Ég sá um Q&A á Trendnet Instagramminu í gær og fékk margar spurningar varðandi námið mitt. Mér fannst ég ekki geta komið því nógu vel frá mér með nokkra sekúnda spjalli svo að ég ákvað því að svara frekar spurningunum hér.
Ég er að klára 3ja ár við Istituto Marangoni í Milano, þar hef ég verið að læra Fashion Business, Communication and Media. Ég byrjaði námið mitt árið 2016 við London College of Fashion en ákvað að taka mér eitt ár í pásu og færði mig svo yfir til Istituto Marangoni. Það var besta ákvörðun sem ég hef tekið þar sem að námið í Milano og borgin sjálf hentaði mér betur en London.
Námið er 3 ár og jafngildir Bachelor gráðu, kennt er á ensku en það var mikið um ítölsku inn á milli. Við Marangoni er ekki notast við bækur heldur eru valdnir kennarar með reynslu í tískubransanum til þess að kenna áfangana. Þannig fengum við innsýn inní geirann beint í æð. Marangoni leggur uppúr því að þegar nemendur útskriftist frá skólanum þá eru þeir tilbúnir til þess að kljást við raunveruleg verkefni innan fyrirtækja. Það er nákvæmlega það sem kennslan hefur einblínt á, með því að blanda saman ‘theory and practice’ frá degi eitt þá erum við tilbúin til þess að takast á við hin daglegu verkefni innan stórra fyrirtækja. Þetta nám hentaði mér ótrúlega vel, ég á erfitt með að lesa og finnst mér þessi kennsluháttur mjög nútímavæddur. Mér finnst það í raun ótrúlegt að það séu ekki fleiri skólar sem hafa tekið þennan kennsluhátt upp. Það er mikið lagt uppúr hópaverkefnum sem og einstaklingsverkefnum. Öll þau verkefni sem við skiluðum inn voru gerð á þann hátt að þau gætu hafa verið gerð fyrir alvöru merki.
Ég var spurð að því hvernig vinnu ég gæti hugsað mér að fá eftir námið en í rauninni opnar námið margar dyr fyrir mig. Allt það sem ég lærði er hægt að nota innan hvaða fyrirtækis sem er, ekki bara tengt tísku. Í mínu námi er lögð áhersla á markaðssetningu og þá aðallega með samfélagsmiðlum og margmiðlun. Ég gæti því hugsað mér að vinna m.a. á auglýsingastofu, sem efnisskapari innan fyrirtækis, markaðsráðgjafi osfrv.
Ég var einnig spurð að því hvernig umsóknarferlið virkaði en það er auðvitað best að hafa samband við skólann og fá hjálp ef þess þarf. Í mínu tilfelli var nauðsynlegt að vera með reynslu innan tískugeirans og að hafa mikla ástríðu fyrir tískuheiminum. Það þarf að sýna fram á ensku kunnátttu, kunnáttu innan tískuheimsins og fleira.
Ég er að klára námið mitt við Istituto Marangoni eftir fáeinar vikur og mun ég kveðja með miklum söknuði. Ég dýrka þennan skóla og alla sem tengjast honum, ég kynntist ótrúlega mikið af skemmtilegu og fjölbreyttu fólki sem hafa breytt lífi mínu. Kennararnir eru hjálpsamir og vilja að öllum nemendum gangi vel. Svo er einnig haldið vel utan um nemendahópinn og það hefur skólinn svo sannarlega sýnt og sannað í gegnum Covid-19.
Ef þú hefur áhuga á námi við Istituto Marangoni þá er þér velkomið að senda mér línu :)
Takk fyrir að lesa!
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann
Skrifa Innlegg