóðþrýsting og kólesteról.

Eins og þið sjáið eftir lesturinn hér að ofan þá er cacao stútfullt af mikilvægum efnum sem stuðlar að heilbrigðum líkama og sál í góðu jafnvægi. Mig langar að deila með ykkur uppskrift af algjörum hamingjubolla sem ég fékk leyfi til þess að deila með ykkur frá bestu vinkonu minni og einni af mínum allra uppáhalds konum henni Örnu Engilbertsdóttur. Hún leggur mikið uppúr heilbrigðu líferni og veit ég ekki um neinn sem borðar jafn hreinan og góðan mat eins og hún Arna mín. Hún er einmitt að fara að opna vefsíðuna fræ.com fljótlega en þar ætlar hún að deila allskyns uppskriftum sem eru bæði góðar fyrir líkama og sál. Þangað til getið þið fylgst með henni á Instagram hér.

HAMINGJUBOLLINN
1 bolli jurtamjólk
1,5-2 msk cacao
Pínu cayenne pipar
1 tsk kanill
1 tsk vanilla

Fyrir hvern bolla finnst mér gott að gera ráð fyrir 1,5-2 msk af söxuðu cacao. Hitaðu jurtamjólk og cacao í potti á vægum hita og reyndu að láta suðuna ekki koma upp. Hrærðu þangað til cacaoið leysist upp. Bættu við örlitlum cayenne pipar, það eykur áhrifin og gefur gott bragð. Ég nota alltaf smá kanil og hreina vanillu en hver og einn getur auðvitað kryddað sinn bolla eftir smekk.
Ef þú notar rætur eins og Ashwaganda eða Maca er tilvalið að bæta þeim út í lokin til að vanvirkja ekki mátt þeirra með hitanum.
Hreint ceremonial cacao er til dæmis stútfullt af magnesíum, járni, kalki og andoxunarefnum. Það er orkugefandi og hefur ótrúleg heilsubætandi áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Ég drekk einn bolla alla morgna í staðinn fyrir kaffi en eina sem þarf að hafa í huga er að drekka extra mikið vatn eftir á og/eða yfir daginn.

// Arna Engilbertsdóttir

Cacao ceremonia, sage og orkukristallar.
Uppskrift af fullkomu kvöldi fyrir mér.

Hreint cacao frá Guatemala fáið þið t.d. í Luna Flórens, Systrasamlaginu og Andagift.
Látið mig vita ef þið búið ykkur til bolla, ég lofa því að þið munuð finna fyrir aukinni hamingju, jafnvægi og ást.

Gleðilega cacaodrykkju,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

ÍSLENSKA NÁTTÚRAN, NÆRING FYRIR SÁLINA

Skrifa Innlegg

Skilaboð 1