fbpx

Hugarefling vikunnar

andleg vellíðan

Halló snillingar,

Ég ætla byrja með nýjan lið inn á blogginu sem heitir “Hugarefling vikunnar”. Hann lýsir sér þannig að reglulega ætla ég að segja ykkur frá inngripum sem tengjast andlegri heilsu. Markmiðið er framkvæma hvert inngrip í að minnsta kosti í eina viku. Það væri algjör snilld ef þið mynduð taka þátt í þessu með mér!

Þessi inngrip koma flest úr jákvæðri sálfræði en líka frá minni reynslu. Markmiðið er að þið getið hagnýtt þessar æfingar inn í daglegt líf til að efla andlega heilsu og lífið sjálft. Ég hef talað eitthvað um þessar æfingar í lífsráðunum mínum á instagram en það verður bara hafa það.

Mín skoðun er sú að það hafa flest allir gott af þessum inngripum, líka þeir sem eru lausir við andleg vandamál. Það er ekki sama að vera laus við andleg veikindi og að blómstra andlega. Við skiljum oft andlegu vinnuna eftir á hakanum og gerum ráð fyrir því að andlega heilsan eigi að vera í toppmálum. Það er hinsvegar ekki svo einfalt. Það er heilmikil vinna að líða vel en að helga sér tíma í andlega vinnu skilar sér alltaf.

Þú ert þinn besti sérfræðingur.

Eitt sem ber að hafa í huga er að þú ert þinn besti sérfræðingur. Það sem virkar fyrir mig virkar ekki endilega fyrir þig. Prófaðu þig áfram, finndu út hvað þú fýlar og hvað veitir þér vellíðan. Ákveðnar æfingar passa betur við suma heldur en aðra. Sumir hafa t.d. takmarkaðan tíma lausann á daginn á meðan aðrir geta helgað meiri tíma í þessa vinnu. Rannsóknir sýna að það sem skiptir mestu máli hvað varðar inngrip er að þau passi sem best við ykkur sjálf. Sem dæmi var rannsókn sem sýndi fram á að vellíðan jókst meira hjá fólki sem skrifaði þakklætislista einu sinni í viku samanborið við fólk sem gerði það þrisvar í viku.

Fyrsta æfing tengist þakklæti. Þú getur fundið fyrir þakklæti þegar þú veitir því athygli hversu auðugt lífið þitt og þínar kringumstæður eru. Það eru margir hlutir í lífinu okkar, bæði smáir og stórir, sem við getum verið þakklát fyrir en við tökum þeim sem sjálfsögðum hlut. Bara eins og það eina að vera þakklát/ur fyrir að vera til, að hafa vinnu, að eiga góða að, fyrir morgunmatinn sinn, fyrir heimilið sitt, fyrir heilsuna og fyrir börnin sín.

Hugarefling vikunnar: Þakklætislisti

 Skrifaðu niður 3-5 hluti sem þú ert þakklát/ur fyrir. Þið ráðið hversu oft þið gerið það yfir vikuna. Hvort sem þið viljið gera listann þrisvar sinnum eða fimm sinnum, þá er það undir ykkur komið. Ég ætla setja mér það markmið að gera hann alla daga vikunnar. Þið ráðið líka hvenær þið gerið listann en ég ætla gera hann á morgnana.

Vonandi taka sem flestir þátt í þessu með mér. Það væri fáránlega gaman að heyra ykkar reynslu af þessum inngripum og ég myndi elska að sjá ykkur deila þeim með fjölskyldu, vinum eða á samfélagsmiðlum (t.d. snapchat eða instagram story).

Hlakka til að heyra hvernig þið upplifið þetta og ekki hika við að tagga mig @beggiolafs

Döðlukúlur

Skrifa Innlegg