fbpx

VEGAN JÓLAMATUR FRÁ GRUNNI

ANNA MÆLIR MEÐMATURUPPSKRIFTIR

Gleðilega hátíð Trendnet lesendur, ég vona að þið séuð búin að hafa það yndislegt með ykkar nánustu!
Ég er búin að eiga æðislega daga heima í Garðabænum, ég hef loksins náð að slaka á og borgað til baka þann svefn sem ég skuldaði ;) Ég elska fátt jafn mikið og að dunda mér í eldhúsinu og nýtti mér það svo sannarlega um jólin. Við erum tvær í fjölskyldunni sem borðum ekki kjöt og tók ég það því að mér að matreiða grænmetisrétti á aðfangadagskvöld. Réttirnir voru bæði kjöt- og mjólkurlausir og útkoman var vægast sagt frábær. Ég ætla að útbúa sömu rétti á áramótunum, þeir slógu það mikið í gegn!

Ég gerði vegan wellington steik, pikklað rauðkál ásamt sveppasósu úr kasjúrjóma – þvílíkt lostæti sem ég má til með að deila með ykkur.

Vegan wellington steik
Hráefni

 • Vegan smjördeig (ég notaði 4 plötur)
 • 2 msk kínóa + 5 msk vatn
 • ½ laukur
 • 3 gulrætur
 • 200 gr blómkál
 • 3 sellerí stilkar
 • 4 hvítlauksgeirar
 • 1 tsk timían
 • 1 tsk salvía
 • 1 grein af rósmarín
 • 250 gr sveppir
 • 1.5 msk tamari sósa
 • 1 dós af kjúklingabaunum
 • ¾ bolli af valhnetukjörnum
 • ½ bolli af panko brauðmylsna (meira ef þarf)
 • 2 msk tómatpaste
 • 1.5 msk vegan worchestershire sósa
 • Salt
 • Pipar
 • 1 msk vegan smjör

Aðferð

 1. Forhita ofn við 200°C
 2. Hellið kínóa í skál og bætið vatninu við, leyfið því að standa í 15-20 mínútur þar til að kínóað hefur dregið í sig allt vatnið.
 3. Hitið olíu á pönnu og bætið við niðurskornum lauk, sellerí, gulrótum og blómkáli. Steikið í u.þ.b 6-8 mínútur eða þar til allt grænmetið er orðið mjúkt.
 4. Bætið við hvítlauk, timían, salvíu og rósmarín.
 5. Skerið sveppina smátt og bætið síðan við á pönnuna. Leyfið því að steikjast saman í 5-7 mínútur.
 6. Bætið við tamari sósunni og steikið í 1-2 mínútur. Slökkvið svo undir pönnunni og leyfið blöndunni að kólna í góðar 10 mínútur.
 7. Hellið kjúklingabaununum í skál og maukið með kartöflumaukara. Ég átti ekki maukara og notaði því kaffipressu sem virkaði fínt. Passið ykkur að yfir-mauka ekki, við viljum skilja eftir mikla áferð á kjúklingabaununum en ekki enda með hummus.
 8. Bætið öllu við baunirnar þ.e. blöndunni sem var verið að steikja, brauðmylsnu, valhnetukjörnum (skornum niður í smátt), kínóa, worchestershire sósu, tómat paste ásamt salt og pipar. Blandið vel saman, best er að gera það með höndunum eða góðri sleif. Við viljum ekki hafa blönduna of blauta, bætið við meiri brauðmylsnu ef þess þarf.
 9. Núna er kominn tími á að móta ‘steikina’. Mótið með höndunum í breiða lengju.
 10. Mótið smjördeigið þannig að steikin passi í miðjuna og hægt sé að breiða deigið vel yfir steikina. (sjá mynd)
 11. Penslið með bráðnuðu smjöri svo hægt sé að loka deiginu vel.
 12. Snúið steikinni við og penslið hliðarnar og ofaná steikinni með smjörinu.
 13. Ég notaði eina smjördeigsplötu í ‘skraut’ og skar það í þunnar lengjur og skreytti í X. (Sjá mynd) Muna að pensla með smjöri.
 14. Bakið í 30-30 mínútur eða þar til að deigið er orðið fallega ljósbrúnt. Leyfið steikinni að standa í 10 mínútur áður en byrjað er að skera í hana.

Ég notaði aðferðina hér að ofan til þess að loka steikinni með smjördeiginu.  

Sveppasósa úr kasjúrjóma
Hráefni

 • 2 msk vegan smjör
 • 1 msk olía
 • 2 hvítlauksgeirar
 • 1 tsk timían
 • 300 gr niðurskornir sveppir
 • 200 ml grænmetiskraftur í vökvaformi
 • 2 fernur af kasjúrjóma
 • Salt & pipar

Aðferð

 1. Bætið smjörinu og olíunni á pönnu og leyfið því að hitna.
 2. Bætið við hvítlauk og timían.
 3. Bætið við sveppunum og leyfið blöndunni að steikjast vel eða þar til að sveppirnir eru orðnir mjúkir og dökkir.
 4. Bætið við grænmetiskraftinum og kasjúrjómanum. Blandið vel saman og lækkið hitann.
 5. Bætið við salt og pipar.
 6. Leyfið sósunni að malla í góðar 10-15 mínútur eða þar til að hún er orðin ljósbrún og þykk.

Pikklað rauðkál

Hráefni

 • Hálft rauðkálshöfuð, niðurskorið í litlar ræmur
 • 1 bolli epla edik
 • 1 bolli vatn
 • 2 tsk sjávarsalt
 • 1 msk sykur (má nota hvernig sem er)
 • lime sneiðar
 • pipar og kúminfræ

Aðferð

 1. Hellið ediki, vatni, sjávarsalti, sykur, pipar og kúminfræum í pott. Látið sjóða í 2 mínútur.
 2. Bætið rauðkáli við og sjóðið í aðrar 2 mínútur. Blandið öllu vel saman.
 3. Slökkvið á hitanum og leyfið rauðkálinu að kólna.
 4. Hellið í krukkur sem er nógu stór fyrir rauðkálið og passið að ediksblandan nær yfir allt kálið. Bætið við lime sneiðum.
 5. Leyfið rauðkálinu að kólna við herbergishita áður en krukkunum er lokað.
 6. Best er að leyfa rauðkálinu að pikklast í nokkra daga jafnvel viku. En nokkrir klukkutímar eru líka nóg.

Njótið !Endilega látið mig vita ef þið prufið þessar uppskriftir, ég mæli allavega tvímælalaust með þeim!

Þangað til næst,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

HEIÐARLEGT ÁLIT Á GEOSILICA & GJAFALEIKUR

Skrifa Innlegg