Eins og ég hef áður talað um þá máluðum við alla veggi í stofu og borðstofu gráa. Grái liturinn heitir Nóvember og er frá Slippfélaginu. Þessi litur var einn af þremur sem við vorum að velja á milli og hann heillaði um leið, hinir féllu eiginlega bara strax í skugann af honum. Hann er svo skemmtilegur að því leyti hve mikið hann breytist eftir birtustigi.. hann er mjög síbreytilegur og fyrir það er hann mjög vinsælt myndefni hjá undirritaðri.
Liturinn gerir ótrúlega mikið fyrir rýmin en til að brjóta aðeins upp þessa grá/svart/hvítu litapalettu á heimilinu ákvað ég að vinna með gula litinn á móti. Ég fékk gulan Eames stól í afmælisgjöf fyrir nokkrum árum og á rölti um Sostrene Grene í framkvæmdunum rak ég augun í gulan vegglampa og þessir tveir hlutir spila stærsta hlutverkið, á móti púða, kertum, afskornum blómum og öðrum smáhlutum. Ekki misskilja mig samt, auðvitað koma fleiri litir við sögu og þá aðallega græni liturinn sem er í hverju horni hjá plöntukonunni.
En ég leyfi myndunum að tala sínu máli…
Núna um páskana var reyndar óvenju mikið gult og það var alls ekki verra!
Ykkur er hjartanlega velkomið að fylgja mér á Instagram @hrefnadan
HDan
Skrifa Innlegg