Í seinustu færslu sagði ég ykkur frá því að systir mín væri í heimsókn. Við áttum yndislega daga saman og ferðuðumst m.a. til Rómar, borðuðum helling af góðum mat og héldum uppá afmælið hennar.
Við fórum á nokkra vel valdna veitingastaði hér í Milano, m.a. Penelope a Casa, Canteen og einn allra besti pizzastaður sem ég hef farið á, Napiz. Sá staður opnaði hliðiná mér fyrir rúmu ári síðan en ég hef einhvernveginn aldrei pælt mikið í honum. Síðan hann opnaði hefur meira og minna verið röð út og staðurinn hefur verið fullbókaður kvöld eftir kvöld. Ég þurfti því að prufa og vá, ég varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum. Þunnbotna pizzur eru einfaldlega það besta í heimi! Sammála?
Einn af þeim mörgu kostum við að búa á Ítalíu er hversu auðvelt og ódýrt það er að ferðast á milli borga og jafnvel landa. Ferðin frá Milano til Rómar tók okkur rúmar 3 klukkustundir með lest, þvílíkt þæginlegt – Emma kom að sjálfsögðu með í ferðalagið og fékk 10 í einkunn fyrir hegðun, hún svaf allan tímann þessi elska. Við gistum á Hotel Nazionale sem er staðsett á besta stað, alveg í miðborginni og í göngufæri á alla helstu túristastaðina. Ég hef farið til Rómar áður og hef séð flest öll kennileiti en systir mín vildi að sjálfsögðu sjá helstu staðina. Við röltum að Colleseoum, fengum okkur ís að kvöldi til við Fontana di Trevi og borðuðum helling af pizzu og pasta. Við gistum aðeins í tvær nætur en mér fannst það alveg nóg. Róm er umfangsmeiri en Milano og verður maður því auðveldlega þreyttur á allri göngunni og auðvelt að týnast í mannhafinu.
Þegar við komum til baka frá Róm þá átti Júlía bara tvo daga eftir hjá okkur Emmu. Við plönuðum dagana vel og nutum þeirra í botn. Júlía á afmæli 15. febrúar og ákvað ég því að halda smá uppá það hérna í Milano, ég laumaðist að þjóni á Canteen og sagði að það væri afmælisstelpa með í för – hann að sjálfsögðu kippti í nokkra spotta og Júlía fékk því köku, stjörnuljós og meððí! Mér finnst fátt skemmtilegra en að fara út að borða í tilefni afmælis, sérstaklega hérna úti – það er alltaf gert mikið í því og allir syngja og klappa fyrir afmælisbarninu. Julia, buon compleanno in anticipo!!
Ég fékk spurningar varðandi bolinn og hárspöngina og deili því hér.
Bolur : & Other Stories
Spöng: H&M
Ég vona að þið hafið gaman af þessu myndaflóði mínu!
Þangað til næst,
Anna Bergmann
IG:@annasbergmann
Skrifa Innlegg