fbpx

NÝTT ÁR, NÝR KAFLI

SJÁLFSVINNA
Ljósmynd : Hlín Arngrímsdóttir

Árið 2019 var ansi viðburðaríkt, ég kynntist fólki sem er mér afar mikilvægt, efldi sambönd mín við vini og fjölskyldu en sérstaklega samband mitt við sjálfa mig. Það er ekki hægt að undirstrika það of oft hversu mikilvægt það er að vinna stöðugt í sjálfum sér, hafið það hugfast að sjálfsvinna er það besta sem við gætum eytt tímanum okkar í. Því þegar við erum í jafnvægi og okkur líður vel þá breiðum við góðri orku út frá okkur og höfum jákvæð áhrif á fólkið í kringum okkur. Á þennan máta eflast sambönd og fólk dregst að okkur. Við drögumst öll að góðri og fallegri orku.

Núna er komið nýtt ár og því fylgir ný markmið og áramótaheit. Mig langar að fara aðeins yfir mín markmið fyrir 2020 og vonandi geta einhverjir tekið upp þau sömu eða sambærileg markmið. Mér hefur alltaf þótt það gott að skrifa niður markmið og það sem ég er að manifesta hverju sinni. Um leið og orðin eru komin niður á blað, í tölvuna eða jafnvel í símanum þá hef ég komið orðunum og því sem ég óska mér, það sem ég þrái og allar mínar langanir út í kosmósið. Þá er komið að umheiminum að hjálpa mér að láta óskir mínar rætast. Því það sem ég þrái mest dreg ég til mín en að sjálfsögðu tekur það líka vinnu og áminningar.

Hér eru mín markmið fyrir 2020 –

1. Morgunrútína
Ég ætla að gera mér góða morgunrútínu sem mun samanstanda af hugleiðslu, stóru vatnsglasi, þrífa húðina vel og hlusta á tónlist sem lætur mér líða vel. Hvernig við byrjum daginn okkar segir svolítið til um hvernig restin af deginum verður, því finnst mér það mikilvægt að byrja daginn vel og þá sérstaklega með sjálfsvinnu, ró og næði.

2. Manifest
“We can’t create what we want if we don’t know what we want.”
Ég ætla að halda áfram að manifesta það sem ég þrái mest í þessum heimi, hvort sem að það sé starf eða hamingja, í rauninni bara hvað sem er.

3. Sjálfsvinna
Ég ætla að halda áfram að gefa mér tíma í sjálfsvinnu því hún hættir aldrei. Sjálfsvinnan mín mun innihalda það að æfa þakklæti, hugleiðsla, einbeita mér að öndunaræfingum, hollt og gott mataræði, dagleg hreyfing að einhverju tagi ásamt því að gera mér markmið hverju sinni rétt eins og ég er að gera í þessari færslu. Ég vil halda mér í góðu jafnvægi og stöðug sjálfsvinna mun koma mér á þann stað.

4. Gefa frá mér góða orku og hjálpa öðrum
Mér finnst þetta mjög mikilvægt markmið. Ég hef tamið mér að reyna eins og ég get að vera jákvæð, brosmild og með góða nærveru en auðvitað upplifi ég daga sem að það er ekki hægt. Ég vil halda áfram að hjálpa þeim sem hafa lent í áföllum eins og ég, þeim sem hafa upplifað andleg veikindi eins og ég og þeim sem vilja vinna í sjálfum sér rétt eins og ég geri á hverjum degi.

5. Hollt mataræði
Ég ætla mér að byrja að borða betri mat þ.e. hollan, góðan og hreinan. Ég er ekki vegan en ég borða ekki kjöt né mjólkurvörur og langar að vinna ennþá betur í því, t.d. með því að velja mér nokkra daga í viku þar sem að ég borða einungis vegan máltíðir.

6. Ég ætla að taka mig á þegar kemur að því að vera tímanlega
Ég hef alltaf haft lélegt tímaskyn og hef því miður tamið mér það að vera oft aðeins sein. Mér finnst þetta rosalega leiðinlegur vani og langar að þroskast uppúr honum.

7. Ég ætla að hlaupa hálf maraþon í Ágúst
Ég hljóp 10km í Ágúst í Reykjavíkur Maraþoninu. Ég hef sjaldan skemmt mér jafn vel og hef því ákveðið að slá til og byrja að undirbúa mig fyrir 21,5 km. Ég hef lítið hlaupið síðan í sumar og þarf ég því að æfa upp þolið og að koma mér í ágætis hlaupaform.

Þetta eru þau markmið sem ég hef sett mér fyrir árið og ætla ég að vinna í þeim á hverjum einasta degi.
Ég vona að ég hafi hjálpað einhverjum sem er í markmiðasetningu eða vantar einfaldlega smá innblástur fyrir árið.

Gleðilega sjálfsvinnu !
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

ÁRAMÓT

Skrifa Innlegg