fbpx

SUNNUDAGSBRÖNS : BLÁBERJASKONSUR MEÐ HVÍTU SÚKKULAÐI

EFTIRRÉTTIR & KÖKURMORGUNMATUR & BRÖNSUPPSKRIFTIR

Þessir dagar eru heldur betur skrítnir enda höfum við ekki upplifað svona tíma áður. Mikil heimavera og notalegheit einkenna daga okkar. Börnin mín eru reyndar ekki heima allan daginn en ég býst við að það breytist fljótlega. Unnar minn hefur verið hálfan daginn í skólanum og Eddan mín er ennþá hjá dagmömmunni. Við reynum að njóta sem mest samverunnar og pössum uppá að vera ekki alltaf með fréttirnar í gangi þótt það sé afar freistandi. Mér finnst mikilvægt að hugsa um eitthvað annað og þá er matargerð ofarlega í huga. Það er svo notalegt að dunda sér í eldhúsinu með börnunum sínum, baka eða elda eitthvað gott.

Ég gerði þessar ljúffengu skonsur með bláberjum og hvítu súkkulaði og mikið eru þær góðar! Þær eru afar einfaldar og ekki alltof sætar. Passa sérlega vel með kaffinu og svo er mjög gott að smyrja þær með smjöri. Til að halda jafnvæginu var ég með egg og avókadó á hrökkbrauð. Bar það síðan fram með chili flögum og sítrónubátum. Dásamlega góður bröns!

Uppskrift gerir 8 skonsur
300 g hveiti + meira til að hnoða
2 msk sykur
1 msk lyftiduft
1 tsk salt
170 g smjör, kalt
2 egg
130 ml rjómi
100 g bláber
100 g hvítir súkkulaðidropar
1 msk sykur
1 egg

Aðferð

  1. Hrærið saman hveiti, sykri, lyftidufti og salti.
  2. Skerið smjörið í ca. 1 cm bita og hrærið við hveitið þangað til það verður eins og brauðmylsna. Hrærið saman rjóma og eggjum og hellið því rólega út í hveitiblönduna.
  3. Að lokum bætið þið bláberjum og súkkulaði við en hrærið bara stutt, þið getið líka notað hendurnar til þess að hnoða því saman við.
  4. Hnoðið deiginu rólega saman, notið auka hveiti eins og þarf. Mótið úr því hring sem er ca. 18-20 cm og 2,5 cm þykkt og leggið á bökunarplötu þakta bökunarpappír.
  5. Penslið egginu ofan á og stráið sykrinum yfir. Skerið skonsuna í átta sneiðar áður en þið setjið hana inn í ofn.
  6. Bakið í 30 mínútur við 190°C eða þar til að hún er orðin gyllt og hefur risið.

VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU OG NJÓTIÐ DAGSINS!

// HILDUR RUT

INSTAGRAM: @hildurrutingimars

PIZZA MEÐ KARTÖFLUM OG TRUFFLU AIOLI

Skrifa Innlegg