fbpx

JÓLAMATURINN Í ÁR, SÁ SAMI OG Í FYRRA

MATURUPPSKRIFTIR

Ég er í mega bömmer, ég ætlaði að deila með ykkur gjafalista fyrir jólin en svo gafst enginn tími í það. Það er búið að vera mikið að gera hjá mér og það hefur varla gefist tími til þess að setjast niður – en nú anda ég rólega því það er allt orðið tilbúið fyrir jólin. Við Atli ætlum að halda jólin heima hjá okkur í ár og foreldar mínir og systir koma til okkar. Er mjög spennt að fá að bjóða fólkinu mínu til okkar. Það fór ekki á milli mála hvað ég ætla að borða en í fyrra gerði ég sturlað góða vegan wellington steik – algjört gúrme en ég fékk meirað segja að heyra að hún væri betri en kjötið .. sem segir ansi mikið. Ég ætla því að fara eftir sömu uppskrift og ætla að deila henni með ykkur svo að þið getið hermt. Hún er dásamleg með sveppasósu og öllu því meðlæti sem ykkur finnst gott.

Vegan wellington steik
Hráefni

 • Vegan smjördeig (ég notaði 4 plötur)
 • 2 msk kínóa + 5 msk vatn
 • ½ laukur
 • 3 gulrætur
 • 200 gr blómkál
 • 3 sellerí stilkar
 • 4 hvítlauksgeirar
 • 1 tsk timían
 • 1 tsk salvía
 • 1 grein af rósmarín
 • 250 gr sveppir
 • 1.5 msk tamari sósa
 • 1 dós af kjúklingabaunum
 • ¾ bolli af valhnetukjörnum
 • ½ bolli af panko brauðmylsna (meira ef þarf)
 • 2 msk tómatpaste
 • 1.5 msk vegan worchestershire sósa
 • Salt
 • Pipar
 • 1 msk vegan smjör

Aðferð

 1. Forhita ofn við 200°C
 2. Hellið kínóa í skál og bætið vatninu við, leyfið því að standa í 15-20 mínútur þar til að kínóað hefur dregið í sig allt vatnið.
 3. Hitið olíu á pönnu og bætið við niðurskornum lauk, sellerí, gulrótum og blómkáli. Steikið í u.þ.b 6-8 mínútur eða þar til allt grænmetið er orðið mjúkt.
 4. Bætið við hvítlauk, timían, salvíu og rósmarín.
 5. Skerið sveppina smátt og bætið síðan við á pönnuna. Leyfið því að steikjast saman í 5-7 mínútur.
 6. Bætið við tamari sósunni og steikið í 1-2 mínútur. Slökkvið svo undir pönnunni og leyfið blöndunni að kólna í góðar 10 mínútur.
 7. Hellið kjúklingabaununum í skál og maukið með kartöflumaukara. Ég átti ekki maukara og notaði því kaffipressu sem virkaði fínt. Passið ykkur að yfir-mauka ekki, við viljum skilja eftir mikla áferð á kjúklingabaununum en ekki enda með hummus.
 8. Bætið öllu við baunirnar þ.e. blöndunni sem var verið að steikja, brauðmylsnu, valhnetukjörnum (skornum niður í smátt), kínóa, worchestershire sósu, tómat paste ásamt salt og pipar. Blandið vel saman, best er að gera það með höndunum eða góðri sleif. Við viljum ekki hafa blönduna of blauta, bætið við meiri brauðmylsnu ef þess þarf.
 9. Núna er kominn tími á að móta ‘steikina’. Mótið með höndunum í breiða lengju.
 10. Mótið smjördeigið þannig að steikin passi í miðjuna og hægt sé að breiða deigið vel yfir steikina.
 11. Penslið með bráðnuðu smjöri svo hægt sé að loka deiginu vel.
 12. Snúið steikinni við og penslið hliðarnar og ofaná steikinni með smjörinu.
 13. Ég notaði eina smjördeigsplötu í ‘skraut’ og skar það í þunnar lengjur og skreytti í X. Muna að pensla með smjöri.
 14. Bakið í 30-40 mínútur eða þar til að deigið er orðið fallega ljósbrúnt. Leyfið steikinni að standa í 10 mínútur áður en byrjað er að skera í hana.

Gleðileg jól elsku Trendnet lesendur,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann

REYKJAVÍK Í JÓLAPAKKANN & NÚ Á 20% AFSLÆTTI

Skrifa Innlegg