fbpx

TEMDU ÞÉR ÞESSA EIGINLEIKA EF ÞÚ VILT BÆTA ÞIG Í SAMSKIPTUM

andleg vellíðan

Margir hverjir eru frekar daprir í samskiptum og aðrir geta alltaf bætt sig. Ég skil það samt vel þar sem við fáum enga kennslu í því hvernig á að vera góð/ur í samskiptum. Við eigum í fjölmörgum samskiptum daglega við fjölbreyttan hóp af fólki, t.d. við fjölskyldu, vini, viðskiptavini, í vinnunni og í ræktinni. Þínir samskiptaeiginleikar skipta virkilega miklu máli fyrir þig, aðilann sem þú ert að tala við og ykkar samband. Með því að temja þér góða samskiptaeiginleika getur þú haft verulega góð áhrif á einstaklinginn sem þú talar við, hvernig þessum einstaklingi líkar við þig og á innihaldið í ykkar samræðum.

 Lélegir eiginleikar í samskiptum

Illu er best af lokið. Byrjum á að telja upp slæma eiginleika í samskiptum. Þið tengið örugglega flest öll við þessa þætti og það þarf ekkert að skammast sín fyrir það.

1. Að toppa frásögnina hjá einstaklingnum sem er að tala.

Þið munið eflaust eftir atriðinu með Pétri Jóhanni í Svínasúpunni þar sem hann var alltaf að segja „Iss það er ekkert. Einar frændi minn…“

2. Að hlusta ekki á einstaklinginn heldur einungis að hugsa um hvað þú ætlir að segja þegar hann er búinn að tala

Ef svo er, þá hlustar þú líklega ekki almennilega á einstaklinginn sem gerir það að verkum að þú ert líklegri til að koma með svar sem er ekki í samræmi við umræðuefnið

3. Að reyna að vinna samtöl

Þegar við förum inn í samtöl til að vinna þá horfum við á hlutina einungis út frá okkar sýn á heiminn. Ég og mitt heimskort höfum rétt fyrir okkur. Þá tekurðu ekki inn önnur sjónarhorn sem gætu eflað samræðurnar og þína vitneskju. Þú veist nefnilega miklu minna heldur en þú veist ekki.

4. Að grípa fram í og klára setningar hjá öðrum

Að grípa fram í segir sig sjálft. Að klára setningar hjá öðrum er hinsvegar óljósara. Við höldum yfirleitt að við séum að gera einstaklingnum greiða með að klára setningar fyrir þá en hugsanlega er þessi einstaklingur að hugsa um ákjósanlegasta orðið fyrir samræðurnar. Gefðu einstaklingnum tíma í að finna orðið.

Góðir eiginleikar í samskiptum

1. Að veita athygli og einfaldlega hlusta

Það er ótrúlegt hvað fólk er tilbúið að segja þér ef þú hlustar. Ég geri þetta þegar ég fæ fólk til mín í þjálfunarsálfræði. Ég fæ fólk til mín og ég hlusta og tala, hlusta þó miklu meira. Margir hafa nefnilega ekki aðgengi að einstaklingi sem vill virkilega hlusta á þig. Það er óalgengt í okkar nútíma samfélagi. Það er gott að einbeita sér að líkamstjáningu einstaklingsins til að halda athyglinni í samræðum.

 3. Að vera forvitin og spyrja nánar

 Þú getur lært heilmikið af öðrum einstaklingum. Það er líka ótrúlega gott að tala við manneskju sem er forvitin og hefur virkilega áhuga á þér.

 3. Að sýna samúð

Að gefa einstaklingum tækifæri á að ræða eitthvað atvik sem hefur tilfinningalegt gildi og geta sett sig spor annarra. Fólki mun líða eins og það sé mikils metið og þetta getur styrkt ykkar samband mjög mikið.

4. Að taka samantekt úr frásögn

Góð þumalputtaregla getur verið að taka saman frásögn hjá einstaklingnum sem þú ert að tala við. Þú og einstaklingurinn eruð líklegri til að skilja hvorn annan og átta ykkur á hvort þið séuð á sömu blaðsíðu eða ekki. Einstaklingurinn finnur virkilega fyrir því að þú sért að hlusta á hann og þú ert líklegri til að muna betur.

Þú getur notið góðs af því að reyna að lágmarka lélegu eiginleikana og hámarka góðu eiginleikana í þínum samskiptum. Einstaklingurinn sem þú ert að tala við mun líða betur, hann/hún mun kunna að meta þig betur og þið verðið nánari fyrir vikið þar sem samtölin eru líklegri til að verða dýpri en ekki um eitthvað yfirborðskennt kjaftæði. Þér mun líða betur, bæði útaf því að þú átt í merkingarlegum samræðum og þú ert að gefa af þér til einstaklingsins með því að vera góður hlustari. Þó það sé ansi krefjandi þá er það allra meina bót að temja sér góða samskiptaeiginleika!

 

MILLIVEGURINN #9 - ARNÓR SIGURÐSSON

Skrifa Innlegg