Hvernig væri að skella í dýrindis spaghetti carbonara sem tekur enga stund að útbúa og er dásamlega gott? Þessi uppskrift inniheldur fá en góð hráefni og er gerð í samstarfi við Innnes. Ég veit að margir hafa prófað að elda carbonara en ég mæli mikið með þessari útgáfu. Klassískur réttur sem klikkar ekki og passar sérlega vel með ísköldu hvítvíni, salati og hvítlauksbrauði. Tilvalið á þessum tíma árs þegar mikið er að gera hjá öllum og lítill tími fyrir eldamennsku.
Uppskrift fyrir fjóra
350 g spaghetti frá De Cecco
1 msk ólífuolía
270 g beikonsneiðar
2 msk smjör
2 hvítlauksrif
4 eggjarauður
2 dl rifinn parmesan ostur + meira til að toppa með
1/2-1 dl steinselja, smátt skorin
Salt og pipar
Pastavatn eftir smekk
Aðferð
- Byrjið á því að smátt skera beikon, aðskilja eggjarauðurnar frá eggjahvítunum, rífa parmesan ostinn og smátt skera steinseljuna. Gott að hafa allt tilbúið áður en þið sjóðið spaghetti.
- Sjóðið spaghetti eftir leiðbeiningum á pakkningu með smá salti í vatninu.
- Steikið beikon upp úr 1 msk ólífuolíu þar til það verður stökkt. Lækkið í hitanum og bætið smjöri saman við.
- Hrærið saman eggjarauðum, parmesan osti, steinselju, salti og pipar í skál. Bætið pastavatni saman við til að þynna sósuna eftir smekk en passið að vatnið sé ekki bullsjóðandi (við viljum ekki að eggin eldist).
- Bætið spaghetti saman við beikonið á pönnunni og hrærið saman.
- Takið pönnuna alveg af hellunni og blandið eggjablöndunni saman við. Það er mikilvægt að hafa ekki hita undir pönnunni þannig að eggin eldist ekki.
- Toppa svo í lokin með parmesan osti, steinselju og njóta.
VERÐI YKKUR AÐ GÓÐU & NJÓTIÐ! ♥
// HILDUR RUT
INSTAGRAM: @hildurrutingimars
Skrifa Innlegg