fbpx

HALLÓ TRENDNET

LÍFIÐ

Kæru lesendur Trendnet,

Anna S. Bergmann heiti ég og er nýr bloggari hér á Trendnet. Ég er ótrúlega spennt fyrir þessu nýja ævintýri og þykir mér það vera mikill heiður að fá að vera hluti af þessu flotta teymi sem Trendnet saman stendur af. Mig langar hinsvegar að byrja á því að kynna mig. Ég er 23ja ára og er uppalin í Garðabænum, síðastliðinn ágúst flutti ég búslóðina mína til stórborgarinnar Milano á Ítalíu. Þar er ég að stunda nám við hinn þekkta listaháskóla, Istituto Marangoni. Ég er nýbúin með annað árið mitt og mun ég því næstkomandi haust byrja á 3ja og seinasta árinu mínu í Fashion Business, Communication and New Media. Eins og nafnið á kúrsinum gefur til kynna þá hef ég mikinn áhuga á tísku og heillast af öllum hliðum tískuiðnaðarins.


Hér á Trendnet mun ég fjalla um ansi fjölbreytt viðfangsefni, allt frá tískuheiminum yfir í mat og andlega heilsu.
Ég hef sérhæft mig í kjöt- og mjólkurlausri eldamennsku og mun ég því koma til með að deila fjölbreyttum, hollum og einföldum uppskriftum með ykkur. Einnig er ég dugleg að iðka allskyns æfingar sem stuðla að andlegu jafnvægi en ég hef verið að kljást við kvíða í mörg ár og þarf því að huga vel að andlegu hliðinni. Andlega heilsan á það til að gleymast en hún er ekki síður mikilvæg rétt eins og líkamlega heilsan okkar. Mér þykir því Trendnet vera fullkominn vettvangur til þess að deila með ykkur ráðum og frá persónulegri reynslu.

Þar sem að ég er svo lánsöm að búa erlendis þá mun ég nýta mér þau forréttindi og deila með ykkur mínum uppáhalds veitingastöðum hér í Milano, segja ykkur frá ítölsku tískunni og frá ýmsum földnum perlum hér í borginni. Ég er einnig dugleg að ferðast, bæði hér í kringum Milano og til annarra landa. Ég mun að sjálfsögðu deila með ykkur þeim ævintýrum.
Fyrir ykkur sem viljið skoða mig betur þá bendi ég á Instagram aðganginn minn, en ég reyni mitt besta að vera virk þar.

Ég er full af innblæstri fyrir þessum nýja kafla hjá mér og hlakka ég til að deila með ykkur fjölbreyttu efni!

Takk fyrir að lesa og þangað til næst,

Anna S. Bergmann x
Instagram: annasbergmann

Skrifa Innlegg

2 Skilaboð

    • Anna Bergmann

      13. June 2019

      Takk elsku Elísabet x