fbpx

DÁSAMLEGIR PIZZASNÚÐAR

FORRÉTTIR & LÉTTIR RÉTTIRMORGUNMATUR & BRÖNSUPPSKRIFTIRVEISLUR

Þessa dagana þegar margir eru heima allan daginn, er þægilegt að eiga eitthvað gott til að grípa í. Þess vegna er tilvalið að baka þessa geggjuðu pizzasnúða. Ég bakaði 16 stykki og þeir voru borðaðir upp til agna á einum degi á mínu heimili! Þeir eru mjúkir, flöffý og dásamlega bragðgóðir en fyllingin inniheldur beikonsmurost, tómatpúrru, lauk, sýrðan rjóma, oregano og cheddar ost. Þetta er ekki þessi týpíski pizzasnúður en gefur honum ekkert eftir. Að mínu mati finnast mér þessir miklu betri. Þið hreinlega verðið að prófa! 

Uppskrift gerir 14-16 pizzasnúða
400 g hveiti
1 tsk salt
1 bréf ger (12 g)
40 g smjör
1 msk hunang
1 dl vatn
0,8 dl mjólk
1 egg

Fylling:
20 g smjör
2 skarlottulaukar, smátt skornir
140 g tómatpúrra
1 pkn beikonsmurostur (má vera annar smurostur)
1 msk sýrður rjómi
Oregano
Salt og pipar

Toppa með:
Cheddar osti
Oregano

Aðferð:

  1. Blandið saman hveiti, salti og geri.
  2. Bræðið smjörið og blandið saman við hunang, vatn og mjólk. Passið að blandan verði ekki of heit!
  3. Hrærið smjörblöndunni saman við hveitiblönduna og bætið síðan egginu saman við.
  4. Hnoðið vel saman með höndunum eða í hrærivélinni þangað til að deigið er komið saman.
  5. Smyrjið skál með olíu, látið deigið ofan í og leggið viskustykki yfir. Látið deigið hefast í skálinni í klukkustund.
  6. Gerið fyllinguna á meðan deigið er að hefast. Bræðið smjör í potti og steikið skarlottulaukinn þar til hann mýkist aðeins. 
  7. Bætið við smurostinum, tómatpúrrunni, sýrðum rjóma, oregano, salti og pipar og hrærið vel saman.
  8. Fletjið deigið út. Mér finnst gott að fletja það á smjörpappír en það er líka fínt að gera það beint á borðið. Smyrjið fyllingunni yfir deigið og stráið cheddar osti yfir. Rúllið deiginu upp og skerið í kringum 14-16 bita.
  9. Smyrjið eldfast mót og raðið snúðunum í það. Passið að hafa smá bil á milli þeirra. 
  10. Stráið cheddar osti og oregano yfir snúðana og bakið í ofni við 180°C í 20-25 mínútur eða þar til snúðarnir eruð orðnir gylltir og fallegir.

Mér finnst alltaf gaman að heyra frá ykkur ef að þið prófið! :)

VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU!

// HILDUR RUT

INSTAGRAM: @hildurrutingimars

TACO MEÐ BROKKÓLÍ OG RAUÐKÁLSHRÁSALATI

Skrifa Innlegg